Vorið 1923 fékk fasteigna- og byggingafyrirtækið Woodruff and Shoults (nefnt eftir eigendunum) auglýsingastofuna Crescent Sign Company til að útbúa það sem byggingafyrirtækið kallaði auglýsingaskilti. Fyrirmælin voru þau að skiltið skyldi vera áberandi, svo áberandi að það skæri sig úr og ,,gripi augað“ eins og það var kallað. Það sem átti að auglýsa var byggingaland skammt vestan við Los Angeles. Stofnandi og eigandi Crescent Sign Company var Thomas Goff, breskur málari sem hafði flutt til Los Angeles. Hann lagði til að í stað auglýsingaskiltis yrðu búnir til stórir ,,frístandandi“ stafir sem komið yrði fyrir í hlíðinni fyrir neðan svæðið sem ætlunin væri til bygginga og kallað var Hollywoodland. Þeir Woodruff og Shoults samþykktu þetta en lögðu áherslu á að stafirnir yrðu mjög stórir. ,,Þið þurfið ekki að hafa áhyggjur af því, og svo læt ég lýsa það upp að kvöld- og næturlagi,“ sagði Thomas Goff. Þetta leist þeim Woodruff og Shoults vel á og í lok júlí 1923 var búið að koma stöfunum fyrir í hlíðinni. Thomas Goff hafði engu logið um að stafirnir yrðu áberandi og vektu athygli. Stafirnir 13, Hollywoodland, voru gerðir úr hvítmáluðu timbri, sem fest var á vírnet (hænsnanet), hver stafur um 15 metra hár og rúmlega 9 metra breiður. 4 þúsund ljósaperum hafði verið komið fyrir á stöfunum og lýstu þá upp til skiptis, fyrst ,,Holly“ þá ,,Wood“ og síðan ,,Land“ og síðast ,,Hollywoodland“ í heild sinni. Verkinu lauk, eins og áður sagði, í lok júlí 1923. Tracy Shoults lést í sama mánuði, 52 ára gamall. Sidney Woodruff rak fyrirtækið áfram, hann lést árið 1961, 85 ára.
Átti að standa í eitt og hálft ár
Þegar þeir Woodruff og Shoults réðu Thomas Goff til að útbúa ,,auglýsingaskiltið“ gerðu þeir ráð fyrir að það myndi standa í hlíðinni í eitt og hálft ár. Mikil vinna hafði verið lögð í að skipuleggja byggingasvæðið Hollywoodland og ætlun þeirra félaga var að þar yrðu fyrst og fremst íbúðarhús ,,á skaplegra verði en inni í Los Angeles“ eins og það var orðað í auglýsingum. Þeir Woodruff og Shoults létu ekki auglýsingastafina nægja í viðleitninni til að lokka kaupendur að lóðunum í Hollywoodlandi, þeir fengu yfirarkitekt svæðisins, John L. DeLario, til að hanna sérstök hlið úr grjóti úr nágrenninu, eins konar borgarhlið, á tveimur stöðum þar sem farið var inn á svæðið. Við annað þessara hliða voru sett upp eins konar sýnishorn af þeirri starfsemi sem þeir Woodruff og Shoults sáu fyrir sér á svæðinu: rakarastofa, fatahreinsun, tvær litlar verslanir og snyrtistofa. Eftir að auglýsingastafirnir höfðu staðið í hlíðinni í eitt og hálft ár, eins og til stóð í upphafi, var ákveðið að þeir yrðu þar áfram, um óákveðinn tíma, eins og það var orðað.
Hvernig varð Hollywood að tákni?
Þessari spurningu hafa margir velt fyrir sér, án þess að fá við henni einhlítt svar. Ein skýring er sú að á árunum í kringum 1920 var kvikmyndaiðnaðurinn í miklum vexti vestanhafs og til Los Angeles fluttust margir leikarar, sem gjarnan vildu búa vel, utan skarkalans í borginni. Margir sagnfræðingar telja að upphaf Hollywood megi ekki hvað síst rekja til þess að árið 1910 fór leikstjórinn D.W. Griffith, sem starfað hafði á austurströnd Bandaríkjanna, til Los Angeles ásamt leikflokki sínum. Eftir að hafa ,,filmað“ í borginni ákvað Griffith að fara út fyrir borgina, á Hollywood-svæðið, og vinna þar. Þarna gerði Griffith kvikmyndina ,,In Old California“ sem mun vera fyrsta kvikmyndin sem tekin var upp í Hollywood, 17 mínútna langur þögull vestri. Frásagnir Griffith og leikhóps hans urðu til þess að æ fleiri kvikmyndaframleiðendur og leikarar, sem höfðu starfað á austurströndinni, fluttust vestur og komu sér fyrir á Hollywood-svæðinu. Hollywood varð þannig eins konar samnefnari fyrir bandaríska kvikmyndagerð og þannig hefur það verið allt til þessa dags.
Hver stafur er um 15 metra hár og rúmlega 9 metra breiður.
Frægð, frami og vonbrigði
Þótt draumar margra um frægð og frama hafi ræst í Hollywood hefur það síður en svo gilt um alla sem þangað hafa lagt leið sína. Ein þekktasta frásögn af brostnum vonum segir frá Peg Entwistle, 24 ára leikkonu frá Wales. Hún hafði komið til Hollywood í atvinnuleit, eftir að hafa leikið á sviði í New York og fengið góða dóma. Í Hollywood fékk hún hlutverk í kvikmyndinni ,,Thirteen Women“. Þegar myndin var fullgerð sá Peg Entwistle að hlutverk hennar hafði að mestu verið klippt út. Hinn 18. september 1932, tveimur dögum eftir frumsýningu myndarinnar, klifraði Peg Entwistle upp stiga sem viðgerðarmenn höfðu skilið eftir við einn Hollywood-stafanna. Hún lét lífið eftir að hafa kastað sér úr stiganum. Síðar fannst bréf þar sem Peg Entwistle hafði ritað og lýsti þar vonbrigðum sínum. Fáeinum dögum síðar fann frændi hennar bréf þar sem henni var boðið aðalhlutverk hjá hinu virta leikhúsi Beverly Hills Playhouse. Bréfið kom líklega með póstinum daginn eftir að Peg Entwistle lést.
En nú að stöfunum í hlíðinni
Eins og áður var nefnt var Hollywoodland-auglýsingin ekki tekin niður eftir 18 mánuði eins og til stóð í upphafi. Stafirnir voru ekki gerðir til að standa árum saman og hægt og bítandi létu þeir á sjá. Um miðjan fimmta áratug síðustu aldar féll fremsti stafurinn, H, á hliðina. Ólíkum sögum fer af því hvernig það atvikaðist. Ein er sú að bílstjóri hafi misst vald á bíl sínum sem hafi lent á undirstöðum skiltisins með fyrrgreindum afleiðingum. Annars staðar má lesa að H stafurinn hafi lagst á hliðina í miklu hvassviðri. H stafnum var komið á sinn stað. Árið 1949 var gert við stafina, sem farnir voru að láta mjög á sjá og jafnframt voru fjórir öftustu stafirnir, LAND, fjarlægðir. Hér eftir væri það HOLLYWOOD sem blasti við í hlíðinni. Ákveðið var að slökkt skyldi á perunum 4 þúsund, sem lýst höfðu upp stafina en áfram yrði kveikt á kösturum, sem höfðu verið settir upp árið 1923 og drógu athygli að stöfunum.
HuLLYW OD og Hugh Hefner
Fátt endist að eilífu og það átti sannarlega við Hollywood-stafina. Þótt viðgerðin árið 1949 hafi dugað vel var skiltið vart orðið svipur hjá sjón þegar kom fram á áttunda áratuginn. Efri helmingur fyrsta O stafsins dottinn af og stafurinn því breyst í lítið u og svo var þriðji síðasti stafurinn, O, líka fallinn um koll. Þótt mörgum þætti súrt í brotið að sjá hvernig komið var gerðist þó fátt fyrr en Hugh Hefner, eigandi og útgefandi tímaritsins Playboy, beitti sér fyrir söfnun til viðgerðar, eða réttara sagt endurgerðar, á stöfunum. Hann lagði sjálfur fram stórfé til verksins. Steyptar voru nýjar undirstöður fyrir stafina sem nú voru gerðir úr stáli, en nákvæmlega eins og þeir upprunalegu. Engar raddir heyrðust, og höfðu reyndar aldrei heyrst, um að stafirnir hyrfu. Við sérstaka athöfn 11. nóvember 1978 fór fram sérstök athöfn þar sem nýju stafirnir voru afhjúpaðir.
Árið 2005 voru stafirnir hreinsaðir og síðan málaðir, í sama hvíta litnum og áður.
Vildu stafina burt og byggja í hlíðinni
Árið 2010 munaði minnstu að Hollywood-stafirnir hyrfu. Þá höfðu erfingjar athafnamannsins Howard Hughes, sem hafði keypt landið árið 1940, selt það fjárfestum sem vildu byggja glæsihýsi í hlíðinni. Fjölmargir urðu til að mótmæla þessum fyrirætlunum og Arnold Schwarzenegger, þáverandi ríkisstjóri í Kaliforníu, vildi gera svæðið að opinberu landi. Slíkt kostaði stórfé, því fjárfestarnir gáfu ekkert eftir. Þegar allt útlit var fyrir að ekki tækist að safna nægilegri fjárhæð hljóp Hugh Hefner undir bagga og lagði fram eina milljón dollara (131 milljón íslenskar) og þar með var skiltunum bjargað.
Eitt þekktasta kennileiti í Bandaríkjunum
Þá félaga, Woodruff og Shoults, hefur líklega ekki grunað að stafirnir sem ætlað var að auglýsa byggingaland yrðu með tímanum eitt þekktasta kennileiti í Bandaríkjunum. Það er oft nefnt í sömu andrá og Frelsisstyttan og Empire State. Næsta óhætt er að fullyrða að stafirnir níu muni standa í hlíðinni vestan við Los Angeles um ókomin ár. Til stendur að efna til hátíðahalda vegna ,,aldarafmælisins“ síðar á þessu ári.
Draumaborgin, martröð sumra
Þótt í Hollywood og Los Angeles hafi margir draumar ræst eru líka margir sem ekki hafa ræst. Hvergi í Bandaríkjunum eru eins margir heimilislausir og í ,,borg englanna“. Um það bil 75 þúsund manns hafast við á götunni. Það sem af er þessu ári hefur heimilislausum í borginni fjölgað um 9 prósent.
Athugasemdir