„Þær sorglegu fjölskyldudeilur sem verið hafa í opinberri umræðu á síðustu dögum vegna erfðadeilu innan systkinahóps föður míns eftir fráfall afa míns árið 2007 eru mér með öllu óviðkomandi og hafa verið um langt árabil,“ segir í yfirlýsingu sem Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, hefur sent frá sér í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar um hlaðvarpið Lömbin þagna ekki. Yfirlýsingin er send frá netfangi hans hjá ráðuneytinu.
Að baki hlaðvarpinu eru þrjár systur, tengdar Ásmundi Einari, þar sem þær fjalla um deilur um jörðina Lambeyri í Dölum.
Sakaður um innbrot
Þær sendu tilkynningu til fjölmiðla þegar fyrstu þátturinn kom út á dögunum. Í kynningu á honum segir: „Réttlætishlaðvarpið "Lömbin þagna ekki" segir sannleikann um ættardeilur Ásmundar Einars Daðasonar, ráðherra Framsóknarflokksins. Í fyrsta þætti er fjallað um upphaf átakanna, þ.e. þegar afi Ásmundar fellur frá. Meðal annars er farið yfir það þegar Ásmundur var staðinn að verki við innbrot, hvernig Daði Einarsson (faðir ráðherra) kom ættarjörðinni í þrot, og því er lýst þegar Ásmundur hóf að sýsla með annarra manna fé án leyfis.“
Þá hafa bæði Mbl.is og Vísir.is birt fréttir um að þeir hafi ekki náð tali af Ásmundi Einari vegna málsins.
Vonar að þessu ljúki sem fyrst
Í yfirlýsingunni sem hann sendir frá sér nú segist hann hafa í upphafi tekið afstöðu með föður sínum. „Engu að síður er langt síðan mér var það ljóst að nærvera mín í þessum ágreiningi gerði hvorki mér, fjölskyldu minni, né öðrum nokkurt gagn. Þess vegna steig ég út úr þessum átökum í eitt skipti fyrir öll fyrir mörgum árum síðan og mun ekki tjá mig um málið á öðrum vettvangi en þeim sem þar til bærir opinberir aðilar kunna mögulega að leita eftir. Ég á mér fyrst og fremst þá einlægu von að þessum fjölskylduharmleik ljúki sem allra fyrst,“ segir hann.
Þá segist Ásmundur Einar aldrei hafa „verið ákærður fyrir ólögmætt athæfi vegna þessara deilna né heldur yfirheyrður vegna einhverra málsatvika.“
„Enda þótt reynt sé að bendla mig við þetta mál, væntanlega til þess að beina að því sterkara kastljósi en ella, mun ég ekki glæða þá elda sem nú er reynt að kveikja með útskýringum né heldur með því að bera af mér endurteknar rangar sakargiftir,“ segir þar ennfremur.
Var bóndi á Lambeyri
Eins og Stundin, annar forveri Heimildarinnar, fjallaði um árið 2017 um þá var Ásmundur Einar var bóndi á Lambeyri þar til árið 2009 þegar hann settist á þing fyrir Vinstri græn en reksturinn á jörðinni var skráður á föður hans, Daða Einarsson. Jörðin sjálf var hins vegar í eigu félagsins Lambeyrar ehf. sem er í eigu Daða og systkina hans allra, sem eru 8 talsins: Daða, Skúla, Jóhönnu, Jónínu, Ólafar, Valdísar Svanborgar og Valdimars. Reksturinn var sem sagt í sérstöku félagi sem Daði átti einn, Ásmundur Einar bjó svo á jörðinni til ársins 2009, en systkinin öll voru skráðir eigendur jarðarinnar og leigðu hana til félags Daða í gegnum eignarhaldsfélag.
Búið sem Daði rak á jörðinni varð gjaldþrota og missti hann í kjölfarið eignarhlut sinn í jörðinni yfir til systkina sinna sjö. Bróðir Daða hefur vænt feðgana um innbrot í íbúðarhús á Lambeyrum, líkt og systurnar gera nú.
Hér má lesa nánar um málið:
- Skyldi hann misnota aðstöðu sína í ráðuneytinu til fleiri hluta?
Það að maðurinn hafi ekki verið yfirheyrður eða ákærður þýðir engan veginn að hann sé saklaus af því sem hann er sakaður um.