Í vetur leið beindist athygli að mengun frá bílum á höfuðborgarsvæðinu vegna þess að nokkra daga í röð skorti rok til að feykja henni frá mælinum á Grensásvegi. Þetta var ágætt að því leyti að við sáum svart á hvítu (bókstaflega) hve mikil mengun er í borginni – alla vinnudaga. Rifjast upp að amk. 60 ótímabær dauðsföll árlega eru talin stafa af útblæstri eiturefna frá bílum í borginni. (Á heimsvísu eru dauðsföll af völdum umferðarmengunar amk. 7 milljónir). Að mengunin ,,mælist há“ er ekki vandinn heldur að hún er alltof mikil og fer ekki – þótt hún fari eitthvert annað ef vindar blása.
Samtímis leið manni bjánalega að fylgjast með að borgin og ríkið rifust um hvort í gildi séu reglugerðir sem leyfa takmarkanir á umferð með boðum og bönnum. Hluti af lausninni liggur fyrir og er vel þekktur. Minni umferð er svarið. Þar koma fjarvinna með sveigjanlegum vinnutíma sterk inn.
Manngert skipulagsslys
Umferðarmengunin á höfuðborgarsvæðinu er að hluta manngert skipulagsslys. Ekki hvað varðar umferðarmannvirki heldur hvernig vinna er skipulögð. Vinnuskipulagið er samkvæmt venjum 19. aldar. Chaplin gerði því ágæt skil í kvikmyndinni Nútíminn þar sem fjölda fólks er sópað saman á tilteknum stað á tilteknum tíma og látið standa við færiband sem hreyfist hraðar og hraðar til að ,,auka afköstin“. Nema nú er mannskapurinn hlekkjaður við borð í húsum sem kallast skrifstofur. Þessi musterishyggja fær fullkomnun í dýrasta skrifstofuhúsnæði Íslandssögunnar á dýrasta byggingarsvæði landsins þar sem ríkisbanki og tvö ríkisráðuneyti ætla að skipa starfsmönnum að mæta til vinnu við þrengstu umferðaræðar borgarinnar. Hugsaði enginn neitt? Á bara að bjóða 19. öldina velkomna aftur? Nútíma Chaplins?
Þekkingarstarf býr í hausnum – kostnaðurinn á götunum
Margs konar framleiðsla og þjónusta byggir nú á þekkingarverkamönnum þar sem vinnuaflið býr í hausnum en ekki aflinu í höndum og fótum. Fyrir fjörutíu árum skrifuðu framsýnir menn um breytt störf með dreifðu vinnuframlagi á netinu. Þetta sáum við mörg fyrir löngu og hafa verið um skrifaðar lærðar bækur, en Kóvid-faraldurinn með þvinguðum breytingum sannaði öllum. Engu skiptir hvar þekkingarverkamenn staðsetja sig svo lengi sem þeir hafa aðgang að neti og tölvu. ,,Umferðarvandinn“ er því að hluta hugsunarvilla en ekki skortur á mannvirkjum eða ofgnótt af farartækjum. Mengunin sem mælist er afleiðing af þessari vitleysu. Fyrir öll óþörfu ferðalögin á nú að gera mannvirki fyrir – ekki tugi milljarða - heldur hundruð milljarða. Vegagerðin áætlar að umferðarþungi á höfuðborgarsvæðinu aukist um heil fimm prósent á þessu ári, ofan á aukningu fyrri ára. Fyrir stuttu gaf Vegagerðin út skýrslu þar sem sagði að stefna ætti að 15% samdrætti umferðar á höfuðborgarsvæðinu. Við fötum í þveröfuga átt.
Losunarheimildir sem við sjálf höfum ofnýtt kosta okkur í ár 350 milljónir. Sú tala á eftir að hækkar gríðarlega á næstu árum að óbreyttu. Forstjóri Strætó segir að það þýði ekkert að fjölga vögnum og ferðum til að vagnarnir standi bara fastir í umferðinni.
Sparnaður er raunverulegur
Aukin fjarvinna í Bandaríkjunum eftir Kóvid hefur sparað þarlendum skrifstofuverkamönnum 60 milljónir klukkustunda á ári sem ella hefðu farið í ferðir til og frá vinnu. Sextíu milljónir klukkutíma sem nú fara í að vinna meira, verja tíma með fjölskyldu og vinum, hanga á Fésbók og spara sér hellings peninga. Í 10 stærstu borgum Bandaríkjanna eru nú 50% skrifstofuhúsnæðis laus.
Í New York er laust skrifstofuhúsnæði sem samsvarar 27 Empire State byggingum. Venjan er að yfirfæra svona tölur frá Bandaríkjunum með því að deila með 1000 fyrir Ísland og sambærilegur sparnaður á ferðatíma gæti því verið 60.000 klukkustundir, mest á höfuðborgarsvæðinu. Það eru 2500 sólarhringar í minna álagi á göturnar.
Burt með álagstoppana í umferðinni
Stjórnarráðið ásamt ríkisstofnunum og Reykjavíkurborg eru saman lang stærsti vinnustaðurinn á höfuðborgarsvæðinu. Með því að auka fjarvinnu þar sem því verður við komið með gagnkvæmu samþykki starfsmanns og yfirmanns má draga umsvifalaust úr umferðinni – og þar með mengun. Með því að bæta enn í sveigjanlegan vinnutíma (blanda fjar- og staðvinnu meira yfir daginn) má draga stórlega úr þeim fáránlegu skipulagsmistökum sem kallast ,,álagstoppar“ í umferðinni. Og koma í veg fyrir gríðarlega tímasóun. Nei, það þarf engin mislæg gatnamót til að ná þessum árangri og ekki heldur laga eða reglugerðarbreytingar.
Það eina sem þarf er heilbrigð skynsemi. Slík skynsemi hefur verið túlkuð af einum ráðherra í ríkisstjórninni, Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, og að minnsta kosti einn ríkisforstjóri hefur tekið stórt skref í þessa átt eftir því sem mér er kunnugt. Fjöldi fyrirtækja og stofnana prófa sig áfram. Nú er bara að taka skrefið til fulls og það strax, kannast við 21. öldina og bjóða fjórða stig iðnbyltingarinnar velkomið.
Fjarvinnusamningar
Nei, hér þarf engan starfshóp um þverlæg stofnanamarkmið. Rétt eins og nú eru í boði ,,samgöngusáttmálar“ þar sem fólk fær bónus fyrir að koma gangandi, hjólandi eða með strætó í vinnuna, má taka upp ,,fjarvinnusamninga“ fyrir hvern og einn. Sumum hentar slíkt ekki, öðrum alveg 100% (eins og dæmi eru um með starfsfólk í íslenskri þjónustu sem býr erlendis). Líklegt er að mörkin liggi einhvers staðar á milli 20%/80% fyrir flesta. Að margir geti verið nálægt 80% í fjarvinnu meðan öðrum hentar sama hlutfall eða ennþá hærra í staðvinnu, en flestir einhvers staðar á milli.
Mér skilst að hámarksfjarvinnukvóti stjórnarráðsins sé einn dagur í viku (20%) með sérstökum leyfum aðeins. Það er fáránlega lágt hlutfall fyrir fjölmarga starfsmenn sem fylla göturnar á álagstímum að óþörfu með tilheyrandi mengun og tímasóun fyrir sig og aðra. Ef við leggjum saman opinbera geirann og einkafyrirtæki má tala um gríðarlegan sparnað í tíma, orku og þörf fyrir mannvirki – fyrir utan heilsubót. Hver samþykkti 60 ótímabær dauðsföll í Reykjavík árlega vegna umferðarmengunar? Tvo heila flugvélafarma af fólki í innanlandsflugi!
Hálfu sumarfríi sóað
Fyrir rúmlega einu ári var ég, opinber starfsmaður, enn og aftur í nokkurra vikna þvingaðri fjarvinnu vegna Kóvid 19. Sparnaðurinn hjá mér einum var miðað við fjórar vikur: 360 km akstur (eins og til Akureyrar heiman frá mér), amk 12 klukkustundir af dauðum tíma í umferðinni og sótspor af ca 30-40 lítrum af dísli. (Já, ég játa að ég fer úr og í vinnu einn í einkabíl). Þetta sparaðist á einum mánuði.
Ferðatími minn í vinnu og úr sveiflast á milli 10 klukkustundum á mánuði og 20 klukkustundum, eftir því hve vel mér tekst að forðast álagstíma. Ég á starfsfélaga sem verja tvöfalt lengri tíma á götum borgarinnar mánaðarlega. Þetta eru 2,5-5 vinnudagar í mánuði sem fara í ferðir vegna vinnu. Mér brá aðeins í brún við að skoða þessar tölur í samhengi. Án fjarvinnu væri ferðatíminn í og úr vinnu jafngildur sumarfríinu mínu á ársgrundvelli!
Kerfislæg gleymska
Röksemd mín er ekki sú að hér sé komin lausn sem hentar öllum. Þvert á móti. Engin ein lausn hentar öllum, en þessi þróun er hafin. Langt er síðan tekin voru alltof smá skerf hér og þar í kerfinu til að dreifa álaginu að morgni og síðdegis. Alltof smá eins og sjá má af einni athugun minni snemma í maí. Þá átti ég leið frá Gullinbrú vestur á Granda kl. 16.30 á fimmtudegi. Alla leiðina var samfelld bílaröð á móti mér í austurátt. Hvergi svo mikið sem tveggja metra bil á milli bíla. Var stórútsala í Bauhaus? Landsleikur i Mosó? Nei, allt þetta fólk var á leið ,,úr vinnunni“ og heim til sín. Á sömu mínútunni. Svo er þetta öfugt á morgnana eins og mælingar sýna.
Þessi reynsla mín er mjög sambærileg við marga aðra og við vitum öll að hún hefur að geyma skilaboð sem kerfið hefur samviskusamlega reynt að bæla niður eins og sjúkdóm. Umferðin er aftur orðin ,,eðlileg“ og ,,vinnustaðamenningin er aftur komin í fyrra horf“ og við erum ,,næstum búin að gleyma plágunni“ – sem betur fer. Þetta er hluti af þeirri skynvillu að ,,ástandið áður“ hafi verið eðlilegt. Sem það var auðvitað alls ekki.
Stjórnunarvandi
Ég nefndi tölur um aukna fjarvinnu í Bandaríkjunum og hef séð rannsóknir víða að. Vegna fjarvinnu hefur starfsánægja fólks aukist markvert. Enda er mjög áberandi tregða við að hverfa aftur til fyrri tíma í þeim starfsstéttum sem geta nýtt fjarvinnu, ekki síst í stórfyrirtækjum með víðfeðma starfsemi, alþjóðlegum stofnunum og samstarfi í fjarvídd. Kannanir gefa heilt yfir þær niðurstöður, bæði austan hafs og vestan, að framlegð og vinnuskilvirkni minnki ekki, oft eykst hún. Mest þar sem mikil þekking og sérhæfni starfsmanna er krafa. Það er helst í starfsgreinum með stíf rútínuvinnubrögð (símaver svo dæmi sé tekið) sem hætta virðist á að lýðurinn skili minni afköstum í dag en í gær. Það er líka viss hætta á því að höfuðkostur vinnustaðamenningar – persónuleg samskipti – auðgist ekki sem fyrr. Skiljanlega. Þess vegna eru blönduð fjar- og staðvinnubrögð fyrst og fremst áskorun við stjórnendur, ekki almenna starfsmenn.
Staðvinnuþrælakistur gefa stjórnendum falska öryggiskennd. Vanhæfir stjórnendur freistast til að skilgreina hvorki markmið né árangur af vinnunni af því að ,,allir eru jú í vinnunni“. Stjórnandanum finnst hann vera við ,,stjórn“ án þess að hafa nokkuð fyrir sér um það nema stimpilklukkuna. Um þetta mætti skrifa aðra grein.
Afnemum álagstoppana
Nú þegar sumarleyfatíminn endar og umferðin hellist aftur af fullum krafti inn á álagstoppana þarf að grípa til skjótra ráðstafana. Stutt er í að aulabrandarinn á dekkjaverkstæðunum byrji á ný og nagladekkin þyrli upp splunkunýja malbikinu og svifryksvertíðin byrji á fullu. Það verða ramakvein í vetur þegar við verðum svo óheppin á fá logn og vindarnir feykja ekki burt skaðvaldinum. Þangað til sóum við tíma, peningum og orku til einskis.
Athugasemdir (2)