Hálendið liggur á teikniborði græðginnar. Það er á leiðinni inn í stjórnlausu túristahakkavélina sem bryður, gleypir og hrækir.
Lundasjoppa í Landamannalaugum, hótel og veitingastaðir og allar teikningar liggja fyrir. Það er löngu komið hótel í Þórsmörk sem á auðvitað bara eftir að blása út. Hælandbeis er markaðssett fyrir erlenda gesti í Kerlingarfjöllum og landinn dæsir yfir lúxusnum.
Hvað með nokkurra hæða hljóðeinangrað hótel á barmi Dettifoss? Það gæti verið átta stjörnu með teygjuhoppi fram af öllum svölum. Fljótandi hóteleyja á Hvítárvatni með glerveggjum í átt að Langjökli og Fjalla Eyvindur með uppistand öll laugardagskvöld? Malbikaður Sprengisandur með kvartmílubraut. Kajak og lúxus í Veiðivötnum með tíu stjörnu hótelum sem væru hönnuð eins og sandöldur og tamdir silungar dönsuðu á sporðunum gestum til skemmtunar. Hellahótel á Arnarvatnsheiði og flugvöllur svo gestir gætu mætt beint á staðinn? Hvað viljum við? Nefnið það bara. Allt er mögulegt og nú er líka allt leyfilegt.
Búið er að normalisera lúxusuppbyggingu á hálendinu. Nú getum við hallað okkur aftur og fylgst með því hver er ríkastur og hugmyndaríkastur. Hafin er einkavæðing hálendisins á vegum og í boði lítilla sveitarfélaga, sömu sveitarfélaga og stóðu hvað harðast gegn hálendisþjóðgarði.
Kerlingarfjöll eru stóra dæmið um það hvernig græðgin rænir hálendinu út um bakdyrnar. Þessar bakdyr eru galopnar í boði sveitarstjórna með ofurvald yfir sameign þjóðarinnar, hálendinu. Þetta ofurvald veikburða sveitarstjórna og byggðaráða byggir á trúarlegum ofbeitarrétti þessara sömu sveitarfélaga á viðkvæmu hálendi fyrir eina tegund bænda. Svo er landsstjórnin hróplega fjarverandi og lítur kuldalega undan með umhverfisráðherra í fylkingarbrjósti sem hefur mjög lítinn áhuga á umhverfi og hálendi, nema ef vera skyldi sem viðskiptatækifæri.
Og uppskriftin að hálendisráni er til dæmis svona:
Nokkrum hressum skíðastrákum á miðri síðustu öld gekk gott eitt til. Þeir vildu miðla skíðakunnáttu, útivist, öræfaást og sönggleði til ungmenna og fólks á öllum aldri sem upplifði pláguna sem þjakar mann er býr í borg, svo vitnaði sé í skáldið. Þeir fengu leyfi til að stofna sumarskíðaskóla utan í áhugamannaklúbbnum, Ferðafélagi Íslands. Skíðaskólinn reis á ævintýralegum stað inni á Kili og starfssemin byggði á Mullers æfingum, heilbrigðri sál í hraustum líkama og ungmennafélagsandanum. Og það var gíngangúlígúlí og sjallísjallívassvass og Vesturnípur sindruðu í sólskininu. Reksturinn var oft á tíðum þungur, enda erfitt að halda úti hugsjónastarfi inn til fjalla yfir örstutt hálendissumarið. En þessir kappar báru og bera enn ábyrgð á stórum hópi fólks sem lærði að renna sér, kynntist fjöllunum, tók aðeins með sér ógleymanlegar minningar og ævilöng vinabönd og skildi fátt eftir annað en skíðaspor sem fennti í. Hressu skíðastrákarnir tóku að eldast, ungmennafélagsandinn brunaði einn daginn á vélsleða út í buskann og eftir stóð staðarhaldari með þreytt tjaldstæði og lítið bolmagn til að anna vaxandi heimseftirspurn eftir íslensku hálendi.
Þá er svo sjálfgefið að þaulvanir verksmiðjustjórar í stóru túristaverksmiðjunum með fram ströndinni mæti á staðinn og stiki land. Þeir koma með arkitekta og enska sýn, endurhanna hálendið og skapa söluvöru.
Svo þegar við stöldrum við og hættum litla stund að súpa hveljur yfir fimm stjörnu svítu í Hælandbeis þar sem ungmenni sungu áður tjúlleraddítjúlleraddí og renndu sér á gormabindingum undir Fannborginni, þá liggur beinast við að álykta svo að nú sé hálendið allt leikvöllur græðgi og tækifæra fyrir þá sem lifa á því að sölsa undir sig hakkavél túrismans og leggja lúxussnörur fyrir ferðamenn, brúa ár og auðvelda takmarkalaust aðgengi að heimsperlum og að sjálfsögðu gegn gjaldi sem fer í þeirra úttroðnu vasa.
Það er ekki hægt að skálda þennan skít. Eða jú, við höfum reynt það, við sem störfum við skáldskap. Í skáldsögunni Ótemjum ætluðu erlendir auðkýfingar að hola fjall að innan og gera úr því lúxusfjallahótel eða lúxushótelfjall. Í Fjallaverksmiðu Íslands varð kommúna hugsjónabarna að lokum alþjóðleg söluvara. Þannig er skáldskapurinn veruleiki og veruleikinn skáldskapur og tímarnir sem við lifum eru alltaf lygilegir.
Og við sem köllum okkur þjóð hér á hjaranum, sem er ekki lengur hjari, heldur miðpunktur ferðaalheimsins, við höfum svo það eitt hlutverk að standa vörð um náttúru þessa lands, um hálendið og ósnortin víðerni fyrir hinar svokölluðu komandi kynslóðir sem er ekkert víst að hafi áhuga á því að vera komandi þegar þar að kemur. Ef við erum ekki full aðdáunar yfir áræðni, auðmagni og ævintýramennsku túrstagreifanna þá erum í mesta lagi lömuð af undrun á meðan hakkavélin fer ránshendi um dýrmætin sem okkur var falið að gæta.
Víða í þekktum þjóðgörðum veraldar er uppbyggingu haldið í algjöru lágmarki og þjónusta við ferðamenn og landkönnuði hönnuð í jaðri slíkra þjóðgarða. Ef við værum meðvituð um varðveisluhlutverk okkar gagnvart veröldinni og afkomendum þá væri hálendisþjóðgarður á teikniborði landsmanna.
Þarfir náttúru gagnvart ferðaiðnaði væru þar eini útgangspunkturinn en ekki þarfir ferðaiðnaðar gagnvart náttúru.
Athugasemdir (7)