Liðskonur Pussy Riot bera landi og þjóð vel söguna, ef frá er talið veðrið. „Það er of kalt!“ segir Olga Borisova, ein liðskvenna sveitarinnar, í samtali við Heimildina. Að vísu er fleira en bara veðrið sem hún á erfitt með að venjast. „Ég á í erfiðleikum með kuldann og ekki bara kuldann, heldur líka alla birtuna. Þetta er frekar krefjandi fyrir mig jafnvel þó ég sé frá Sankti Pétursborg. Við höfum líka mikla birtu á sumrin og bjartar nætur en þetta er eitthvað allt annað!“
„Svo er líka svo gaman að vita af eldgosinu, ég veit að það er miklu nær Reykjavík en það er mjög gaman að vita af því að þar er eldfjall að gjósa og það er töfrum líkast. Við vorum nýkomnar til landsins og þá byrjaði að gjósa,“ segir Diana Burkot um landið. Þess má geta að þegar Heimildin tók hús á Pussy Riot á Seyðisfirði var júlí rétt um hálfnaður og eldgos við Litla-Hrút stóð sem hæst. Þangað voru þær komnar til þess að flytja verk sitt Riot Days í félagsheimilinu Herðubreið á listahátíðinni LungA.
„Þetta er mjög sérstakur staður,“ bætir Diana við um Seyðisfjörð. „Við höfðum nú þegar haldið tvær sýningar í Reykjavík, í Þjóðleikhúsinu og þetta er allt, allt öðruvísi. Náttúran hér er mjög áhugaverð og ég kann mjög vel að meta það hvernig hátíðin er skipulögð.“
Þjóðleikhúsið mun formlegra en Herðubreið
Olga tekur í sama streng og segist kunna mjög vel við grasrótarstemninguna á hátíðinni. Henni finnst samanburðurinn á milli Þjóðleikhússins og félagsheimilisins Herðubreiðar skemmtilegur, enda allt miklu formlegra í Þjóðleikhúsinu „Áður höfðum við komið fram í Þjóðleikhúsinu með sínum súlum og það var mjög…“
„Og rauður stólarnir!“ grípur einhver í hópnum fram í fyrir Olgu.
„Já akkúrat, rauðu stólarnir og rauðu leiktjöldin og allt það! Núna erum við bara að hanga með unga fólkinu og það er mjög gaman að sjá allt þetta unga íslenska fólk og mér líkar mjög vel við stílinn þeirra. Það er mjög gott að vera hérna. Manni finnst skipulagið vera mjög lárétt og það er mjög frábært.“
„Áhorfendurnir hér eru einstakir,“ bætir Alina Petrova við og tekur undir orð þeirra Olgu og Diönu um lárétt skipulag listahátíðarinnar LungA. „Maður getur skipst á skoðunum við annað fólk og séð hvað aðrir eru að gera og svo getur maður unnið með öðrum líka.“
Athugasemdir