Uppsagnir starfsmanna Sæferða, sem réttlættar voru með því að ekki hefðu náðst samningar um rekstur fyrirtækisins á nýrri ferju á Breiðafirði, náðu einnig til starfsfólks sem eingöngu hefur unnið á skemmtiferðaskipinu Særúnu. Samkvæmt framkvæmdastjóra Sæferða er rekstur ferju á Breiðafirði grundvöllur tilvistar fyrirtækisins. Starfsmaður Sæferða segist hins vegar klóra sér í kollinum yfir því að ekki sé hægt að reka farþegaferju á Breiðafirði þegar til landsins komi árlega þrjár milljónir ferðafólks.
Sæferðir, sem rekið hafa Breiðafjarðarferjuna Baldur, sögðu í síðustu viku upp öllum fastráðnum starfsmönnum sínum, 22 talsins, í ljósi þess að Vegagerðin hafnaði tilboði fyrirtækisins í rekstur skipsins Rastar sem taka á við af Baldri í haust. Sæferðir, sem eru að fullu í eigu Eimskipa, voru eina fyrirtækið sem bauð í siglingarnar á firðinum með hinu nýja skipi sem Vegagerðin samdi um kaup á í byrjun síðasta mánaðar.
Sæferðir hafa sinnt ferjusiglingum yfir Breiðafjörð á milli Stykkishólms og Brjánslækjar, með viðkomu í Flatey. Til stóð að leggja ferjusiglingar af á firðinum þegar samningur Vegagerðarinnar við Sæferðir rynni út í vor sem leið en ákveðið var að breyta þeirri ákvörðun og var þá einkum vísað í breytingar á atvinnustarfsemi á sunnanverðum Vestfjörðum með mikilli uppbyggingu laxeldis þar. Langstærsti hluti þjónustu Baldurs yfir vetrarmánuðina hefur falist í flutningi á vörubílum með fullfermi af laxi frá fyrirtækjunum. Til eru þeir sem velt hafa því upp hvort eðlilegt sé að hið opinbera niðurgreiði slíka flutninga fyrir einkafyrirtæki, að stórum hluta í erlendri eigu, með því að halda úti ferjusiglingum.
Hafa áhyggjur af hafnarmannvirkjum
Sæferðir hafa nú selt Baldur sem verður í siglingum á Breiðafirði fram til 15. október. Í stað Baldurs kemur ferjan Röst, smíðuð 1991, sem hefur þann helsta kost umfram Baldur að vera með tvær vélar. Síðastliðin tvö ár hefur Baldur í tvígang orðið vélarvana úti í Breiðafirðinum með tilheyrandi óþægindum og hættu.
Röstin er styttra skip en Baldur, en breiðara. Mun Röstin geta tekið fimm stóra flutningabíla en hægt hefur verið að setja sex bíla í Baldur. Þá hafa menn sem Heimildin hefur rætt við lýst áhyggjum sínum af hafnarmannvirkjum sem til staðar eru í Stykkishólmi annars vegar og á Brjánslæk hins vegar. Áhyggjurnar snúast fyrst og fremst að því hvort ekjubrýr á báðum stöðum, sem voru hannaðar fyrir mun mjórra skip en Baldur er, muni passa fyrir Röstina. Röstin, rétt eins og Baldur, er svokallað RoRo-skip, það er skip þar sem farartækjum er keyrt um borð í. Til samaburðar eru þau skip sem híft er upp í kölluð LoLo-skip. Það er því mikilvægt að ekjubrýrnar virki fyrir umrædd skip. Sökum þess að Röstin er breiðari en Baldur hafa menn áhyggjur af því að innkeyrsluhornið inn í skipið verði þröngt, einkum þegar lágt er í sjó.
Hefur trú á að saman náist
Jóhanna Ósk Halldórsdóttir framkvæmdastýra Sæferða segir að óformlegar viðræður séu hafnar við Vegagerðina um samninga um rekstur á Röstinni. „Óformlegar viðræður eru hafnar og við eigum fund saman í næstu viku þannig að þetta er bara í farvegi. Ef Sæferðir fá ekki áframhaldandi rekstrarsamning er starfseminni sjálfhætt en starfsfólkið verður áfram í Stykkishólmi, það býr þar. Nýr rekstraraðili hlýtur þá að setja sig í samband við þetta fólk og falast eftir kröftum þess. Okkur hefur hins vegar gengið mjög vel að vinna með Vegagerðinni og ég hef alveg trú á að okkur takist að finna einhverja lausn á þessu, við þurfum bara að bera saman bækur okkar og sjá í hverju mismunurinn liggur.“
„Ef Sæferðir fá ekki áframhaldandi rekstrarsamning er starfseminni sjálfhætt“
Spurð hvort uppsagnirnar hafi komið illa við starfsfólk Sæferða vill Jóhanna ekki kannast við það. „Ég myndi ekki segja að það hafi komið illa við fólk. Jú, einhverjum kom þetta á óvart en einhverjir aðrir reiknuðu með þessu af því það var svo langt liðið á birtingu útboðsins. Starfsfólkið hefur verið mjög vel upplýst og verður það áfram.“
Uppsagnirnar komu á óvart
Úlfar Hauksson, vélstjóri á Baldri, er ekki tilbúinn til að taka alveg undir með Jóhönnu. „Ég get alveg sagt þér að þetta fór misjafnlega ofan í fólk. Þessi uppsögn, á þessum tímapunkti, hún kom mér frekar á óvart og ég held að hún hafi komið flestum á óvart. Það hefur auðvitað verið rosaleg óvissa um þetta og fólk átti allt eins von á því að þessar siglingar yrðu lagðar af, það hefði til dæmis ekkert komið mér á óvart.“
„Það þarf ekki þrjú þúsund tonna bílferju til þess“
Úlfar bendir í því samhengi á að þó að búseta sé í Flatey sé ljóst að hægt sé að þjónusta íbúa þar með minni tilkostnaði en með því að reka ferju af sama tagi og Baldur eða Röstina. „Það þarf ekki þrjú þúsund tonna bílferju til þess.“
Sem fyrr segir var það ekki aðeins starfsfólk Sæferða sem vinna á Baldri sem fékk uppsagnarbréf heldur einnig starfsfólk á skemmtiferðaskipinu Særúnu. Særún tekur allt að 115 farþega og siglir skoðunarferðir um eyjarnar á Breiðafirði, þar sem sjá má fugla og seli, jafnvel háhyrninga og aðra hvali. Þá er ferskt sjávarfang veitt á meðan á siglingunni stendur og farþegum boðið að smakka á.
Úlfar segir að það komi á óvart að því starfsfólki hafi verið sagt upp einnig. „Eimskip hefur gefið það út að það sé enginn grundvöllur fyrir rekstri Sæferða ef ferjusiglingarnar eru ekki hluti af því. Ég klóra mér svolítið í hausnum yfir því, það koma þrjár milljónir ferðamanna til landsins á ári og Stykkishólmur er í tveggja tíma fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu, með öllum infrastrúktúr. Ég á erfitt með að trúa að ekki sé hægt að reka ferðaþjónustusiglingar í slíkum aðstæðum.“
Athugasemdir