Sameiginlegt fylgi ríkisstjórnarflokkanna þriggja er komið niður í 33,2 prósent samkvæmt nýjustu könnun Maskínu. Það er 7,1 prósentustigi meira en fylgi þess flokks sem mælist með mest fylgi allra um þessar mundir, Samfylkingarinnar, en alls sögðust 26,1 prósent aðspurðra ætla að kjósa hana samkvæmt könnuninni. Samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna hefur ekki mælst minna á þessu kjörtímabili og það hefur verið undir 40 prósent síðan í febrúar. Flokkarnir þrír: Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Vinstri græn, fengu samtals 54,4 prósent atkvæða eftir síðustu kosningar og rúman meirihluta þingmanna. Þeir hafa því saman tapað 39 prósent kjósenda sinna á þeim tæpu tveimur árum sem liðin eru frá því að kosið var síðast til þings.
Stærsti flokkurinn í ríkisstjórninni, Sjálfstæðisflokkurinn, hefur aldrei mælst með jafn lítið fylgi í könnun Maskínu, en alls sögðust 17,6 prósent styðja hann. Flokkurinn hefur nú samfleytt mælst með undir 20 prósent fylgi í mánaðarlegum könnunum fyrirtækisins síðan í apríl og með undir 21 prósenti síðan í nóvember í fyrra. Sjálfstæðisflokkurinn fékk 24,4 prósent atkvæða í síðustu kosningum, sem fóru fram haustið 2021. Því hefur flokkurinn tapað um 28 prósent af fylgi sínu á tæpum tveimur árum. Versta niðurstaða hans í kosningum í sögunni kom árið 2009, þegar hann fékk 23,7 prósent atkvæða. Miðað við gengi í skoðanakönnunum undanfarið stefnir í að það met verði að óbreyttu slegið. Vert er þó að minna á að næstu kosningar þurfa ekki að fara fram fyrr en haustið 2025.
Grænu flokkarnir í frjálsu falli
Staðan hjá hinum stjórnarflokkunum er enn verri. Framsóknarflokkurinn, sigurvegari síðustu kosninga, hefur tapað næstum helming þess fylgis sem hann fékk í september 2021 þegar 17,3 prósent atkvæða féllu flokknum í skaut. Nú segjast 9,2 prósent landsmanna telja það best að kjósa Framsókn.
Vinstri græn virðast pikkföst í fallbaráttu stjórnmálanna og mælast nú með 6,4 prósent fylgi, sem er um helmingur þeirra 12,3 prósenta sem flokkurinn fékk í síðustu kosningum. Flokkur Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, sem var næst stærsti flokkur landsins eftir kosningarnar 2017 og sá þriðji stærsti eftir kosningarnar 2021, er nú einungis rétt stærri en Flokkur fólksins, sem mælist með 5,9 prósent fylgi, og Sósíalistaflokkur Íslands, sem mælist með 4,2 prósent. Það þýðir að sex flokkar mælast nú stærri en Vinstri græn.
Frjálslynda miðjan í sókn
Samfylkingin hefur allt þetta ár mælst stærsti flokkurinn í könnunum Maskínu. Hún hækkar lítillega milli mánaða og yrði langstærsti flokkurinn á þingi, með 8,5 prósentustigum meira en Sjálfstæðisflokkurinn, ef þetta yrði niðurstaða kosninga. Til að setja þá tölu í samhengi þá er fylgi Miðflokksins, sem hefur ekki mælst meira það sem af er kjörtímabilinu, nú 7,9 prósent. Samfylkingin er samkvæmt þessu með meira fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn og Miðflokkurinn samanlagt.
Píratar eru líka að hressast og mælast með 13,1 prósent, sem er besta niðurstaða þeirra síðan í mars. Sá flokkur hefur siglt nokkuð lygnan sjó í könnunum almennt á þessu kjörtímabili en það verður að hafa þann fyrirvara á að Píratar hafa tilhneigingu til að fá minna upp úr kjörkössunum en kannanir bentu til. Samkvæmt stöðunni eins og hún mælist nú myndu Píratar þó bæta við sig 4,5 prósentustigum frá síðustu kosningum.

Viðreisn er að mælast aðeins hærri en hún fékk síðast þegar var kosið. Alls segjast 9,5 prósent aðspurðra ætla að kjósa flokkinn en hann fékk 8,3 prósent.
Engin tveggja flokka stjórn möguleg
Hin svokallaða frjálslynda miðja, sem inniheldur Samfylkinguna, Pírata og Viðreisn, mælist nú með 48,7 prósent samanlagt fylgi, eða 15,5 prósentustigum meira en ríkisstjórnarflokkarnir. Þar munar vitanlega langmest um fylgisaukningu Samfylkingarinnar sem hefur bætt við sig tæpum Sjálfstæðisflokki það sem af er kjörtímabili, eða 16,2 prósentustigum. Þessir þrír flokkar ættu, miðað við niðurstöðu könnunar Maskínu, að geta myndað þriggja flokka stjórn saman með minnsta mögulega meirihluta.
Engin tveggja flokka stjórn yrði möguleg þar sem samanlagt fylgi tveggja stærstu flokkanna, Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, mælist einungis 43,7 prósent sem myndi vart duga fyrir meiru en 29 þingmönnum, en 32 þarf til að ná meirihluta.
Samfylkingin og Píratar, sem deila áherslum í fjöldamörgum málum, virðast í góðri stöðu til að velja hvort flokkarnir hafi hug á að mynda miðjustjórn, starfa til vinstri eða til hægri. Saman mælast þeir nú með um 26 þingmenn og vantar einungis sex til viðbótar til að mynda meirihlutastjórn.
Ríkisstjórnarflokkarnir eru, líkt og áður sagði, í órafjarlægð frá því að geta endurnýjað samstarf sitt ef ósennilegur vilji væri til þess innan raða þeirra, enda sameiginlegur þingmannafjöldi þeirra vart meiri en 22.
Könnunin fór fram dagana 17. til 22. ágúst 2023 og voru 954 svarandi sem tók afstöðu til flokks.
Athugasemdir (1)