Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Hitamál á flokksráðsfundi VG um helgina – Útlendingalög, hvalveiðar og auðlindir í þjóðareign

Hita­mál inn­an rík­is­stjórn­ar­inn­ar á borð við fram­kvæmd nýrra út­lend­ingalaga og hval­veiði­bann­ið eru með­al þess sem tek­ið er fyr­ir í drög­um að álykt­un­um sem liggja fyr­ir flokks­ráðs­þingi Vinstri grænna sem fram fer um helg­ina. For­sæt­is­ráð­herra kem­ur að álykt­un­ar­drög­um þar sem þess er kraf­ist að auð­lind­ir verði þjóð­ar­eign, þar með tal­inn fisk­ur­inn í sjón­um. Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn er með sinn flokks­ráðs­fund í dag og ligg­ur stjórn­mála­álykt­un hans fyr­ir síð­deg­is.

Hitamál á flokksráðsfundi VG um helgina – Útlendingalög, hvalveiðar og auðlindir í þjóðareign
Stefnan mörkuð Flokksráð er æðsta vald Vinstri grænna milli landsfunda en síðasti landsfundur var haldinn á Akureyri i haust. Mynd: Auðunn

Bæði Vinstrihreyfingin - grænt framboð og Sjálfstæðisflokkur eru með flokksráðsfundi sína um helgina. Flokksráðsfundur Vinstri grænna stendur yfir á laugardag og sunnudag, og fer fram í félagsheimilinu á Flúðum. Flokksráðsfundur Sjálfstæðisflokksins fer fram á Hilton Reykjavík Nordica í dag. Á flokksráðsfundum er stjórnmálastefna flokkanna mörkuð á milli landsfunda. 

Þjóðgarður, áfengissala og veiðigjöld

Drög að ályktunum um auðlindir í þjóðareign, stofnun þjóðgarðs á hálendinu, veiðigjöld og nýtt fyrirkomulag á eignarhaldi ríkisins í fjármálafyrirtækjum, auk draga að ályktunum um málefni umsækjenda um alþjóðlega vernd og áfengissölu, eru meðal þess sem liggur fyrir fundi Vinstri grænna. Því er ljóst að þar verður fjallað um fjölda mála sem ekki ríkir eining um innan stjórnarflokkanna. Verði drög að ályktunum sem liggja fyrir fundinum samþykkt þá gæti það skapað stærri gjá milli samstarfsflokkanna þriggja sem ráða Íslandi.

Stemningin innan ríkisstjórnarflokkanna, þá sérstaklega Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks, virðist hafa verið að súrna síðustu mánuði, ekki síst vegna mála á borð við útlendingafrumvarp Jóns Gunnarssonar, fyrrverandi dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokks, hvalveiðibann Svandísar Svavarsdóttur, matvælaráðherra Vinstri grænna og skýrslu fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands um söluna á Íslandsbanka sem heyrir undir Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokks. 

Aðeins 36% styðja ríkisstjórnina

Ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar hefur verið starfandi frá því síðla árs 2017 en flokkarnir ákváðu að halda samstarfinu áfram eftir kosningarnar 2021. Katrín Jakobsdóttir hefur allan tímann verið forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson ráðherra fjármála. 

Samkvæmt nýjasta Þjóðarpúlsi Gallup er stuðningur við ríkisstjórnina aðeins 36%. Vinstri græn mældust með 6,1% fylgi síðustu mánaðamót, samanborið við 6,2% í júní. Flokkurinn fékk 12,6% í síðustu kosningum. Sjálfstæðisflokkur mældist með 21% fylgi, samanborið við 20,8 í júní. Flokkurinn fékk 24,4% atkvæða upp úr kjörkössunum. 

Gagnrýna lögin sem flokkurinn samþykkti

Í gær voru birt drög að ályktunum sem verða lagðar fram til samþykktar, breytingar eða synjunar á flokksráðsfundi Vinstri grænna. 

Hörð gagnrýni á framkvæmd útlendingafrumvarpsins er lögð fram í ályktunardrögum sem stjórnir þriggja aðilarfélaga Vinstri grænna leggja fram. 

„Framkvæmdin má ekki verða til þess að fólk sé skilið eftir á götunni. Slíkt er grafalvarlegt og í hróplegu ósamræmi við það samfélag sem við viljum búa í. Um leið er ítrekað mikilvægi þess að samkvæmt lögunum má ekki fella niður réttindi barna, foreldra eða umsjónarmanna þeirra og annarra heimilismanna sem teljast til ættingja barna, barnshafandi kvenna ásamt alvarlega veikum einstaklingum og fötluðum með langvarandi stuðningsþarfir. Grundvallarmannréttindi þeirra sem missa þjónustu verður að tryggja. Lokaðar flóttamannabúðir þar sem fólk er geymt þar til hægt er að senda það úr landi er ekki lausnin á þessari stöðu,“ er meðal þess sem segir í drögunum. Þegar umræða stóð yfir um frumvarpið á þingi bentu þingmenn stjórnarandstöðunnar á að fólk myndi lenda á götunni ef það yrði að lögum.

Í drögum að ályktun sem stjórn kjördæmisráðs VG í Norðausturkjördæmi hefur lagt fram segir: „Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn á Flúðum 26.-27. ágúst 2023, fagnar þeirri vinnu sem matvælaráðherra hefur unnið í tengslum við hvalveiðar sem byggir á faglegu mati og sjónarmiðum dýravelferðar. Flokksráðsfundurinn lýsir yfir fullum stuðningi við þær ráðstafanir sem gripið hefur verið til fram til þessa.“ Svandís og aðrir þingmenn hafa staðið þétt að baki banninu en það fór heldur illa í Sjálfstæðismenn og sagði Bjarni stöðvun hvalveiða ekki gott innlegg inn í stjórnarsamstarfið. 

Spurningamerki við lúxusferðaþjónustu á hálendinu

Stjórn Vinstri grænna, sem meðal annars er skipuð Katrínu og Guðmundi Inga Guðbrandssyni félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefur lagt fram drög að ályktun um mikilvægi þess að sett verði ákvæði um auðlindir í þjóðareign í stjórnarskrá líkt og Katrín lagði fram á þingi á síðasta kjörtímabili. 

„Ísland byggir tilvist sína á náttúruauðlindum og það hefur aldrei verið mikilvægara að setja þá grundvallarreglu að þær séu þjóðareign, skýrar reglur gildi um mögulega nýtingu þeirra og tryggt sé að hún sé sjálfbær. Það á við um fiskinn í sjónum, orku, vatn, jarðefni á landi og á hafsbotni, ósnortna náttúru og allar aðrar þær auðlindir sem finna má í náttúru Íslands,“ segir þar meðal annars. Þá er þar bent á að nýleg viðskipti með hluta vatnsauðlindarinnnar sýni að eftirspurn eftir ýmsum auðlindum er gríðarlega hvaðanæva úr heiminum. 

„Þá er rétt að árétta að löngu tímabært ákvæði um umhverfis- og náttúruvernd verði samþykkt í stjórnarskrá þar sem almannarétturinn er einnig tryggður en uppbygging lúxusferðaþjónustu á hálendi Íslands vekur spurningar um vernd lítt snortinna víðerna og rétt almennings til að fara um þau,“ segir einnig í drögunum. 

Ís- kúa- og ferðaþjónustubóndi í pallborði

Stjórn flokksins leggur einnig fyrir fundinn ályktunardrög um að leggja skuli niður Bankasýslu ríksins og taka þurfi upp nýtt fyrirkomulag á eignarhaldi í fjármálafyrirtækjum sem er að hluta eða í heild í eigu ríkisins. „Bankasýsla ríkisins fór með framkvæmd á sölu hlutar í Íslandsbanka og bar þar leiðbeiningar- og eftirlitsskyldu gagnvart Íslandsbanka og öðrum þeim fjármálafyrirtækjum sem tóku þátt í þeirri sölu. Ekki er hægt að líta fram hjá ábyrgð stofnunarinnar á framkvæmdinni að þessu leyti og mikilvægt að betra fyrirkomulag verði tekið upp hvað varðar eignarhald á fjármálafyrirtækjum. Þá hvetur fundurinn til þess að þau skref sem stigin voru á síðasta kjörtímabili til að aðskilja viðskipta- og fjárfestingabankastarfsemi verði metin og tekið til skoðunar að lögfesta fullan aðskilnað,“ segir þar. Þetta er raunar ekki í fyrsta sinn sem lögð er áhersla á að leggja niður Bankasýsluna og samþykkti sitjandi ríkisstjórn á síðasta ári að gera það.

Ályktunardrögin verða til umræðu á fundinum í dag og greidd verða atkvæði um þær fyrir hádegi á morgun, sunnudag. Á dagskrá fundarins eru einnig pallborðsumræður um mat framtíðarinnar þar sem korn- og svínabóndi, sveppabóndi, og ís- kúa- og ferðaþjónustubóndi verða meðal annarra. Þá er einnig farið í sérstaka sumarferð þar sem skoðuð er starfsemin á garðyrkjustöðinni Espiflöt auk gönguferðar þar sem Seyruverkefnið er kynnt. 

Geir H. Haarde mætir á Hilton

Flokksráðsfundur Sjálfstæðisflokks hefst klukkan 12:30 þegar Bjarni setur fundinn. Á dagskrá er meðal annars umræða um breyttan heim og nýjar áskoranir í öryggis- og varnarmálum. Geir H. Haarde fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra tekur þar til máls í pallborði ásamt öðrum.

Þá verða pallborðsumræður um „stjórnmálaviðhorfið“, sem ekki er skýrt nánar í dagskrá, þar sem þátt taka Bjarni, Þórdís Kolbrún Gylfadóttir Reykfjörð varaformaður, Vilhjálmur Árnason ritari flokksins og Óli Björn Kárason þingflokksformaður. Báðum þessum umræðum stýrir Ásta Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs.

Eftir kaffihlé er síðan málefnastarf í vinnuhópum þar sem unnið er í drögum málefnahóps um stjórnmálaályktun fundarins. Drögin hafa ekki verið opinberuð. Ályktunin er síðan samþykkt fyrir fundarslit klukkan hálf sex í dag.

Kjósa
8
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (1)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Ásgeir Överby skrifaði
    "Þá er þar bent á að nýleg viðskipti með hluta vatnsauðlindarinnnar sýni að eftirspurn eftir ýmsum auðlindum er gríðarlega hvaðanæva úr heiminum. "
    - Ísafjarðarbær selur 1 tonn af vatni til skemmtiferðaskipa á 407 kr. Í raun er bara verið að greiða fyrir þjónustuna, vatnið látið ókeypis. Til samanburðar kostar hálfpotts vatnsflaska í búð um 400 kr. En pottur af mjólk kostar rúmar 200 kr. svo það er margt skrýtið í kýrhausnum.
    1
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

„Hann sagðist ekki geta meir“
1
Viðtal

„Hann sagð­ist ekki geta meir“

„Ég gat ekki bjarg­að barna­barn­inu mínu. En ef það verð­ur til þess að ég geti kannski bjarg­að ein­hverj­um, þó ekki nema einu barni, þá vil ég segja sögu okk­ar,“ seg­ir Þór­hild­ur Helga Þor­leifs­dótt­ir kennslu­ráð­gjafi. Son­ar­son­ur henn­ar, Pat­rek­ur Jó­hann Kjart­ans­son Eberl, fannst lát­inn mið­viku­dag­inn 12. maí 2021, að­eins fimmtán ára gam­all. Hann hafði svipt sig lífi.
Svanhildur Hólm með áberandi minnsta reynslu af utanríkismálum
6
Fréttir

Svan­hild­ur Hólm með áber­andi minnsta reynslu af ut­an­rík­is­mál­um

Ljóst er að Svan­hild­ur Hólm, sendi­herra í Banda­ríkj­un­um, sker sig úr hópi koll­ega sinna frá Norð­ur­lönd­un­um hvað varð­ar tak­mark­aða reynslu á vett­vangi ut­an­rík­is­mála. Stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd bíð­ur enn svara frá ut­an­rík­is­ráðu­neyt­inu um vinnu­brögð ráð­herra við skip­un á sendi­herr­um í Banda­ríkj­un­um og Ítal­íu.

Mest lesið í mánuðinum

Leyniupptaka lýsir vinargreiða og hrossakaupum Bjarna og Jóns
1
Afhjúpun

Leyniupp­taka lýs­ir vin­ar­greiða og hrossa­kaup­um Bjarna og Jóns

Son­ur og við­skipta­fé­lagi Jóns Gunn­ars­son­ar þing­manns full­yrð­ir í upp­tök­um sem tekn­ar voru af manni sem sagð­ist vera fjár­fest­ir að Jón hafi sam­þykkt beiðni Bjarna Bene­dikts­son­ar um að þiggja sæti á lista gegn því að Jón kom­ist í að­stöðu til veita veiði­leyfi til Hvals hf. Það verði arf­leifð Jóns að tryggja Kristjáni Lofts­syni nán­um vini sín­um leyf­ið. Það sé hins veg­ar eitt­hvað sem eigi að fara leynt.
„Hann sagðist ekki geta meir“
2
Viðtal

„Hann sagð­ist ekki geta meir“

„Ég gat ekki bjarg­að barna­barn­inu mínu. En ef það verð­ur til þess að ég geti kannski bjarg­að ein­hverj­um, þó ekki nema einu barni, þá vil ég segja sögu okk­ar,“ seg­ir Þór­hild­ur Helga Þor­leifs­dótt­ir kennslu­ráð­gjafi. Son­ar­son­ur henn­ar, Pat­rek­ur Jó­hann Kjart­ans­son Eberl, fannst lát­inn mið­viku­dag­inn 12. maí 2021, að­eins fimmtán ára gam­all. Hann hafði svipt sig lífi.
Grunaði að það ætti að reka hana
3
Viðtal

Grun­aði að það ætti að reka hana

Vig­dís Häsler var rek­in úr starfi fram­kvæmda­stjóra Bænda­sam­tak­anna eft­ir að nýr formað­ur tók þar við fyrr á ár­inu. Hún seg­ir kosn­inga­vél Fram­sókn­ar­flokks­ins hafa ver­ið gang­setta til að koma hon­um að. Vig­dís ræð­ir brottrekst­ur­inn og rasísk um­mæli sem formað­ur Fram­sókn­ar­flokks­ins hafði um hana. Orð­in hafi átt að smætta og brjóta hana nið­ur. Hún seg­ist aldrei munu líta Sig­urð Inga Jó­hanns­son sömu aug­um eft­ir það.
Myndir af neyðarmóttöku sendar áfram: „Ekki myndir sem ég vildi sjá af sjálfri mér“
6
FréttirKynferðisbrot

Mynd­ir af neyð­ar­mót­töku send­ar áfram: „Ekki mynd­ir sem ég vildi sjá af sjálfri mér“

Lög­reglu var heim­ilt að senda mynd­ir sem tekn­ar voru af Guðnýju S. Bjarna­dótt­ur á neyð­ar­mót­töku fyr­ir þo­lend­ur kyn­ferð­isof­beld­is á verj­anda manns sem hún kærði fyr­ir nauðg­un. Þetta er nið­ur­staða Per­sónu­vernd­ar. Guðný seg­ir ótækt að gerend­ur í kyn­ferð­isaf­brota­mál­um geti með þess­um hætti feng­ið að­gang að við­kvæm­um mynd­um af þo­lend­um. „Þetta er bara sta­f­rænt kyn­ferð­isof­beldi af hendi lög­regl­unn­ar.“

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár