Staða hinsegin fólks er afleit í Rússlandi og hefur einungis versnað á nýliðnum árum. Þetta er á meðal þess sem liðskonur Pussy Riot segja í löngu viðtali sveitarinnar við Heimildina. Þrengt hefur verið að rétti hinsegin fólks í landinu að undanförnu, líkt og Diana Burkot bendir á.
„Það sem hefur gerst er að stjórnvöld hafa ákveðið að láta sömu reglur gilda í Rússlandi öllu og gilda í Téténíu. Þar er hreinlega mjög hættulegt að vera hinsegin manneskja og þar getur hinsegin manneskja átt á hættu að vera flutt af öðrum fjölskyldumeðlimum á sérstaka sjúkrastofnun og meðferðin þar líkist pyntingum.“
„Þetta kallast bælingarmeðferð,“ bætir Alina Petrova við til upplýsingar.
Téténia hefur verið kallað hættulegasta svæði Rússlands fyrir hinsegin fólk en þar er það beinlínis ofsótt. Leiðtogi landsins, Ramzan Kadyrov sem er álitinn hálfgerður varðhundur Pútíns hefur hins vegar þvertekið fyrir það að hinsegin fólk fyrirfinnist í Téténíu.
Flögguðu regnbogafána við ríkisstofnanir í Moskvu
Liðskonur Pussy Riot hafa látið málefni hinsegin fólks sig varða. Diana segir til að mynda í viðtalinu frá gjörningi sem hópurinn framdi á afmæli Vladimírs Pútíns, Rússlandsforseta árið 2020. „Við frömdum gjörning til stuðnings fólki sem tilheyrir LGBTQ+ samfélaginu og eftir gjörninginn náði lögreglan mér. Ég fór niður á lögreglustöð og ég hef verið þar margoft en aldrei í fangelsi. Að minnsta kosti ekki enn sem komið er.“
Gjörningurinn sem um ræðir vakti nokkra athygli og um hann var fjallað í fjölmiðlum á borð við Reuters og Deutsche Welle. Liðsmenn Pussy Riot fóru um Moskvu og flögguðu regnbogafána við byggingar margra af helstu stofnununum sem þar er að finna, til að mynda við höfuðstöðvar leyniþjónustunnar FSB (forveri hennar var KGB), við hæstarétt, við stjórnarskrifstofu forsetans og við rússneska menningarmálaráðuneytið.
Í umfjöllun The Art Newspaper um gjörninginn og afleiðingar hans segir að fimm hafi verið færð á lögreglustöð í kjölfarið. Í þeim hópi, auk Diönu, var meðal annars Maria Alyokhina sem var gripin af lögreglu þegar hún var á leið í sjónvarpsviðtal.
Hafa kallað eftir alls kyns umbótum
Í yfirlýsingu sem Pussy Riot birti á Facebook-síðu sinni í tengslum við þessar aðgerðir notaði hópurinn tækifærið til að senda Pútín hamingjuóskir í tilefni afmælis hans. Hópurinn óskaði einnig aðgerðum frá Rússlandsstjórn í sjö liðum.
Meðal þess sem hópurinn óskaði eftir var að rannsókn færi fram á mannránum og morðum á hinsegin fólki í Téténíu, að aðsókn að aðgerðasinnum sem berjast fyrir auknum réttindum hinsegin fólks yrði hætt og að mismunun á grundvelli kyns og kynhneigðar yrði bönnuð með lögum. Þær óskuðu enn fremur eftir því að samkynja hjónabönd yrðu lögleidd, að áreiti í garð fólks í samkynja samböndum yrði hætt sem og brottnám barna samkynja fólks.
Þá lögðu þær til að 7. október, afmælisdagur forsetans, yrði gerður að sérstökum hátíðisdegi til heiðurs hinsegin fólki.
Athugasemdir