Gróðureldar sem nú geisa á Tenerife í Kanarí-eyjaklasanum eru enn sem komið er fyrst og fremst bundnir við friðuðu fjalllendi í nágrenni eldfjallsins Teide. Um 250 slökkviliðsmenn berjast við eldana en hafa ekki náð að hemja útbreiðslu þeirra svo nokkru nemi. Að minnsta kosti 1.800 hektarar lands hafa brunnið á aðeins einum sólarhring.
Eldarnir kviknuðu í gær í fjalllendi svæða sem kallast Arafo og Candelaria á miðri Tenerife. Þurft hefur að rýma fimm þorp þar í grennd og vegum að þjóðgarðinum sem eldarnir loga í verið lokað.
Yfirvöld telja hættu á að eldarnir breiðist út til dvalarstaða ferðamanna þar sem þeir gætu borist á milli furutrjáa, sem eru mjög eldfim eftir þurrka. Ef ekki tekst að hefta útbreiðsluna gætu eldarnir náð til ferðamannastaða á borð við Santa Cruz de Tenerife og Puerto de la Cruz.
„Eldarnir eru öflugir og eru á svæði sem er erfitt að athafna sig á,“ sagði svæðisstjóri Kanarí-eyja, Fernando Clavijo, á blaðamannafundi. „Eldarnir á Tenerife eru stjórnlausir og útlitið er ekki beint bjart.“
Tveir alþjóðaflugvellir eru á Tenerife. Þeir starfa enn samkvæmt venju.
Hitabylgja gekk yfir Kanarí-eyjar í síðustu viku. Henni fylgdu miklir þurrkar svo eldsmatur er mikill. Gróðureldar kviknuðu á eyjunum Gran Canaria og La Palma fyrr í sumar við sömu aðstæður.
Athugasemdir