Þessa dagana er skólahald að hefjast á ný eftir sumarleyfi og daglegt líf að komast í rútínu. Formlegt skólastarf er hafið og nú sjáum við líka auglýsingar frá ýmsum aðilum sem auglýsa námskeið sem hægt er að sækja sér til fræðslu og tilbreytingar. Nóg er í boði og hægt að nefna námskeið hjá endurmenntunarstofnunum, íþrótta- og æfingastöðvum, námskeið í myndlist og handverki, tölvunám, jóga og núvitund svo eitthvað sé nefnt. Listinn er endalaus. Þessi námskeið eru yfirleitt dýr en mörg þeirra eru niðurgreidd af sjóðum stéttarfélaga. Í flestum tilfellum eru þau öllum opin en fæst eru þó í stakk búin að taka á móti fólki sem ekki getur fylgt hópnum í náminu.
Fjölmennt, símenntunar- og þekkingarmiðstöð býður upp á fjölbreytt námskeið fyrir fólk með fötlun, einkum fólk með þroskahömlun og fólk á einhverfurófi. Mörg undanfarin ár hafa framlög til Fjölmenntar ekki fylgt vísitölu- og launaþróun og hefur það haft í för með sér fækkun námstilboða fyrir markhópinn. Um 400 manns stunda nám á hverri önn og nú býðst fólki aðeins nám í 7 vikur sem er mikil skerðing frá fyrri árum.
Starfsemi Fjölmenntar fellur undir lög um framhaldsfræðslu. Nú stendur yfir vinna við heildarendurskoðun á framhaldsfræðslukerfinu. Einnig er starfandi vinnuhópur um aukin náms- og starfstækifæri fyrir fatlað fólk. Þar er stefnt að því að stórauka háskólanám og atvinnutengt nám. Nú þegar er hafið samstarf milli Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, Vinnumálastofnunar og Fjölmenntar við að hæfnigreina störf. Sú vinna á að skila atvinnutengdu námi og í framhaldinu vinnu á almennum vinnumarkaði. Þetta er mikið framfaraskref og á eftir að auka atvinnumöguleika fatlaðs fólks til muna.
En betur má ef duga skal. Það eru ekki allir að leita að háskóla- eða atvinnutengdu námi. Við þurfum líka að tryggja að fötluðu fólki bjóðist fjölbreytt námskeið eins og nefnd eru hér að framan. Í vinnu við endurskoðun laganna er áhersla á inngildingu, sem þýðir að fatlað fólk geti stundað nám þar sem allur almenningur er við nám. Því gætu verið breytingar í farvatninu og það er eðlilegt að þær verði í takt við tíðaranda og hugmyndafræði. En á meðan að markhópi Fjölmenntar býðst ekki nám annarsstaðar verður að tryggja að Fjölmennt geti haldið úti sínum fjölbreyttu námskeiðum.
Athugasemdir