Í dag, fimmtudaginn 20. júlí, verða svokallaðar „aukakosningar“ í þremur kjördæmum í Bretlandi og pólitíkusar og pistlahöfundar eru að fara á taugum. En af hverju opna menn pilluglösin þótt kosið verði um þrjú þingsæti af 650? Íhaldsflokkurinn er jú í ríkisstjórn með traustan meirihluta, 352 sæti og hin opinbera stjórnarandstaða, Verkamannaflokkurinn, með einungis 195? Er ekki stjórnin örugg hvernig sem niðurstöðurnar verða?
Ástæðan fyrir titringnum er sú að kosningar til þings verða í Bretlandi í síðasta lagi í ársbyrjun 2025. Líklegast er að kosið verði haustið 2024, eftir rúmt ár, og því er litið á aukakosningarnar á fimmtudag sem prófstein á forystumennina Rishi Sunak fyrir Íhaldsflokkinn og Keir Starmer fyrir Verkamannaflokkinn. Þeir hafa hvorugur leitt flokka sína gegnum þingkosningar og mikið er í húfi.
Hvers vegna fara fram aukakosningar?
Í Bretlandi er ekki kosið um lista heldur eru þar einmenningskjördæmi og engir varamenn. Þess vegna þarf að kjósa ef einhver þingmanna heltist úr lestinni. Og það getur gerst af ýmsum ástæðum. Þeim kann að vera vísað á dyr vegna brota gegn þinginu, aðrir missa áhugann á starfinu og stundum er þeim ekki sætt vegna ósæmilegrar hegðunar.
Hvers vegna hætta þrír núna?
Jú. Einn þeirra heitir Boris Johnson og hans kjördæmi er í London. Hann er grallaraspói, bráðskemmtilegur fyrrverandi formaður Íhaldsflokksins og forsætisráðherra. Hann sagði af sér þingmennsku í júní frekar en að láta reka sig. Aganefnd þingsins hafði nefnilega komist að þeirri niðurstöðu að hann hefði logið að þinginu, eftir að hafa brotið af sér með því að drekka og djúsa í gleðskap í forsætisráðuneytinu á sama tíma og hann hafði sett þjóðina í samkomubann vegna COVID. Það er svipað því að lögreglustjórinn á Suðurnesjum lokaði almenningi öllum leiðum að Litla-Hrútsgígnum, héldi svo partí þar fyrir sig og félagana í lok vinnudags með bjór og brekkusöng og segðist ekki hafa áttað sig á að það gæti verið vandamál.
En hinir tveir?
Annar þeirra, Nigel Adams, var mjög handgenginn Boris Johnson og hætti í kjölfar foringja síns, líklega af aðskilnaðarkvíða. En aðalástæðan er sú að hann var tilnefndur til aðalstignar en fékk ekki. Hann hafði verið kosinn með 60 prósentum atkvæða í kjördæmi í Norður Yorkshire, sem ber nafn af borginni Selby. Hún er talin nefnd eftir landnámi víkinga og þar var smíðaður togarinn Ross Tiger, sem komst í íslensku pressuna í fyrsta þorskastríðinu. Nigel Adams var afreksmaður í krikket.
„Hann varð uppvís að kókaínneyslu og ótæpilegri drykkju japansks vískís“
Þriðji flóttamaðurinn heitir David Warburton. Hann var, eins og kollegi hans, Nigel Adams, kosinn með traustum meirihluta, 56 prósentum, en neyddist til að segja af sér. Hann varð uppvís að kókaínneyslu og ótæpilegri drykkju japansks vískís, en sagði til skýringar að það hefði verið „mjög sterkt“. Kjördæmið hans er í Somerset í suð-vesturhluta Englands. Þar í nágrenninu er haldin ár hvert frægasta rokkveisla Evrópu, Glastonburyhátíðin. Þangað gæti David Warburton auðvitað hafa farið til að hitta kjósendur sína og fengið sér of mikið í nösina.
Hvernig er staðan í Íhaldsflokknum?
Flokkarnir tveir eru mjög ólíkt staddir í lífinu um þessar mundir.Íhaldsflokkurinn hefur ríkt frá árinu 2010, þegar David Cameron batt endi á 13 ára valdatíð Verkamannaflokksins. Hann var forsætisráðherra til 2016 þegar hann sagði af sér eftir að hafa lent öfugu megin í þjóðaratkvæðagreiðslunni um BREXIT, útgönguna úr Evrópusambandinu.
Eftirmenn Camerons hafa verið margir og mislengi við völd, Theresa May í þrjú ár, Boris Johnson álíka lengi, frá júlí 2019 til september 2022, Liz Truss í 50 daga haustið 2022 og Rishi Sunak frá október það sama ár. Hann gengur því til prófs á fimmtudag.
Íhaldsflokkurinn er nokkuð skekinn eftir þessi tíðu mannaskipti. Þrír forsætisráðherrar á einu ári. Það eru ekki beinlínis merki um sterkan flokk og örugga forystu. Þeir voru ekki fyrr búnir að taka upp úr kössunum í Downingstræti 10 en þeir þurftu að byrja að pakka niður aftur og líklega orðnir þreyttir í bakinu. Þetta er dálítið eins og leigumarkaðurinn í Reykjavík. Þú þarft alltaf að vera tilbúinn til að flytja.
Örlög þeirra Theresu May og Liz Truss eru líka umhugsunarefni. Þrátt fyrir að Bretland hafi átt öflugar og vinsælar konur í forystu þjóðmála, eins og Margaréti Thatcher og Elísabetu drottningu, virðist þar enn verulega á brattann að sækja fyrir konur.
En hvað með Verkamannaflokkinn?
Verkamannaflokkurinn er öðruvísi settur. Þar finnst kjósendum loksins komin stjórn á hlutina eftir 13 ára eyðimerkurgöngu og innanflokksdeilur.
Tony Blair var leiðtogi flokksins í 13 ár, frá 1994 til 2007, en þá tróð Gordon Brown sér í stólana hans, bæði á flokkskontórnum og í forsætisráðuneytinu. Þá byrjaði allt að fara til andskotans.
Gordon Brown tapaði fyrir David Cameron í kosningunum 2010 og varð að segja af sér formennsku. Við tók Ed Miliband í tæp fimm ár. Þá kom röðin að Jeremy Corbyn í önnur fimm. Báðir spiluðu rassinn úr buxunum, töpuðu öllum kosningum sem hægt var að tapa og auðmýkingin varð alger 2019, þegar Jeremy Corbyn var auðmýktur af Boris Johnson, sem alltaf hefur sýnt sig að vera flinkur í pólitík. Útkoma Verkamannaflokksins var sú versta síðan fyrir seinni heimsstyrjöld, 1935.
„Ef hægt væri steypa þeim Boris Johnson og Keir Starmer saman, yrði útkoman drepfyndinn pólitíkus með allt á hreinu“
En þá fór sólin að rísa hjá Verkamannaflokknum. Nýr formaður, Keir Starmer, sem tók við taumunum í apríl 2020, virðist hafa stjórn á hlutunum. Hann er fyrrverandi ríkissaksóknari, les heima og mætir undirbúinn í tíma. En hann hefur þótt frekar þurr á manninn, sérstaklega í samanburði við Boris Johnson, þegar þeir leiddu saman hesta sína í þinginu. Ef hægt væri steypa þeim Boris Johnson og Keir Starmer saman, yrði útkoman drepfyndinn pólitíkus með allt á hreinu.
Hvernig er staðan fyrir daginn í dag?
Íhaldsmenn eru svartsýnir. Nýlegar skoðanakannanir á landsvísu sýna fylgi þeirra næstum helmingi lægra en andstæðinganna, sem mælast með allt upp undir 50 prósent. Sumir óttast að tapa í öllum kjördæmunum þremur. Í hinu gamla kjördæmi Boris Johnson í London og í Norður-Yorkshire, gerir Verkamannaflokkurinn sér góðar vonir. Í báðum tilfellum hefði Íhaldsflokkurinn átt að geta treyst á sigur við „eðlilegar kringumstæður“. Og í Somerset á þriðja landsmálaaflið, Frjálslyndi Demókrataflokkurinn, góða möguleika á að vinna.
En af hverju eru þetta ekki taldar eðlilegar kringumstæður? Ein ástæðan er Long Boris. Líkt og í tilfelli Long Covid, hinnar langvinnu og torskildu þreytu eftir alheimspestina, er breskur almenningur ekki talinn búinn að jafna sig almennilega eftir stormasama stjórnartíð Boris Johnson.
Aðrar hugsanlegar ástæður hljóma kunnuglega í eyrum okkar Íslendinga, nefnilega dýrtíð og verðbólga. Háir vextir á húsnæðislánum, orkuverð og hækkandi vöruverð plaga Breta. Og heilbrigðiskerfið virkar ekki.
Allt þetta bitnar illa á hinum geðþekka Rishi Sunak. En það eru líka vandamál á Keir Starmer heimilinu. Eðalkrötunum finnst hann gjarnan gleyma hinum gömlu gildum jafnaðarstefnunnar. Nú er hann gagnrýndur mjög hart fyrir að stefna ekki að afnámi reglu sem íhaldsmenn settu um að takmarka barnabætur við tvö börn. Hann segir kokhraustur að það sé ekki hægt að vinda ofan af 13 ára óstjórn íhaldsins á einni nóttu.
Kannski er hans tími að koma.
Höfundur er lífeðlisfræðingur sem lærði í Bretlandi og var eitt sinn alþingismaður.
Athugasemdir