Upp er komin sú staða að flokkkur Carles Puigdemont, Saman fyrir Katalóníu eða Junts, gæti haft úrslitaáhrif um það hvort að forsætisráðherra Spánar Pedro Sánchez geti setið áfram í embætti eða ekki. Þessi miklu áhrif Junts eru tilkomin þrátt fyrir það að flokkurinn hafi einungis fengið sjö þingsæti í nýafstöðnum kosningum af 350.
Fyrir kosningar var útlit fyrir að öfgahægriflokkurinn Vox yrði í bílstjórasætinu að kosningunum loknum. Skoðanakannanir gáfu til kynna að hinn íhaldssami Lýðflokkur, Partido Popular, gæti náð í meirihluta þingsæta í félagi við Vox. Lýðflokkurinn fékk flest sæti allra flokka í kosningunum, 136 talsins. Vox beið aftur á móti afhroð í kosningunum, hlaut 33 þingsæti en hafði 52 fyrir. Samanlagður þingstyrkur þessara tveggja flokka dugir því ekki til að ná hreinum meirihluta, hægri blokkin hefur 169 sæti en þarf 176.
Þingstyrkur Sósíalista og samstarfsflokks hans sem nefnist Sumar er öllu minni. Sósíalistaflokkurinn hlaut 122 sæti í nýafstöðnum kosningum og er næststærsti flokkur Spánar. Sumar hefur 31 sæti og samtals ráða flokkarnir tveir því yfir 153 sætum.
Torfæruleið Sánchez greiðari en leið hægri blokkarinnar
Þrátt fyrir þennan mun telja stjórnmálaskýrendur að það muni reynast auðveldara fyrir Sánchez heldur en hægri blokkinni að afla sér stuðnings frá öðrum flokkum, líkt og greint er frá í umfjöllun the Financial Times. Flokkarnir sem helst eru nefndir í því samhengi eru flokkar sem berjast fyrir sjálfstæði Katalóníu og Baskalands, flokkar sem hafa verið á bandi Sánchez frá því 2018.
Mikilvægasta púslið í þessu púsluspili Sánchez er flokkur Puigdemont, Junts, en margt þarf að ganga upp fyrir Sánchez ætli hann sér að vinna sér inn stuðnings flokksins, líkt og fram kemur í umfjöllun The Guardian. „Við munum ekki gera Pedro Sánchez að forsætisráðherra í skiptum fyrir ekki neitt,“ sagði Míriam Nogueras en hún er einn af leiðtogum Junts eftir kosningarnar. Puigdemont sagði flokkinn ekki skulda neinum neitt nema kjósendum.
Af þeim sjálfsstæðissinnuðu stjórnmálaflokkum Baska og Katalóna sem Sánchez þarf að reiða sig á rekur Junts hörðustu stefnuna fyrir sjálfstæði. Þannig hefur aðalritari Junts, Jordi Turull, sagt að flokkurinn krefjist þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfsákvörðunarrétt Katalóníu og sakaruppgjöf fyrir öll þau sem hafa verið ákærð eða sæta rannsókn í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem fór fram árið 2017. Sú atkvæðagreiðsla var dæmd ólögleg af hæstarétti Spánar og það var í kjölfar hennar sem Puigdemont fór í sjálfskipaða útlegð í Belgíu.
Líkja samsteypustjórn Sánchez við skrímsli Frankensteins
Það er ekki hlaupið að því fyrir Sánchez að verða við þessum kröfum. Til að mynda stendur stjórnarskrá Spánar í vegi fyrir því hann geti boðað þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfsákvörðunarrétt Katalóníu.
Takist Sánchez aftur á móti að tryggja sér stuðning Junts, sem og annarra flokka sjálfstæðissinna, gæti hann tryggt sér meirihluta stuðning innan spænska þingsins. Önnur leið sem gæti verið Sánchez fær er að treysta á að Junts taki ekki afstöðu í þinginu. Þá þyrfti Sánchez stuðning 172 þingmanna. Fái hann stuðning annarra sjálfstæðissinna í Katalóníu, Galisíu og Baskalandi er það raunhæfur möguleiki.
Í kosningabaráttu sinni baunaði Lýðflokkurinn á Sánchez fyrir bútasauminn sem hann hefur þurft að stunda til að halda í meirihluta sinn. Líkti Lýðflokkurinn stjórninni við skrímsli Frankensteins og átaldi Sánchez fyrir að hafa klastrað saman samsteypustjórn með róttækum aðskilnaðarsinnum á vinstri vængnum. Ljóst er að viðbót Junts í hópinn mun einungis auka á gagnrýnina frá flokkunum á hægri vængnum.
Athugasemdir (1)