Um daginn var ég beðinn um að gefa leiðbeiningar um fullkominn dag í Reykjavík. Ég setti saman frábæran dag í Skeifunni. Þú færð þér morgunkaffi og snúð í Brauð og Co. Ferð í Epal að skoða íslenska hönnunarvöru, færð þér hressingu á Cafe Milano og ef menn eru í flippskapi má kaupa helíumblöðru og bleika hárkollu í Partíbúðinni. Síðan má spila borðspil og hafa það kósí með síðdegisbjór í Spilavinum fram að kvöldmat og svo er hægt að fá sér ís, rölta milli búða, skoða mannlífið. Eftir miðnætti er kjörið að fá sér orkudrykk og eitt kg úr nammibarnum í Hagkaup og nota helíumblöðruna til að tala eins og Andrés Önd.
Ég bý á Stór-Skeifusvæðinu, SkeiNo eins og hverfið væri kallað ef það væri í New York, North of Skeifan. Það er eilítið sorglegt að það skuli vera absúrd að stinga upp á svona ferðalagi þegar það þykir sjálfsagt að hanga í miðbæjum heimsins. Staðirnir sem ég nefndi eru sumir á heimsmælikvarða en umhverfið virðist hannað til að vera „praktískt“ sem gerir það einmitt ópraktískt. Umhverfið er ekki hannað til að gefa, húsin ekki tengd með gangstéttum, ekkert listaverk, ekkert sem þjónar ekki beinlínis „tilgangi“. Þar er varla gróður og þar af leiðandi engar árstíðir. Bara grátónar í malbiki.
Skeifunni mætti bjarga með því að gefa tóminu pláss
Lao Tse talaði um gagnsemi tómsins. Öxulgatið gerir hjólinu kleift að snúast. Tómið ræður gagnsemi kersins. Þarna er búið að fylla upp í tómið. Hið sama gildir víða á höfuðborgarsvæðinu þar sem ný hverfi eru byggð. Húsin eru klædd þverliggjandi gráu bárujárni og þeim er ekki ætlað að vera falleg. Engin listaverk í augsýn og leikvæði eru lágmarksaðsstaða, ekki rausnarleg gjöf til æskunnar heldur tækifæri til að innleysa eins og einn pallbíl í hagnað. Það er augljóst að ef þú fyllir upp í öxulgatið þá verður hjólið gagnslaust en samfélag er flóknara. Það má samt bóka að eitthvað hættir að hreyfast, eitthvað brestur.
Skeifunni mætti bjarga með því að gefa tóminu pláss. Það þyrfti ekki að gera neitt merkilegt, samfelld gangstétt, nokkur tré, lítil mýri eða tjörn með grágæsum og kannski lítið tún með hestum á beit. Alveg án gríns.
Athugasemdir (5)