Stjórnvöld telja stöðu þjóðarbúsins vera með ágætum þrátt fyrir mikinn hallarekstur hins opinbera þ.e. ríkis og sveitarfélaga, miklar opinberar skuldir, háa verðbólgu og hátt vaxtastig.
Það bætir lítið úr skák að skuldastaða hins opinbera sé ívið skárri sem hlutfall af vergri landsframleiðslu en í sumum nágrannalöndum. Íslenska hagkerfið er örsmátt, gjaldmiðilinn sveiflast upp og niður og lánstraust engan vegin jafn tryggt og t.d. í smáríkjum innan ESB. Skuldastaða hins opinbera mun ekki batna verulega á næstunni jafnvel þótt áætlað sé að skuldir ríkissjóðs minnki á næstu árum.
Kjarasamningar renna út í vetur. Búast má við að kröfur um verulegar launahækkanir verði háværar. Verði samið um miklar launahækkanir er ljóst að verðbólga mun ekki hjaðna nema síður sé og verðbólguvæntingar magnast upp. Þannig verður til vítahringur sem kallar á vaxtahækkanir og enn meiri launakröfur. Hið opinbera verður að draga úr útgjöldum til að bæta skuldastöðuna og mæta þungri vaxtabyrði. Útkoman er óstöðugleiki í þjóðarbúskapnum sem veldur búsifjum hjá þorra almennings.
Weber og verðlagshöft
Um áramót 2021 birtist hugleiðing eftir hagfræðinginn Isabellu Weber í Guardian þar sem hún færði rök fyrir því að hægt væri að beita markvissum verðlagshöftum (e. strategic price controls), til að hemja verðbólgu í stað þess að treysta eingöngu á stórfelldar vaxtahækkanir. Hún vísaði meðal annars í reynsluna frá stríðsárunum í Bandaríkjunum þar sem verðlagshöft komu í veg fyrir verðbólgu vegna eftirspurnar frá stríðsrekstrinum þar til þeim var aflétt.
Síðast var víðtækum verðlagshöftum beitt í Bandaríkjunum í forsetatíð Nixons árin 1971-74, að vísu með vafasömum árangri. Skemmst er frá því að segja að grein Webers vakti litla hrifningu meðal hagfræðinga jafnt frá hægri og vinstri. Vissulega eru verðlagshöft eitur í beinum þeirra sem aðhyllast frjálsan markaðsbúskap en með illu skal illt út reka. Weber hefur nú verið tekin í sátt að því leyti að markvissum verðlagshöftum hefur verið beitt bæði innan ESB og í Bandaríkjunum til dæmis varðandi orkuverð.
Verðlagshöft geta dregið úr getu fyrirtækja til að hækka verð í skjóli einokunar eða flöskuhálsa í aðföngum. Gallarnir eru hins vegar margir svo sem óhagkvæm nýting framleiðsluþátta, skert framboð, kostnaðarsamt eftirlit og svartamarkaðsbrask. Helsta vandamálið er þó að engin leið er að beita verðlagshöftum á eignaverð. Þannig er markaður með eldra húsnæði nánast uppboðsmarkaður og verðlagshöft ekki möguleg þótt húsnæðisverð vegi þungt í verðbólgumælingum.
Verðstöðvun á Íslandi
Geta hömlur á verðhækkanir gagnast í baráttunni við verðbólguna hér á landi? Þar sem uppspretta verðbólgunnar hefur verið um allt hagkerfið er lítið gagn í öðru en víðtækum verðlagshöftum eða eins konar tímabundinni verðstöðvun sem bremsar af verðbólgu og verðbólguvæntingar. Á verðstöðvunartímanum gefst svigrúm til að ná jafnvægi í búskap hins opinbera, gera kjarasamninga sem samrýmast lágri verðbólgu og lækka stýrivexti. Spurningin er hvort verðstöðvun sé yfirleitt framkvæmanleg svo gagn sé að. Frysting launa í samráði við aðila vinnumarkaðarins er forsenda árangurs. Verðstöðvun rýrir ekki kaupmátt launa. Þegar fram í sækir njóta launþegar og fyrirtæki góðs af lægri verðbólgu og hröðum vaxtalækkunum. Hvað varðar þjónustu hins opinbera, gengi, húsaleigu og matvælaverð er framkvæmdin tiltölulega einföld. Hér verða neytendur að vera í hlutverki eftirlitsaðila. Vaxtatækið er mun skilvirkara til að kæla eignaverð svo sem íbúðaverð. Þegar stýrivextir lækka á verðstöðvunartímanum verður að koma í veg fyrir húsnæðisbólu svo sem með hærri kröfum um eiginfjárframlag.
Að öðru leyti er hægt að beita verðlagshöftum á byggingarefni svo sem steinsteypu jafnframt því að efla framboðshliðina með skipulagningu sem miðar að lækkun byggingarkostnaðar. Hvað varðar tímalengd verðstöðvunar virðist eitt ár hæfilegur tími til að ná stöðugleika og gera kjarasamninga sem taka mið af breyttu umhverfi lágrar verðbólgu og lægra vaxtastigs.
Betri leiðir
Til lengri tíma litið eru aðrar og betri leiðir í boði til að ná stöðugleika í þjóðarbúskapnum.
Full aðild að ESB gefur, auk fyrirliggjandi ávinnings af EES, sæti við háborð ákvarðanatöku, opnar fyrir framkvæmdasjóði sem nýtast til uppbyggingar innviða sérstaklega á landsbyggðinni þar sem vegakerfið er alls ófullnægjandi. Mikilvægasti ávinningurinn af fullri aðild er upptaka evru. Þá næst fram langtíma verðstöðugleiki ásamt trausti á peninga- og fjármálakerfinu sem núverandi peningastefna hefur ekki náð að skapa. Traustur alþjóðlegur gjaldmiðill eflir fjárfestingu innanlands og utan og auðveldar áhættudreifingu lífeyris- og fjárfestingarsjóða.
Niðurstaða
Inngrip hins opinbera í verðkerfið er yfirleitt ekki til góðs. Samt sem áður er vert að skoða hvort hugmyndir um tímabundin verðlagshöft gætu hentað hér á landi til að bregðast við þeim erfiðleikum sem blasa við í efnahagsmálum á næstu mánuðum.
Höfundur er stjórnmálahagfræðingur.
Athugasemdir