Pétur Hafsteinn Pálsson, sem var stærsti hluthafi í útgerðarfyrirtækinu Vísi í Grindavík er það var selt Síldarvinnslunni á 31 milljarð króna í fyrra er skattakóngur ársins 2022. Heildarárstekjur hans námu tæplega 4,1 milljörðum króna og greiddi hann samanlagt tæpar 903 milljónir í skatt. Fjármagnstekjur hans á árinu námu rúmlega 4 milljörðum og af þeim greiddi hann 893 milljónir í fjármagnstekjuskatt.
Á hæla honum á hátekjulistanum, sem unninn er af blaðamönnum Heimildarinnar upp úr álagningaskrám Skattsins, fylgja aðrir úr fjölskyldunni sem áttu Vísi, bæði systkini og mágar.
Í öðru sæti listans er Sveinn Ari Guðjónsson, eiginmaður Sólnýjar Pálsdóttur, systur Péturs. Fjármagnstekjur hans voru um 3,2 milljarðar í fyrra og greiddi hann um 707,5 milljónir í fjármagnstekjuskatt. Heildarárstekjur Sveins Ara voru rúmlega 3.232 milljónir króna.
Ágúst Þór Ingólfsson, eiginmaður Kristínar Elísabetar Pálsdóttur, er þriðji tekjuhæsti Íslendingur síðasta árs en aðeins litlu munar á tekjum hans og svila hans, Sveini. Ágúst greiddi rúmlega 712,5 milljónir í skatta þar af um 2,6 milljónir í tekjuskatt, um 2,2 í útsvar en rúmar 707,7 milljónir í fjármagnstekjuskatt.
Svanhvít Daðey Pálsdóttir er skattadrottning Íslands árið 2022. Hún seldi líkt og systkini hennar hlut sinn í Vísi og námu heildarárstekjur hennar rúmum 3,2 milljörðum. Langstærsti hluti þeirra tekna eru fjármagnstekjur eða 3.215 milljónir króna. Svanhvít greiddi tæpar 710 milljónir í skatt, þar af 707 milljónir í fjármagnstekjuskatt.
Systir hennar Margrét Pálsdóttir var fimmti tekjuhæsti Íslendingurinn í fyrra. Heildarárstekjur hennar voru rétt undir tekjum Svanhvítar systur hennar. Hins vegar voru launatekjur hennar á mánuði aðeins um 285 þúsund krónur eða undir skattleysismörkum og greiddi hún því engan tekjuskatt.
Páll Jóhann Pálsson er sjötti ríkasti Íslendingurinn samkvæmt samantekt Heimildarinnar. Heildarárstekjur hans voru á svipuðu reki og annarra í fjölskyldunni, ef frá er talinn skattakóngurinn Pétur bróðir hans, eða rétt undir 3,2 milljarði. Páll Jóhann greiddi rúmar 705 milljónir króna í skatt á árinu, þar af tæpar 700 milljónir af fjármagnstekjum sínum sem námu 3.175 milljónum króna.
Fara þarf alla leið niður í sjöunda sæti hátekjulistans til að sjá nöfn sem ekki tengjast Vísis-fjölskyldunni. Í því sæti er Davíð Helgason, fjárfestir og stofnandi Unity. Heildarárstekjur hans námu tæplega 2,2 milljörðum á síðasta ári og þar af voru fjármagnstekjur hans rúmlega 1,7 milljarðar. Davíð greiddi 576 milljónir í skatta hér á landi í fyrra, þar af tæplega 133 milljónir í tekjuskatt og rúmar 383 í fjármagnstekjuskatt.
Jóhann Ólafur Jónsson, fyrrverandi forstjóri hugbúnaðarfyrirtækisins Annata og einn af stofnendum þess, var með sjöundu hæstu tekjur landsmanna í fyrra eða um 1.379 milljónir í heildarárstekjur sem fyrst og fremst eru tilkomnar vegna fjármagnstekna. Hann greiddi um 310 milljónir í skatta, þar af um 295 milljónir í fjármagnstekjuskatt.
Annata þróar og selur viðskiptalausnir byggðar á skýjalausn Microsoft, Azure, og tengdum kerfum, fyrir bifreiða- og tækjaiðnaðinn, m.a. Toyota, Volvo og Volkswagen. Í byrjun síðasta árs eignaðist framtakssjóðurinn VEX og fleiri um helmingshlut í fyrirtækinu. Jóhann lét af störfum forstjóra og tók við sem stjórnarformaður.
Guðmundur A. Kristjánsson er í áttunda sæti tekjulista ársins 2022 með 1,2 milljarða í heildarárstekjur. Guðmundur seldi hlut í Hraðfrystihúsinu Gunnvöru í fyrra ásamt systkinum sínum til Jakobs Valgeirs ehf. Fjármagnstekjur hans námu tæplega 2 milljörðum og af þeim greiddi hann tæpar 264 milljónir í fjármagnstekjuskatt. Samanlagðar skattgreiðslur hans voru 268 milljónir.
Hreggviður Jónsson greiddi tæplega 235 milljónir króna í skatta í fyrra. Heildarárstekjur hans voru rúmlega 1.049 milljónir. Hreggviður er stærsti hluthafi Veritas-samstæðunnar sem rekur nokkur stór fyrirtæki í lyfja- og heilbrigðisgeiranum.
Í tíunda sæti hátekjulistans er tónskáldið Atli Örvarsson. Atli hefur lengi starfað í Bandaríkjunum og samið tónlist fyrir marga þekkta sjónvarpsþætti og kvikmyndir. Atli greiddi tæplega 240 milljónir króna í skatta hér á landi í fyrra. Heildartekjur hans námu rúmlega milljarði og af þeim voru fjármagnstekjur um 988 milljónir.
Heimildin mun halda áfram að fjalla um tekjur Íslendinga á næstu dögum og í næstu viku kemur út sérstakt hátekjublað.
Athugasemdir