Ég sat fyrir stuttu á stól innan um stæður af plötum og diskum og kassettum og bókum – ætlunin var að grisja rækilega bóka- og plötusafnið; fækka geisladiskum um einhver þúsund, plötum álíka mikið og bókum meira. Losa það úr tónlistarherberginu sem aldrei yrði aftur spilað og úr bókaherberginu (og hillunum í kjallaranum) það sem aldrei yrði aftur lesið eða handfjatlað.
Þetta vandasama verkefni stóð í marga daga, mánuði og í ár og ýmsir komu að því; til að losa hillur, bera kassa, flokka og raða og hjálpa til að rifja upp. Já, líka að pakka niður því sem gefið var vinum og vandamönnum, sem var reyndar nánast allt. Einum hjálparmannanna varð að orði þegar hann sá bóka- og plötuhauginn: Eitthvað hefur þú haft í laun um dagana.
Að ganga í skugga
Úr einum bunkanum gríp ég líkræðu yfir Gísla sýslumanni Magnússyni (Vísa-Gísla) eftir Jón Þorkelsson Vídalín og les: „Hvorsu margur hefur spunneð flooknar ráðagiorðer un stora og imislega hlute / en innan faarra daga hafa aðrer raiðgost um hvar hans andava lik skylde leggja.“
Úr öðrum diskinn 6 Feet Deep með Gravediggaz með textalínunni: „Walking in the shadows you realize / That life is nothing but a form of animated death“ (Mommy What's a Gravedigga?).
Í haug með erlendum bókum finn ég Booker-verðlaunabókina The Seven Moons of Maali Almeida eftir Shehan Karunatilaka þar sem ég las þetta: „Over a short and useless existence, you examined evidence and drew conclusions. We are a flicker of light between two long sleeps.“
„Ég hef aldrei lært að umgangast peninga og hef í raun og veru aldrei vitað hvað ég hef í laun og gæti ekki sagt þér það, kæri lesandi, nema með því að fletta því upp.“
Eitt til, nú úr Ævisögu Árna Þórarinssonar: „Mér verður því hugsað sem svo, þegar ég leiði hugann að hinum fjarlægu endalokum þessa verks, sem hér er hafið: Hvernig fór ekki fyrir Guðmundi Björnssyni landlækni? Hann sofnaði ægilega gáfaður að kvöldi en vaknaði annar maður að morgni. Ætti þetta ekki að vera bending til mín?“
Á alltaf nóg
Nú veit ég ekki hvað réði því að allt sem ég dró fram minnti mig á dauðann (þó að vissulega eigi: „Lijferne hins vijsa [...] eckert annað að vera enn dauðans ummþeinking“). Kannski var það vegna þess að ég var að greiða úr fjögurra áratuga flækju með tilheyrandi minningum, tónlist og textum (obbi tímans fór í að lesa og hlusta) en kannski líka vegna þessarar athugasemdar: Eitthvað hefði ég haft í laun um dagana sem fól einhvern veginn uppgjör í sér, afstemmingar, samantekt, súmmeraðir áratugir. Já, og kannski líka spurninguna um hvað ég hefði grætt, sem ég var víst beðinn um að svara.
Ég hef aldrei lært að umgangast peninga og hef í raun og veru aldrei vitað hvað ég hef í laun og gæti ekki sagt þér það, kæri lesandi, nema með því að fletta því upp. Og yrði kannski hissa sjálfur. Eða miður mín. Sennilega þó ekki miður mín, því mér finnst ég alltaf eiga nóg. Og hefur alltaf fundist. Þó færa megi rök fyrir því að stundum hafi það verið of mikið.
Ég verð líka að viðurkenna að ég hef aldrei vitað hvað hlutir kosta og hef því ekki hugmynd um hvað allar þessar bækur og allar þessar plötur kostuðu eða myndu kosta í dag, en ég veit hvers virði þær eru og veit hvað ég hef grætt á því að eiga þær. Allt.
Athugasemdir