Jakob Ellemann-Jensen varnarmálaráðherra Danmerkur og formaður Venstre flokksins kom aftur til starfa í ráðuneytinu 1. ágúst eftir hálfs árs veikindaleyfi. Í ráðuneytinu biðu hans mörg mikilvæg verkefni, en eitt þó sínu alvarlegast: vopnakaupamálið svonefnda.
Vopnakaupamálið, Våbensagen eins og Danir kalla það, snýst um kaup á hertólum. Í janúar á þessu ári samdi innkaupadeild danska varnarmálaráðuneytisins, FMI, um kaup á langdrægum fallbyssum og fleiri tækjum frá ísraelska fyrirtækinu ELBIT.
Varnarmálaráðuneytið hafði áður átt samskipti við þetta fyrirtæki en árið 2015 komu nokkrir flokkar á danska þinginu í veg fyrir að keypt yrðu þaðan vopn eftir útboð. Þess í stað keyptu Danir vopn frá franska framleiðandanum Nexter.
Ástæða andstöðu danskra þingmanna við kaupin frá ELBIT var sú að vopn frá þessu fyrirtæki voru þá (og kannski enn) notuð í átökum Ísraela og Palestínumanna. ELBIT fór í framhaldinu í mál við danska ríkið og þau málaferli stóðu árum saman.
Frönsku vopnin til Úkraínu og danskir þingmenn til Ísraels
Vopnin frá Frökkum komu á tilsettum tíma árið 2020, 15 Caesar langdrægar fallbyssur ásamt tilheyrandi flutningavögnum. Síðar pöntuðu Danir 4 samskonar fallbyssur til viðbótar, þær voru afhentar í byrjun þessa árs. 19. janúar á þessu ári ákvað danska ríkisstjórnin að allar 19 Caesar fallbyssurnar yrðu afhentar Úkraínumönnum til að aðstoða þá í baráttunni gegn Rússum.
En áður en þessi ákvörðun um að senda Caesar vopnin til Úkraínu var tekin höfðu nokkrir yfirmenn FMI, ásamt litlum hópi þingmanna, farið til Ísraels. Sú ferð var farin í desember í fyrra. Opinbert tilefni ferðarinnar var að ná samkomulagi við ELBIT varðandi vopnakaupin sem ekki varð af árið 2015 og ljúka því máli án afskipta dómstóla. Tveimur dögum fyrir jól 2022 var staðfest að samkomulag um þetta mál hefði náðst og ELBIT staðfesti samkomulagið með bréfi til varnarmálaráðuneytisins skömmu síðar.
Það sem ekki var upplýst í kjölfar þessarar heimsóknar Dananna til Ísraels var að í heimsókninni höfðu þeir rætt við ELBIT um hugsanleg kaup á vopnum, þar á meðal langdrægum fallbyssum, samskonar og samið hafði verið um 2015, í samningnum sem síðar hafði verið rift. Nú um stundir er langur afgreiðslufrestur á slíkum tækjum og tólum en FMI hópurinn fékk um það upplýsingar í Ísraelsheimsókninni að hefðu Danir áhuga á slíkum kaupum væri hægt að afhenda vopnin með skömmum fyrirvara.
Óskað eftir tilboði, svar barst sólarhring síðar
8. janúar sl. óskaði FMI eftir tilboði frá ELBIT um kaup á tilteknum vopnabúnaði. ELBIT svaraði um hæl, nánar tiltekið daginn eftir, tiboðið hljóðaði upp á 1.7 milljarð danskra króna (33 milljarðar íslenskir). Sama dag sendi FMI minnisblað til ráðuneytisins þar sem mælt er með að tilboði ELBIT verði tekið.
Hraðferð
25. janúar fór Jakob Ellemann-Jensen varnarmálaráðherra fram á það við flokkana sem stutt höfðu nýlegt samkomulag um varnarmál að þeir samþykktu áðurnefnd vopnakaup frá Ísrael. Fresturinn til að segja af eða á var mjög skammur, um þrír sólarhringar. Margir þingmenn voru ósáttir við þessa „hraðferð“ eins og einn þeirra komst að orði en samþykktu vopnakaupin. Nokkrum dögum síðar fór Jakob Ellemann- Jensen í veikindaleyfi. Staðgengill hans á ráðherrastóli var flokksbróðirinn Troels Lund Poulsen.
Rangar eða engar upplýsingar
Nokkru eftir að Jakob Ellemann-Jensen fór í veikindaleyfið komst vefmiðillinn Altinget yfir gögn varðandi vopnainnkaupin. Þar kom fram að þingmenn höfðu fengið rangar, eða engar, upplýsingar um málið. Þingmenn vissu til dæmis ekki um óskir vopnaframleiðenda í Frakklandi og Suður-Kóreu um að gera tilboð, og að beiðnum þessara framleiðenda hefði ekki verið svarað. Þingmenn vissu ekki heldur um „sáttasamkomulagið“ við ELBIT.
Alvarlegast var þó, að mati þingmanna, sú staðreynd að Jakob Ellemann- Jensen hafði sagt þinginu ósatt varðandi tímamörkin á tilboðinu frá ELBIT. Fresturinn til að svara tilboðinu var ekki örfáir sólarhringar, eins og ráðherrann sagði, heldur nokkrir mánuðir. Það er þetta atriði sem setti allt í háaloft. Staðgengilsráðherrann Troels Lund Poulsen óskaði strax þegar málið komst upp eftir greinargerð og þar var allt það sem áður var nefnt staðfest.
Rak ráðuneytisstjórann og vill ítarlega rannsókn
Jakob Ellemann-Jensen fékk ekki mikinn vinnufrið eftir að hann kom til starfa í varnarmálaráðuneytinu í byrjun þessa mánaðar (ágúst). Á fréttamannafundi 8. ágúst greindi hann frá því að hann hefði beðið þingið afsökunar á að hafa sagt þinginu ósatt, hann væri sá sem bæri ábyrgðina. Ráðherrann upplýsti jafnframt að hann hefði óskað eftir sérstakri greinargerð frá ráðuneytisstjóranum Morten Bæk um málsatvik. Þegar hún kom í hendur ráðherrans, og fjölmiðlar hafa komist yfir, reyndi ráðuneytisstjórinn að koma sökinni á undirmenn sína í ráðuneytinu og FMI.
Þú ert rekinn
Þetta yfirklór ráðuneytisstjórans (orðalag danskra fjölmiðla) hrökk þó skammt og 11. ágúst rak Jakob Ellemann-Jensen Morten Bæk úr starfi. Morten Bæk varð ráðuneytisstjóri í varnarmálaráðuneytinu árið 2020, en gegndi áður starfi ráðuneytisstjóra í umhverfis- og loftslagsráðuneytinu.
Danskir stjórnmálaskýrendur segja sumir hverjir að með brottrekstri ráðuneytisstjórans reyni ráðherrann að frýja sig ábyrgð. Þótt það að segja þinginu ósatt sé mjög alvarlegt, er að mati stjórnmálaskýrenda, ekki líklegt að það kosti Jakob Ellemann- Jensen ráðherrastólinn, ástæðan er sú að stjórnin er meirihlutastjórn, sem er reyndar óvenjulegt í Danmörku.
Jakob Ellemann-Jensen hefur greint frá því að hann hafi þegar ákveðið að fram skuli fara ítarleg rannsókn á vopnakaupamálinu og hún verði í höndum utanaðkomandi aðila.
Ekki einsdæmi
Vopnakaupamálið er ekki eina vandræðamálið sem tengist varnarmálaráðuneytinu og stofnunum þess. Listinn er langur en hér eru örfá dæmi.
Í september árið 2009 birtist á netinu, á arabísku, einskonar svindlútgáfa af bókinni „Jæger – krig með eliten“ sem fyrrverandi hermaður hafði skrifað. Í ljós kom að yfirmaður tölvumála hjá varnarmálaráðinu (Forsvarskommandoen) hafði „skrifað“. Sá fékk reisupassann.
Annað dæmi: Danska þingið fékk margsinnis rangar upplýsingar um afdrif íraskra fanga sem höfðu verið fangar herja bandamanna. Danski herinn hafði „puntað uppá“ meðferðina sem fangarnir fengu, hún var margfalt verri en herinn greindi frá í upplýsingum til þingsins.
Árið 2020 skilað eftirlitsnefnd skýrslu um starfsemi Leyniþjónustu hersins, FE. Lars Findsen forstjóri Leyniþjónustunnar var sendur heim og sömuleiðis ráðuneytisstjórinn í varnarmálaráðuneytinu. Þeir voru síðar saklausir fundnir en Lars Findsen var síðar ákærður fyrir að segja fjölmiðlafólki, og mömmu sinni, frá ríkisleyndarmálum. Málaferlin hefjast í október næstkomandi. Claus Hjort Frederiksen, fyrrverandi varnarmálaráðherra er ákærður fyrir sömu sakir, þau málaferli hefjast í nóvember á þessu ári.
Stóra gatið
Á síðustu 10 árum hefur danska ríkisendurskoðunin margsinnis gagnrýnt óreiðu og stjórnleysi í fjármálum hersins og varnarmálaráðuneytisins. Rannsókn sem fram fór í maí á þessu ári leiddi í ljós „gat“ uppá 38 milljarða danskra króna. Stjórnmálaskýrandi dagblaðsins Politiken sagði eina skýringu á „gatinu“ vera ákvarðanir stjórnmálamanna um að senda hermenn til útlanda, án þess að fjármagn fylgdi. Yfirstjórn hersins hefði slegið saman hælunum og notað peninga sem áttu að fara í viðhald á tækjum og húsum hersins. Afleiðingin er sú að tækja- og húsakostur hersins hefur setið á hakanum.
Í ágúst 2020 var háttsettur yfirmaður í hernum dæmdur í þriggja mánaða fangelsi fyrir að að misnota stöðu sína og brot á þagnarskyldu. Hann hafði í krafti stöðu sinnar séð til þess að kærasta hans fékk stöðuhækkun innan hersins.
Dæmin eru fleiri, en vopnakaupamálið, sem er aðalefni þessa pistils, er það nýjasta.
Athugasemdir