Vofa gengur nú ljósum logum um heimsbyggðina, vofa sérstaks stjórnarfars sem var áður þekkt en menn voru að mestu búnir að gleyma. Þótt skarpskyggnir stjórnmálafræðingar láti gamminn geisa í sölum háskóla og fræðastofnana, veit ég ekki til þess að nokkur þeirra hafi leitast við að rýna í þessa vofu og úti meðal mannfólksins kann enginn þær þulur sem gætu dugað til að koma henni aftur niður í gröfina. Menn geta einungis nefnt hana, það er eina takið sem þeir hafa á henni. Þetta stjórnarfar er kallað á útlendum málum kleptokratí, en á vorri tungu nefnist það „hvinnræði”. Vafalaust hefur það tíðkast með meiri og minni þunga allar götur síðan Henok byggði hina fyrstu borg, og kannske lengur, og það hefur mætt alls kyns mótspyrnu þeirra sem það bitnaði á gegnum tíðina. Loks gerðist það á Vesturlöndum að það var að verulegu leyti horfið og varla til nema sem mynd í sögubókum. En eins og hendi væri veifað tókst frjálshyggjunni að vekja vofuna upp aftur öllum að óvörum. Því er nú svo komið að frjálshyggja og hvinnræði eru eins og tvær hliðar á sömu mynt, með öllu óaðskiljanlegar.
Til að skýra eðli hvinnræðisins má ímynda sér einfalt dæmi. Maður einn sem stendur neðarlega í þjóðfélagsstiganum og á erfitt með að bera hönd fyrir höfuð sér á hús sem er verðlagt á 57 miljónir. Af vanrækslu og kannske fáfræði skuldar hann þrjár miljónir í ýmis gjöld, en enginn upplýsir hann um eðli þessara skulda né gefur honum ráð um það hvernig hann geti leyst vandann. Vegna þessa er húsið gert upptækt, það er selt á uppboði, aðeins einn kaupandi býður í það, og það er selt á þrjár miljónir, semsé nákvæmlega fyrir skuldunum. Það sem hér hefur í rauninni gerst er eignatilfærsla, 54 miljónir eru teknar af alþýðumanni og fengnar í hendur eins hvinnræðisherrans með einu pennastriki, en sá hefur jafnframt auðgast um 54 miljónir án þess að hafa þurft að gera meira en rétta út höndina, hann hefur ekkert til þess unnið. Þetta er allt saman löglegt, þeir sem stóðu að eignatilfærslunni hafa allir hagað sér eins og þeir áttu að gera, enginn hefur brotið neinar reglur. Ef yfirvöld skyldu vera spurð sjá þau ekkert athugavert við þennan gerning, það er ekki til i málinu að kaupin gangi til baka. Menn skyldu þó ekki segja, eins og áður var gert, að þetta hafi verið „löglegt en siðlaust”, því siðferði kemur þessu máli ekkert við. Eignatilfærslan fer eftir lögum hagfræðinnar, þau eru eins og náttúruöflin, þau eru handan góðs og ills.
Kannske situr eftir einhver skuggi af siðferði, en hann er fólginn í því, að sá sem missti húsið og stendur uppi á götunni slyppur og snauður á rétt á einhverri félagshjálp, en hún er á kostnað skattgreiðenda, á kostnað þeirra sem skattabyrðin hefur verið færð yfir á.
Þessi dæmisaga sem hér hefur verið samin er höfð einföld til að sýna í hnotskurn innsta eðli hvinnræðisins, en venjulega er það þó flóknara og dulbúið með ýmum hætti. Ein algengasta mynd þess nú eru hinar svokölluðu „einkavæðingar”, og er rétt að benda á að þetta orð er nýtilkomið, það fór ekki að heyrast fyrr en með byltingu frjálshyggjunnar. Þá skipaði það slíkan sess að settar voru á fót „einkavæðinganefndir”, sem varla voru nein fordæmi fyrir.
Eitt dæmið um slíka sölu ríkiseigna hefur verið á dagskrá í Frakklandi nú að undanförnu, og varðar það hraðbrautir landsins. Þær lét ríkisvaldið leggja og voru bílstjórar látnir greiða fyrir aksturinn eftir þeim, átti með því að fá upp kostnaðinn af vegagerðinni. En fyrir nokkrum árum var tekið til við að einkavæða þær, og komu margir af háttsettustu stjórnmálamönnum landsins að því máli. Að lokum voru þær allar komnar í eigu stórra hringa. Eftir nokkurn tíma fóru að heyrast raddir um að ríkisvaldið hefði látið hlunnfara sig stórlega við söluna, það hefði ekki fengið nema lítinn hlut af því sem það hefði átt að fá. Blaðamenn tóku til óspilltra málanna að rannsaka söluna en það gekk stirðlega í fyrstu, því erfitt var að nálgast skjölin um það hvernig gengið hafði verið að málinu, þau virtust ófáanleg. En svo fór að lokum að í þau náðist, og þá kom í ljós að hagnaðurinn af rekstri hraðbrautanna hafði verið vanmetinn svo miklu munaði. Eftir þeim ranga útreikningi hafði söluverðið síðan verið ákveðið. Þeir sem fengu hraðbrautirnar upp í hendurnar græddu því á tveimur sviðum, fyrst með því að fá ríkiseignir upp í hendurnar fyrir lítið og svo með því að græða á tá og fingri á rekstrinum. Það fylgdi reyndar með í kaupunum að hinir nýju eigendur ættu að sjá um viðhaldið, en því sinntu þeir slælega. Hins vegar voru þeir duglegir við að hækka verðið.
Nú fóru að heyrast margar raddir um að í ljósi þessa þyrfti að láta söluna ganga til baka eins og að henni hafði verið staðið og endurskoða bæði verð og skilmála. Það reyndist þó ekki gerlegt, kaupendurnir höfðu sett slíkt magn af varnöglum að ekki var hægt að hrófla við neinu né neinu nema láta ríkið greiða svo svimháar skaðabætur að á því voru engin efni. Og við það stendur að svo búnu.
En í rauninni byggðust þessar umræður allar á misskilningi, á þeirri hugmynd semsé að ríkið hefði selt þessar hraðbrautir í þeim tilgangi að hagnast á sölunni. En það var alls ekki markmiðið heldur hitt að færa sem stærstar eignir frá almenningi, sem átti hraðbrautirar gegnum ríkisvaldið, og yfir til hvinnræðisherra. Þess vegna var vanmatið á væntanlegum hagnaði af rekstrinum ekkert glappaskot – ef svo hefði verið hefði þetta glappaskot verið af fáséðri stærðargráðu – heldur aðferð til að gera eignatilfærsluna sem stórfelldasta, fá hvinnræðisherrunum sem mest upp í hendurnar. Þannig kemur líka eitt í ljós, að svo stöddu eru stjórnmálamenn og embættismenn annars vegar og hvinnræðisherrarnir hins vegar tveir meira og minna aðskildir hópar. Stjórnmálamenn og embættismenn eru fyrst og fremst þjónar hvinnræðisherranna, þeir finna upp allskyns leiðir að koma eignunum til þeirra, en hirða þær ekki sjálfir. Þeir fá þó sín laun, ekki endilega í peningum.
Afleiðingin af þessari eignatilfærslu var sú að skerða eignir og tekjur ríkisins og fyrir það verður almenningur að borga, eins og dæmin sýna, með hærri sköttum eða minni þjónustu.
Í Frakklandi vex hvinnræðinu stöðugt fiskur um hrygg þrátt fyrir mótstöðu almennings sem hefur komið í veg fyrir það hingað til að alþjóðlegir flugvellir, svosem flugvellir Parísar, væru einkavæddir. Því getur verið athyglisvert að beina sjónum að þeim stöðum þar sem hvinnræðið hefur fengið að leika lausum hala um langan tíma og dettur mér þá Líbanon í hug. Þaðan bárust fyrir nokkru undarleg tíðindi. Kona nokkur kom í afgreiðslu banka í Beirút, miðaði skammbyssu að gjaldkeranum og heimtaði seðla. Var þetta bankarán? Kannske, en þá í nokkuð óvenjulegum skilningi. Konan var nefnilega að reyna með þessari óvenjulegu aðferð að fá að taka út peninga sem hún átti sjálf á sínum eigin reikningi í bankanum. Þar í landi er nefnilega svo komið að sáralítið er eftir af peningum, þeir eru komnir í hendur hvinnræðisherrum og sofa í “svörtum sjóðum”, eins og sagt er, sem enginn veit neitt um, eða í bankareikningum langt í burtu guðmávitahvar. Ef menn koma í banka til að taka út sína eigin aura verða þeir að standa í samningaviðræðum við gjaldkerann um hve mikið þeir geti fengið, fá svo mismunandi mikið en þó aldrei allt sem þeir vildu. Þess vegna var ekki óeðlilegt út af fyrir sig að konan skyldi grípa til hólksins.
Um ástandið í þessu landi má lesa í bók að nafni „Beirút 2020, dagbók hruns” eftir Charif Majdalani, líbanskan höfund búsettan í Beirút, sem skrifar á frönsku og er vinsæll í Frakklandi, m.a. vegna skemmtilegra pistla sem hann skrifar vikulega á baksíðu kaþólska dagblaðsins „Krossinn”. Lýsingin er ófögur en lærdómsrík. Þar í landi eru allir innviðir að grotna niður, sú þjónusta við almenning sem þykir sjálfsögð annars staðar er í molum svo menn verða að taka sig saman til að annast hana. Í þrjátíu ár hefur rafveitan verið í ólestri, það hafa verið gerðar áætlanir um að reisa hana við en án sýnilegs árangurs, rafstöðvar hafa verið reistar, en þær hafa ekki gengið, að sögn hefur rafmagn verið keypt frá Sýrlandi, en enginn veit neitt meira um það. Í þessar áætlanir um rafvæðingu hefur verið veitt ógrynni fjár, fjörutíu milljarðar dollara á þrjátíu árum að sögn sumra, en það fé virðist hafa gufað upp. Ekki er rafmagn að fá úr þessari rafveitu nema fáeinar stundir á dag, þegar vel gengur. Því hafa einstaklingar keypt litlar rafstöðvar sem ganga fyrir olíu og selja mönnum rafmagn í sínu hverfi, þegar olíu er að fá. Vatnsveitan er að mestu biluð, einstaklingar koma á tankbílum með vatn sem enginn veit úr hvers konar lindum það er fengið og selja það úti á götum. Stíflugarðar hafa verið reistir fyrir væntanlegar vatnsveitur og spilla landslaginu, giljum, dölum og akurlendi, en þeir eru gagnslausir vegna lélegra vinnubragða og skorts á rannsóknum áður en farið var úr í framkvæmdirnar. Uppistöðulaunin eru stundum tóm, vatnið lekur út í náttúruna. En að sögn kunnugra manna hafa þessir stíflugarðar kostað a.m.k. fimm sinnum meira en þeir hefðu átt að kosta. Sama máli gildir um vegi, brýr, opinberar byggingar og slíkt. Verktakarnir sem eru jafnan í samkrulli við stjórnmálamenn eru aldrei látnir gera grein fyrir kostnaðinum. Það er engin sorphirðing heldur safnast sorp saman þangað til almenningur tekur að sér að brenna það. Eigi að síður hrúgast alls kyns úrgangur upp í há fjöll á ströndinni. En það fylgir þessu ástandi að nú er ekki lengur aðskilnaður milli stjórnmálamanna og hvinnræðisherra, því má kannske segja að ástandið í Líbanon sé hvinnræði á lokastigi. Þeir sem vilja rýna í hvinnræðið ættu því að horfa fram á veginn.
Hvar er sýslumaðurinn, eða sá sem þessu réði?