Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Fjórfættu fjölskyldumeðlimirnir: „Hann hefur alltaf verið til staðar, elskað mig, aldrei dæmt mig eða farið neitt“

Hlut­verk hunda í ís­lensku sam­fé­lagi hef­ur breyst tölu­vert hér­lend­is síð­ustu ára­tugi. Að­eins eru tæp 40 ár lið­in frá því hunda­bann var í Reykja­vík en nú eru fjór­fætl­ing­arn­ir tíð­ir gest­ir í fjöl­skyldu­mynda­tök­um og Kringl­unni og breyta lífi fólks til hins betra.

<span>Fjórfættu fjölskyldumeðlimirnir:</span> „Hann hefur alltaf verið til staðar, elskað mig, aldrei dæmt mig eða farið neitt“
Hundar veita gleði Fenrir og Elísa eiga sterkt og traust samband. Hún, líkt og aðrir viðmælendur, segir hann ómetanlegan hluta af fjölskyldunni. Mynd: Heiða Helgadóttir

Fenrir er fimm ára Alaskan Malamute-hundur búsettur í Grafarvogi með eiganda sínum, Elísu Elínardóttur, og tveimur sonum hennar. Hann er hár í loftinu, afar loðinn og tekur vel á móti blaðakonu. Elísa segir Fenri mikilvægan hluta af fjölskyldunni enda hefur hann reynst henni dýrmætur stuðningur á erfiðum tímum. Fyrir fimm árum síðan sáu Elísa og barnsfaðir hennar auglýst got. „Okkur hafði bæði alltaf langað í Husky eða einhvern sleðahund. Við hugsuðum bara: Ókei, fokk it, þeir verða stórir og miklir en prufum þetta! Af hverju ekki?“

Fenrir og ElísaHafa gengið í gegnum ýmislegt saman.

„Við gerðum okkur ekki grein fyrir því hvað hann yrði stór,“ segir Elísa með bros á vör. „Svo hætti hann ekki að stækka eða borða, og við bara: Já, hvar ætli þetta endi eiginlega?“ Skýringin á stærðinni er sú að pabbi Fenris er hálfur risi en í dag er Fenrir heil 50 kíló. 

Klettur fjölskyldunnar

Elísa lýsir Fenri sem afar góðum en líka svolítið uppátækjasömum. „Hann tekur upp á alls konar en heilt yfir hefur gengið vel. Maður verður líka að átta sig á því að hann er sinn eigin karakter.“ Þegar Fenrir var lítill hvolpur fór Elísa að velta því fyrir sér hvað hundurinn væri að hugsa. Hún tók upp á því að skrifa dagbókarfærslur út frá sjónarhorni Fenris sem hún deildi í Facebook-hópnum Hundasamfélagið. Færslurnar fengu góðar undirtektir. „Fenrir gerir kannski eitthvert prakkarastrik, ég skrifa um það og deili því. Fólk sér það og hugsar, já! Þetta er það sem minn hundur gerir. Það tengir við þetta.“ Elísa gaf út bók með færslunum árið 2021 og vinnur nú að næstu bók sem hún stefnir á að klára fyrir jólin.

FenrirPrakkarast Elísu til mikillar skemmtunar.

„Fólk úti á götu þekkir okkur stundum og spyr hvort þetta sé Fenrir. Það er ótrúlega gaman. Svo fæ ég oft sendar vinabeiðnir eða skilaboð þar sem fólk spyr hvort við getum hist með hundana okkar, mér finnst það geggjað því að þá næ ég líka að kynna þessa tegund á Íslandi,“ segir Elísa.

Hvert er hlutverk Fenris í þinni fjölskyldu?

„Hann er búinn að taka sér svolítið það bessaleyfi að vera lögreglustjórinn. Ef ég er að ærslast með strákunum mínum, þá vill hann stilla til friðar. Þá geltir hann og ýlfrar, vill ekki læti hérna inni. Ef ég labba með hann úti seint á kvöldin og það kemur karlmaður á móti mér, þá alveg ...“ Elísa setur í brúnirnar. „Það er smá varnareðli í honum.“

„Fyrir mér hefur hann verið mín huggun og minn klettur, eins fáránlegt og það hljómar kannski fyrir fólki sem á ekki hund. En allt sem ég hef gengið í gegnum með honum ... hann hefur alltaf verið til staðar, elskað mig, aldrei dæmt mig eða farið neitt. Þannig að manni þykir ótrúlega vænt um hann.“ Elísa segir syni sína dýrka Fenri. „Hann er kletturinn okkar allra.“

„Fyrir mér hefur hann verið mín huggun og minn klettur,“
Elísa Elínardóttir

Óvæntur gleðigjafi

Hjónin Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir og Styrmir Kári eru ljósmyndarar með sinn fyrsta hvolp. „Mig hefur langað í hund í mörg ár,“ segir Styrmir en lýsir Heiðdísi sem meiri kattamanneskju. Fyrir tveimur árum lést köttur hjónanna og í júní á þessu ári, eftir smá umhugsunartíma, sagðist Heiðdís tilbúin í að verða hundaeigandi. „Styrmir hafði samband við ræktanda og bjóst við að það væri bið en hún var akkúrat með got og var ekki búin að finna heimili fyrir alla, þannig að við slógum til,“ segir Heiðdís. Aðeins tveimur vikum seinna var hinn átta vikna Stígur, skjannahvítur og mjúkur Samoyed, kominn til þeirra. 

Styrmir, Stígur og HeiðdísHafa verið þrjú saman í hálft ár og gengur vel.

Nafnið Stígur er lýsandi fyrir lífsstíl hjónanna sem fóru hringinn í kringum landið með hvolpinn nú í sumar. „Það þýðir sá sem ferðast, við vorum að reyna að miðla því að við ætlum að fara með hann um allt land,“ segir Heiðdís sposk, en þau hjónin eru brúðkaupsljósmyndarar og því oft á flakki um landið. „Við erum aðallega að mynda erlenda ferðamenn sem eru að gifta sig úti í náttúrunni.“ Hundurinn nýtur vinsælda meðal brúðhjóna sem sum hver biðja um að fá myndir með honum á stóra deginum.

Heiðdís og Styrmir lýsa hvolpalífinu sem krefjandi en gefandi á sama tíma. „Maður hugsar ekki um neitt annað en piss, kúk og hvort hann sofi nóg. Fyrstu vikurnar fara bara í að hugsa um hann og reyna að vinna með,“ segir Heiðdís. 

„Það finnst öllum hann svo sætur,“
Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Styrmir nýtur þess að þjálfa Stíg og leggur áherslu á umhverfisþjálfun um þessar mundir. „Við erum að klára hundanámskeið núna í vikunni,“ segir Styrmir sem bætir við: „Hann elskar mat þannig að það er auðvelt að stjórna honum. Maður er bara með mat í vasanum. Það er eiginlega erfiðast þegar við erum á ferðamannastöðum, það finnst öllum hann svo sætur,“ segir Heiðdís brosandi.

Amma Voffa

Helga Þórunn Sigurðardóttir ræktar tegundina Border Terrier á Íslandi undir nafninu Fjalladals Border Terrier. Um þessar mundir eru fimm hundar á heimili Helgu en tveir af þeim eru hvolpar sem að öllum líkindum fara á framtíðarheimili sín bráðum. 

Helga og hvolparnirEftir langa bið eignast Helga loksins hund fyrir níu árum, í dag ræktar hún tegundina Border Terrier.

„Mig langaði alltaf í hund og var alltaf vælandi um hund sem krakki en þá var náttúrlega hundabann,“ segir Helga, sem eignaðist sinn fyrsta hund, Línu Langsokk, fyrir níu árum síðan. Lína er Border Terrier-hundur. „Þetta eru hundar sem eru ræktaðir til minka- og refaveiða á Íslandi. Þeir eru svo litlir að þeir komast ofan í holu til að ná í kvikindin,“ tekur ræktandinn fram en hún lýsir tegundinni sem manngóðri og orkumikilli. 

Það var aldrei á dagskránni að verða hundaræktandi en eftir að Lína eignaðist tvo hvolpa var ekki aftur snúið. Úr gotinu kom Gjóska en hún er íslenskur, Norðurlanda- og alþjóðlegur meistari í hundasýningum.

Nýverið sló Gjóska met og eignaðist tíu hvolpa í einu goti. „Við fórum í hvolpatalningu nokkrum dögum fyrir got. Þar eru hryggjarsúlurnar taldar á röntgenmyndum. Ég man þegar að þau voru komin upp í sjö. Ég sagði bara: Ertu ekki að grínast?“ Helga hafði vonast eftir fjórum, fimm eða jafnvel sex hvolpum. „Þau héldu áfram að telja, átta, níu og svo kom tíundi!“ Þegar hvolparnir komu í heiminn flutti Helga inn í herbergi til Gjósku og hvolpanna þar sem hún vakti yfir þeim og sá til þess að öll væru þau vel nærð.

Hvert er hlutverk hundanna í þinni fjölskyldu? 

„Þeir eru rosalegir gleðigjafar og ég á tvö barnabörn. Strákurinn er níu ára og honum finnst þetta æðislegt. Svo á ég eina litla sem er tveggja og hálfs, hún kallar mig amma Voffa. Hún segir: Mamma kíkja amma voffa. Það er ótrúlega sætt.“ 

Eðli hunda

Þórhildur Bjartmarz þekkir vel til sögu hunda á Íslandi en hún er hundaeigandi, þjálfari og fyrrum formaður Hundaræktunarfélags Íslands. Á heimili Þórhildar eru yfirleitt tveir, þrír eða jafnvel fjórir hundar í senn. „Ég hef verið með alls konar hunda, Scheffer, Border Collie, Springer Spaniels, Border Terrier og fleiri.“ Þjálfarinn segir það skemmtilegt hvað eðli hunda sé ólíkt eftir tegundum en að einnig sé einstaklingsbundinn munur innan hvers kyns.

Þórhildur BjartmarzÁ yfirleitt tvo, þrjá eða fjóra hunda í senn.

Fyrir 12 árum síðan fékk Þórhildur sér íslenskan fjárhund. Hún lýsir þeim sem hraustum, vinalegum, góðum og traustum hundum í mátulegri stærð. Þórhildur minnist þess að hundurinn hennar hafi séð hesta í um það bil kílómetra fjarlægð og byrjað að gelta að þeim og fylgjast með. Þegar Þórhildur varð vitni að þessari hegðun vaknaði áhugi hennar á að skilja eðli hundsins, en hún segir hlutverk íslenskra fjárhunda hér áður fyrr gjarnan hafa verið að reka úr túnum og smala hestum. 

Úr hundabanni í myndatökur

Á sjötta áratug síðustu aldar þurrkaðist íslenski fjárhundurinn nánast út vegna þess að mælst hafði verið til þess að honum yrði blandað við Border Collie. „Sá sem gerði sér fyrstur grein fyrir stöðunni var enskur aðalsmaður að nafni Mark Watson,“ segir Þórhildur. Watson tók að safna saman íslenskum fjárhundum um allt land til að bjarga tegundinni. „Þess vegna höldum við upp á dag íslenska fjárhundsins á fæðingardegi Mark Watson. Til að heiðra hans minningu, hans störf og þeirra sem komu með honum. Hann fékk fólk í lið með sér til að sinna þessum störfum, til dæmis þáverandi yfirdýralækni, Sigríði Pétursdóttur, og fleira fólk austur í sveit.“

Þótt tekist hafi að bjarga tegundinni og hún sé ein sú vinsælasta í dag er ekki langt síðan að almenningur taldi hunda eiga heima úti í sveit. „Árið 1924 var sett á hundabann í Reykjavík og flestum kaupstöðum landsins. Það var ekki fyrr en 1984 að það fékkst undanþága frá þessu banni með ströngum skilyrðum. Þú þurftir að sækja um leyfi til að halda hund og borga tiltölulega háa upphæð fyrir það,“ segir Þórhildur en hún átti sjálf hund á þessum tíma. „Maður var alltaf með hundinn í bílnum og kenndi honum að leggjast niður, sérstaklega ef það sást til lögreglubíls.“ Hún segir það hafa verið létti þegar banninu var aflétt þó að reglurnar hafi enn verið strangar. 

Í dag er raunveruleikinn allt annar eins og sjá má á viðhorfum viðmælenda greinarinnar til hunda sinna. Þeir eru hluti af fjölskyldunni og veita fólki gleði, tilgang og stuðning. Þórhildur hefur tekið eftir þessari breytingu. „Þegar fjölskylda fer í myndatöku þá fer hundurinn með. Þetta var óhugsandi fyrir einhverjum árum síðan en nú eru þeir partur af fjölskyldunni.“

Hundavinir

Karen Björg JóhannsdóttirVerkefnastjóri Vinaverkefnis Rauða krossins

Karen Björg Jóhannsdóttir er verkefnastjóri Vinaverkefnis hjá Rauða krossi Íslands. „Markmið Vinaverkefna er í grunninn að styrkja og efla félagslega þátttöku þeirra sem upplifa félagslega einangrun eða einmanaleika. Allir þátttakendur í verkefninu veita félagsskap, nærveru og hlýju. Við förum vel yfir það í undirbúningi með sjálfboðaliðum hvað félagsleg einangrun er og hvernig hún birtist í samskiptum við gestgjafa.“ Einn hluti Vinaverkefnisins kallast Hundavinir og var stofnað árið 2006. Verkefnið nýtur mikilla vinsælda og byggir á norskri forskrift.

Hundurinn virkar sem eins konar milliliður gestgjafa, þess sem óskar eftir heimsókninni, og sjálfboðaliða. „Þeim sem eru ekki jafn sterk félagslega finnst oft betra að geta haft hundinn sem millilið. Þá geturðu alltaf leitt samtalið að hundinum eða klappað honum.“

SjálfboðaliðiHeimsóknir sjálfboðaliða með hunda og göngutúrar geta gert gæfumun fyrir gestgjafa Hundavina.

„Heimsóknin miðar við þann tíma sem hundurinn treystir sér til að vera. Það getur verið allt frá 35 mínútum upp í 45, jafnvel klukkutíma,“ segir Karen, sem bætir við að sjálfboðaliðar læri að fylgjast vel með þeim merkjum sem hundar senda frá sér þegar þeir vilja fara heim. 

VinurÞessi hundur hefur tekið þátt í Hundavina-verkefni Rauða krossins.

Rauði krossinn leitar ekki eftir sérstökum hundategundum heldur er áherslan frekar lögð á gott geðslag. „Að hundarnir séu félagslyndir og forvitnir um umhverfið sitt, jafnt og aðra einstaklinga. Við gerum líka kröfur um að þeir séu orðnir tveggja ára því að þá eru helstu hvolpalætin farin.“

Karen segir verkefnið skila góðum árangri en mikil eftirspurn er eftir sjálfboðaliðum. „Gestgjafar tala um að heimsóknirnar veiti þeim mikla hlýju. Svo eru sjálfboðaliðarnir mjög jákvæðir í garð verkefnisins og tala um að þau finni fyrir því að þetta skipti máli.“ 

„Svo eru sjálfboðaliðarnir mjög jákvæðir í garð verkefnisins og tala um að þau finni fyrir því að þetta skipti máli,“
Karen Björg Jóhannsdóttir,
verkefnastjóri Vinaverkefnis Rauða krossins

Hundar í Kringlunni

Hundar fá æ meira pláss innan samfélagsins þótt þeir séu ekki boðnir velkomnir alls staðar. Fyrir þremur árum opnaði Kringlan dyr sínar fyrir smáhundum alla sunnudaga. Baldvina Snælaugsdóttir, markaðsstjóri Kringlunnar, lýsir þessari nýjung sem tilraunaverkefni sem gekk vonum framar. „Í rauninni kom þetta fyrst upp sem hugmynd frá rekstraraðila í húsinu sem var með margar ungar konur í vinnu og tók eftir því að fleiri og fleiri voru að fá sér smáhunda.“ Starfsfólkið ræddi mikið hvers vegna það mætti ekki koma með hundana með sér í verslunarmiðstöðina. „Þetta var bara tekið fyrir og ákveðið að prófa,“ segir Baldvina. 

SmáhundurVel greiddur smáhundur í búðarleiðangri með eiganda sínum.

„Við köllum þetta smáhundadaga af því að það er skilyrði að þú getir haldið á hundinum þínum í rúllustiganum og líka tekið hann í fangið, ef hundurinn verður hræddur eða gestur í húsinu. Þá viljum við að eigandinn geti tekið stjórnina.“ 

Baldvina segir viðbrögð viðskiptavina hafa verið jákvæð, sér í lagi vegna þess að heimsóknirnar séu góð umhverfisþjálfun fyrir hunda. „Sunnudagar eru oftast rólegri en laugardagar í húsinu. Það lifnar yfir öllum og það brosa allir. Þetta er það sem við höfum fengið að heyra frá gestum. Þeim finnst gaman að sjá þessi krútt og finnst þetta skapa öðruvísi stemningu.“

„Við erum bara að taka þátt í þessu með breyttum tímum og nýrri hugsun hjá nýjum kynslóðum. Maður veit ekki neitt nema prófa og reynslan er það góð af þessu að við erum klárlega að fara að halda áfram og hlúa betur að þessu.“

MíaFjórfætlingur í lopapeysu stillir sér upp fyrir myndavélina.

Ekki er búið að taka ákvörðun um hvort fjölga eigi þeim dögum þar sem hundar eru leyfilegir sem stendur. „Við tökum þetta reglulega fyrir á  markaðsráðsfundum og förum yfir þetta. Við þurfum náttúrlega að vinna þetta í góðu samstarfi við alla aðila í húsinu sem eru með rekstur.“ 

Kjósa
6
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Frá endurlífgun á bráðamóttökunni í umönnun leikskólabarna
4
ViðtalÍ leikskóla er álag

Frá end­ur­lífg­un á bráða­mót­tök­unni í umönn­un leik­skóla­barna

Líf Auð­ar Ólafs­dótt­ur hjúkr­un­ar­fræð­ings og fjöl­skyldu tók stakka­skipt­um síð­asta haust þeg­ar hún sagði skil­ið við Bráða­mót­töku Land­spít­al­ans eft­ir átta ára starf og hóf störf á leik­skóla barn­anna sinna til að koma yngra barn­inu inn á leik­skóla. „Ég fór úr því að vera í end­ur­lífg­un einn dag­inn yf­ir í að syngja Kalli litli kóngu­ló hinn dag­inn.“

Mest lesið í mánuðinum

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár