„Ríkisstjórnin leggur áherslu á góð vinnubrögð, opna stjórnsýslu og gagnsæi. Kappkostað verður að miðla upplýsingum um ákvarðanir og ferli sem varða hagsmuni almennings með aðgengilegum hætti.“ Svona hefst kaflinn „Lýðræði og gagnsæi“ í stjórnarsáttmála fyrstu ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur sem birtur var síðla árs 2017.
Í stjórnarsáttmálanum sem gerður var árið 2021, þegar ríkisstjórnarsamstarfið var endurnýjað, var aftur klifað mikið á orðum eins og „gagnsæi“, að tryggja ætti almenningi „aðgengi að upplýsingum“ og byggja upp alls kyns traust. Á grunni þessa hefur verið ráðist í alls kyns hlutverkaleiki með lagabreytingum, nýjum reglugerðum og digurbarkalegum yfirlýsingum sem eiga að skapa þau hughrif að verið sé að sýna á meira þegar í raun er verið að sýna á minna.
Vilji stjórnmálamanna og opinberra stofnana til að veita fjölmiðlum og almenningi upplýsingar er nefnilega á hröðu undanhaldi. Stjórnsýslan kemur okkur, að mati ráðamanna, ekkert sérstaklega mikið við. Hún er þeirra mál. Aðhald er óþarft.
Færeyska fyrirmyndin
Dæmi um þetta er að finna í Heimildinni í dag. Þar er greint frá beiðni um upplýsingar frá íslenskum ráðuneytum vegna samskipta við færeyska kollega árið 2017 vegna þá fyrirhugaðrar lagasetningar þar í landi sem átti að takmarka erlenda fjárfestingu í sjávarútvegi. Þar voru íslensk stjórnvöld að ganga erinda eins íslensks fyrirtækis, Samherja, og vildu helst ekki að nokkur heima fyrir frétti af því.
Þegar óskað var eftir upplýsingum og gögnum frá færeyskum ráðuneytum, í samstarfi við færeyskan fjölmiðil, þá fékkst nánast allt sem beðið var um. Stjórnsýslan í Færeyjum er enda eðlileg og innan hennar þykir slíkt gagnsæi sjálfsagt. Einu undantekningarnar voru vegna þrýstings íslenskra stjórnvalda í garð þeirra færeysku um að afhenda ekki upplýsingarnar.
Þegar Heimildin óskaði eftir aðgangi að gögnum um sömu samskipti hjá íslenska utanríkisráðuneytinu var beiðni þar um um synjað. Í því svari sagði að væri það mat ráðuneytisins að afhending bréfaskipta milli utanríkisráðherra og útlenskra ráðamanna „kunni að skaða framtíðar stjórnmálasamband við önnur lönd“.
Þetta svar er lygi. Ástæðan sem gefin er á ekki við rök að styðjast. Fyrir liggur að færeysk stjórnvöld sáu ekkert athugavert við að afhendingu bréfanna, en létu undan þrýstingi frá íslenskum stjórnvöldum um að gera það ekki.
Vísa í trúnað til að fela eigin rangstæðu
Þetta er ekki í eina skiptið sem utanríkisráðuneytið hefur hagað sér með þessum hætti á undanförnum árum. Í fyrra óskaði Stundin, sem síðar rann inn í Heimildina, eftir að fá öll gögn sem vörðuðu samskipti ráðuneytisins við Evrópusambandið þegar mögulegt var að Aleksander Moshensky, kjörræðismaður Íslands í Belarús, yrði látinn sæta viðskiptaþvingunum. Hann hefur átt í miklum og arðsömum viðskiptum við íslenskar útgerðir síðastliðna tvo áratugi.
Utanríkisráðuneytið hafnaði öllum beiðnum með vísun í upplýsingalög. Í svari þess sagði að ef viðmælendur utanríkisþjónustunnar gætu ekki treyst því að trúnaður yrði undantekningarlaust virtur myndi það ógna lögmæltu hagsmunagæsluhlutverki ráðuneytisins „í þágu íslenska ríkisins með þeim afleiðingum að brýnir almannahagsmunir yrðu fyrir borð bornir“.
Í apríl í fyrra gaf utanríkisráðuneytið út reglugerð sem samþykkt var eftir beiðni Ragnars Kjartanssonar myndlistarmanns til íslenskra stjórnvalda þar um. Í henni felst að utanríkisráðherra má nú óska þess að Útlendingastofnun gefi út vegabréf til útlendings „ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi“. Greint var frá því undir lok síðasta árs að Maria Alyokhina, liðsmaður Pussy Riot, hafi fengið útgefið slíkt vegabréf. Í umfjölluninni kom fram að Ragnar hafi leitað til Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra og flokksfélaga síns, um aðstoð við að tryggja Alyokhina íslenskt vegabréf. Það hafi leitt til þess að reglugerðin var sett.
Utanríkisráðuneytið hefur neitað að upplýsa um hversu mörg „sérstök vegabréf“ hafa verið útgefin. Í umsögn þess vegna kæru til úrskurðarnefndar um upplýsingamál sagði að ekki væri „hægt að útiloka neikvæð viðbrögð viðkomandi erlendra stjórnvalda, á alþjóðavettvangi, gagnvart íslenskum hagsmunum [...] ef þau frétta af vegabréfaútgáfu til ríkisborgara sem e.t.v. hafa flúið landið vegna ógnar sem þau hafa orðið fyrir“.
Öll ofangreind mál eiga það sameiginlegt að þar eru ráðherrar að beita sér fyrir sérhagsmunum með hætti sem, að minnsta kosti rökstuddur grunur er um, þoli illa dagsljósið. Í þeim öllum er vísað í nauðsynlegan trúnað og almannahagsmuni sem ástæðu fyrir synjun á afhendingu upplýsinga, þegar fyrir liggur að augljós pólitísk rangstæða viðkomandi ráðherra er helsta skýring leyndarhyggju.
Seðlabankinn sem svarar aldrei neinu
Það eru ekki bara ráðuneyti sem haga sér með þessum hætti. Seðlabanki Íslands er sérkapítuli út af fyrir sig. Hann vísar ætíð í trúnaðarákvæði laga um starfsemi hans, sem hægt er að túlka huglægt og eftir hentugleika, þegar fyrirspurnir berast, og segist með því taka „varfærna“ afstöðu gagnvart birtingu gagna. Í reynd veitir þetta fyrirkomulag Seðlabankanum fullt vald yfir upplýsingamiðlun sinni. Vald sem hann nýtir sér án undantekninga til að fela allt sem orkar tvímælis í víðfeðmri og samfélagslega mikilvægri starfsemi bankans frá þeim sem hann á að vera að vinna fyrir.
Það á til að mynda við um spurningar um sölu eigna upp á mörg hundruð milljarða króna, sem Seðlabankinn sat uppi með eftir bankahrunið, undir hatti félags sem fékk nafnið Eignasafn Seðlabanka Íslands (ESÍ). Að mati bankans kemur það ekki almenningi við hverjum þær eignir voru seldar, á hvaða verði né hvaða milliliðir voru fengnir til að sýsla með eignirnar. Seðlabankinn gaf það út að hann ætlaði að birta skýrslu um félagið fyrir árslok 2018. Nú, fimm og hálfu ári eftir að ESÍ var slitið, bólar ekkert á þeirri skýrslu.
Bankinn hefur heldur ekki viljað upplýsa um hverjir það voru sem fengu að nýta sér fjárfestingarleið hans, sem var opin í þrjú ár, 2012 til 2015, og mörg hundruð innlendir og erlendir aðilar sem áttu yfir ákveðna upphæð í erlendum gjaldeyri fengu að nýta sér. Umræddir aðilar gátu með því fengið heilbrigðisvottorð á peningana sína án þess að nokkurt virkt eftirlit væri með því hvaðan þeir kæmu. Auk þess fengu þeir um 17 milljarða króna virðisaukningu á þá fjármuni sem þeir fluttu inn í íslenskt hagkerfi og keyptu eignir á brunaútsölu fyrir.
Eignasala sem kemur almenningi ekki við
Þá hefur Seðlabankinn neitað að afhenda stöðugleikasamningana sem gerðir voru við slitabú föllnu bankanna, og fólu í sér að eignir upp á mörg hundruð milljarða króna voru afhentar íslenskum stjórnvöldum og þeim svo komið í verð í kjölfarið í gegnum félag sem fékk nafnið Lindarhvoll, sem verður betur komið að síðar.
Einnig hefur verið falast eftir því að upplýst sé um svokallaðar fjársópseignir, sem voru áfram í umsýslu slitabúa eftir gerð stöðugleikasamninga sem þau skuldbundu sig til að koma í verð og greiða söluandvirðið í ríkissjóð. Beðið hefur verið um yfirlit yfir þær eignir, hvað fékkst fyrir hverja þeirra, hvenær þær voru seldar og hvert virði hverrar og einnar eignanna sem skilaði sér í ríkissjóð hafi verið. Auk þess var auðvitað spurt um hverjir það voru sem fengu að kaupa fjársópseignirnar.
Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur sagt að það geti ekki svarað þessum spurningum. Hjá þeim slitabúum sem hafa verið spurð sambærilegra spurninga hefur fengist skýrt svar: nei, þetta kemur almenningi ekkert við.
Bætt í leyndarhyggjuna
Á síðustu dögum hefur dæmunum um leyndarhyggju hins opinbera fjölgað ansi hratt. Áðurnefndur Lindarhvoll rataði aftur í umræðuna nýverið þegar fyrrverandi ríkisendurskoðandi birti greinargerð sína um starfsemi félagsins. Þar gerir hann margháttaðar athugasemdir sem var ekki að finna í gleðilegri hvítþvottarskýrslu stofnunarinnar um Lindarhvol sem birt var 2021 og sagði alla framkvæmd hafa verið til nánast guðlegrar fyrirmyndar.
Umrædd greinargerð hafði ekki fengist birt árum saman þrátt fyrir að lögfræðiálit hefðu sagt að ekkert stæði í vegi fyrir því. Ekkert annað en Birgir Ármannsson, forseti Alþingis.
Fyrr í þessum mánuði ákvað ríkisendurskoðandinn fyrrverandi einfaldlega að dreifa greinargerðinni á nefndarmenn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og einn þeirra birti hana í kjölfarið á heimasíðu síns flokks. Þar er sett fram margháttuð gagnrýni. Viðbrögð stjórnarþingmanna hafa að uppistöðu verið gagnrýni á það að greinargerðin hafi yfirhöfuð verið birt.
Skömmu áður hafði birst sátt Íslandsbanka við Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands vegna margháttaðra lögbrota bankans í tengslum við sölu á 22,5 prósent hlut ríkisins í honum til lokaðs hóps 207 aðila verður svo sennilega einn svartasti bletturinn á starfstíma þessarar ríkisstjórnar. Ástæður þess hafa áður verið raktar á þessum vettvangi.
Sáttin var ekki birt í heild sinni. Búið var að strika yfir upplýsingar í henni. Hvorki fjármála- og efnahagsráðuneytið né Seðlabankinn fást til að afhenda hana óritskoðaða.
Í byrjun mánaðar boðaði svo Ríkisendurskoðun að stofnunin ætlaði að fylgja eftir stjórnsýsluúttekt sinni á sölunni á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Sent var bréf til fjármála- og efnahagsráðuneytisins þar sem óskað var eftir afstöðu þess gagnvart málflutningi Bankasýslunnar á nýlegum þingnefndarfundi. Bréfið fæst ekki afhent.
Mál drepin með töfum
Helsti leikur ráðuneyta, Seðlabankans og stofnana til að tefja birtingu gagna er að láta þá sem vilja nálgast þau vísa málunum til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, sem starfar eftir meingölluðum upplýsingalögum. Þess utan var málsmeðferðartími nefndarinnar að meðaltali 195 dagar á síðasta ári. Það þýðir að það tekur um sex og hálfan mánuð að jafnaði að fá niðurstöðu frá því að kæra berst. Af þeim úrskurðum sem kveðnir voru upp árið 2022 liðu mest 449 dagar frá kæru og þar til niðurstaða lá fyrir. Það eru næstum 15 mánuðir.
Þetta vita stjórnmálamenn og stofnanir sem vilja ekki að almenningur fái að vita hvað þau eru að sýsla. Með því að senda fjölmiðla eða almenning í þennan langvinna farveg tryggja þeir sér að minnsta kosti gott veður frá því að upplýsingarnar komi fram mánuðum saman og jafnvel þótt aðgangurinn fáist á endanum eru málin orðin gömul og skipta ekki lengur sama máli í samfélagsumræðunni.
Þykjustuleikir og áróður
Allir sem vinna við að upplýsa almenning vita að það er innbyggt í íslenska kerfið að reyna eftir fremsta megni að halda upplýsingum frá fjölmiðlum og almenningi. Og þeir vita að staðan hefur versnað hratt á undanförnum árum. Upplýsingafulltrúar og pólitískt skipaðir aðstoðarmenn ráðherra hafa enda beinlínis orðið uppvísir að því að vísa til fjölmiðla sem óvina sem þurfi að stöðva.
Sama fólk er í fullri vinnu, sem almenningur greiðir þeim há laun fyrir, við að afbaka upplýsingar og setja þær fram þannig að yfirboðarar þeirra líti vel út. Að láta lækkun ráðstöfunartekna líta út eins og hækkun. Að láta hækkun á skattbyrði líta út eins og lækkun. Að láta tveggja milljarða króna hækkun á barnabótum líta út fyrir að vera fimm milljarðar. Og svo framvegis.
Frekara aðgengi að upplýsingum eins og það er hugsað hjá núverandi stjórnvöldum felur ekki í sér bætta stjórnsýslu og opnara viðmót gagnvart því sem fjölmiðlar og almenningur vill fá að sjá. Það snýst um að miðla einhliða upplýsingum sem búið er að aðlaga að pólitískum markmiðum ráðandi afla. Setja fram áróður sem hannaður er til að villa um fyrir almenningi. Og hindra aðgengi að öðru.
Dæmin sem rakin hafa verið hér að ofan sýna þetta svart á hvítu. Ríkisstjórnin var bara að þykjast. Almannahagsmunir, að mati hennar, eru best tryggðir með því að almenningur viti sem minnst.
Leyndarmálið mun gera okkur frjáls.
Ef bjarN1 benediktsson og hyskið í kringum hann fer ekki að hirða pokana sína.
Þá þarf einfaldlega að fjarlæja þau með valdi og stokka svo ærlega upp í fjölskyldu atvinnuáskriftar í öllum ráðuneytum og öðrum ríkisstofnunum.
When the power of love overcomes the love of power, this world will see peace.
Ljúkashenka einvaldur Belarus hefur einnig sagt að íslensk spilling sé fremri annarri í Evrópu þar með talið í Belarus. Í lokin vill einvaldurinn ítreka stuðning ríkisstjórnar Belarus við íslensku ríkisstjórnina.
Spillingin lengi lifi!
Ljúkashenka.