Barnaverndarþjónustur um allt land taka á móti tilkynningum vegna kynferðisbrota gegn börnum að 18 ára aldri og aðstoða börnin og foreldra þeirra. Samkvæmt samanburðarskýrslu Barna- og fjölskyldustofu á tilkynningum árin 2019–2021 bárust alls 1.710 tilkynningar um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum á landinu öllu.
Þegar tilkynning berst til barnaverndarþjónustu fer af stað könnunarferli þar sem kannað er hvað gerðist, hvenær og hvort vitað er um vitni eða sönnunargögn. Þá þarf að taka ákvörðun um í hvaða ferli málið fer eftir alvarleika brotsins. Mál geta farið í lögreglurannsókn, könnun og meðferð hjá Barnahúsi og/eða fræðslu og sálfræðiviðtöl á vegum barnaverndarþjónustu.
Þegar foreldrar og börn hafa verið leidd í gegnum það ferli sem þarf til að aðstoða börnin og búið er að koma málum barnanna í farveg, sitja foreldrarnir oft eftir með vanlíðan, sektarkennd og vankunnáttu um hvernig eigi að styðja við barnið sitt í núverandi aðstæðum. Þá er algengt að foreldri hafi sjálft orðið fyrir kynferðisbroti sem barn eða unglingur sem aldrei hefur verið sagt frá eða unnið úr.
Ísland er framarlega í dag í því að veita börnum sem orðið hafa fyrir kynferðisbrotum aðstoð en svo var ekki fyrir 25–30 árum síðan. Þá tíðkaðist ekki að ræða um að eitthvað hafi komið fyrir eða að einhver hefði brotið á fólki. Þá viðgekkst líka annað í samfélaginu almennt um hvað (í flestum tilvikum) karlmenn töldu sig hafa rétt á að gera við konur. Káf á skemmtistað, að grípa í kynfæri konu og fleira í þeim dúr þótti frekar sýna áhuga á viðkomandi konu frekar en annað. Þeir aðilar sem verða fyrir slíku áreiti, geta hins vegar fundið fyrir mikilli vanlíðan og skömm. En þar sem áður fyrr þótti slík hegðun ekki tiltakandi, sitja viðkomandi aðilar með vanlíðan sína og tilfinningar því þeir hafa ekki þorað eða kunnað við að opna á þær.
Þá var einnig algengt að yngri börn og ungmenni þyrðu einfaldlega ekki að segja frá brotum, sérstaklega ef gerandi var innan fjölskyldunnar. Þegar foreldri þarf að aðstoða barn sitt sem brotið hefur verið á, á svipaðan eða sambærilegan hátt og brotið var á foreldrinu, getur það vakið erfiðar minningar og tilfinningar.
Í dag hafa foreldrar oft leitað sér aðstoðar hjá sálfræðingi eða öðrum fagaðilum vegna þess sem gerðist þegar það var sjálft ungt. Það er viðurkennt í dag að vinna þurfi úr reynslu sem þessari og að það sé aldrei of seint. En vanlíðan getur komið aftur upp þegar foreldri horfir á barnið sitt í sömu sporum og það hefur sjálft verið í. Þá kemur einnig upp óöryggi um hvernig á að ræða við barnið um líðan þess og tilfinningar og það sem gerðist. Foreldrar þurfa ekki endilega langa meðferð í þessum tilvikum en geta þurft á stuðningsviðtölum að halda. Þá getur verið gott að leita til fagaðila sem hefur þekkingu á kynferðisbrotum og úrvinnslu þeirra. Oft þarf bara þrjú til fimm stuðningsviðtöl fyrir viðkomandi foreldri. Hafa ber líka í huga að atburðir sem þessir hafa mismunandi áhrif á foreldra og er það eðlilegt. Allt fer það eftir áfallasögu hvors foreldris fyrir sig og hversu mikla vinnu viðkomandi hefur lagt í að vinna sig úr sínum áföllum, en allir verða fyrir einhverjum áföllum á lífsleiðinni. Foreldri getur líka þurft á stuðningi að halda þó að það hafi ekki sjálft orðið fyrir kynferðisbroti, þegar brotið er á barni finna foreldrar gjarnan fyrir óöryggi, sektarkennd og vanlíðan yfir að hafa ekki náð að vernda barnið sitt að fullu.
Einn mesti ótti hvers foreldris er að einhver brjóti á barninu þess og kynferðisofbeldi er með því versta sem foreldrar geta hugsað sér. Það er mikilvægt að styðja við og styrkja foreldra barna sem lenda í kynferðisbrotum. Leyfa þeim að tala um atburðinn og sína vitneskju í málinu sem og reyna af mætti að svara þeim spurningum sem foreldrið er með varðandi stuðning og næstu skref fyrir barnið sitt.
Mikilvægt er að fólk hafi í huga að leita til fagaðila með sannanlegt starfsleyfi en hægt er að fletta upp aðilum með gilt starfsleyfi á vef landlæknisembættisins.
Athugasemdir