Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar greiddi Skattinum tæpar 25 milljónir króna í vor. Það gerði hún í kjölfar þess að tilmæli bárust til allra sem starfað höfðu hjá Kviku banka og fjárfest í áskriftarréttindum eða kaupréttum, sem í boði voru fyrir starfsmenn bankans, þess efnis að það væri mat Skattsins að það ætti að greiða launaskatt af hagnaðinum, en ekki fjármagnstekjuskatt.
Í svari til Heimildarinnar segir Kristrún að hún hafi greitt fjármagnstekjuskatt af hagnaðinum á sínum tíma, í samræmi við leiðbeiningar sem hún hafi fengið frá fyrrverandi vinnuveitanda sínum, en Kristrún starfaði sem aðalhagfræðingur Kviku banka frá 2018 til 2021.
Gerir ekki athugasemdir við mat Skattsins
Kristrún segir að hagnaður sinn af áskriftarréttindum í bankanum hafi alls numið um 101 milljón króna og hún hafi áður greitt um 22 milljónir króna í fjármagnstekjuskatt af þeirri upphæð.
Það hefur hins vegar verið til skoðunar um nokkurt skeið hjá skattayfirvöldum hvort rétt væri að greiða fjármagnstekjuskatt eða venjulegan tekjuskatt af þeim hagnaði sem starfsmenn Kviku, núverandi og fyrrverandi, hafa innleyst vegna áskriftarréttinda sinna.
Í vor segir Kristrún að tilmæli hafi borist um að mat Skattsins væri að það ætti að greiða launaskatt af hagnaðinum. „Ég geri ekki athugasemd við það mat. Ég bað um að fá að greiða mismuninn strax og hef þegar gert það,“ segir Kristrún við Heimildina.
„Þegar upp var staðið fékk ég um 101 milljón króna út úr þessari fjárfestingu og hef nú greitt 46,25% af því í skatt. Það bættust við tæpar 25 milljónir króna núna í vor sem ég greiddi vegna mismunar á fjármagnstekju- og launaskatti, eftir að þessi tilmæli bárust frá Skattinum. Þær komu til viðbótar við um 22 milljónir króna sem ég hafði áður greitt,“ segir Kristrún.
Viðskiptavefurinn Innherji á Vísi fjallaði um það fyrir rúmri viku að Skatturinn væri með skattlagningu á áskriftarréttindum Kviku til skoðunar og var þess getið í frétt miðilsins að niðurstaðan í málinu gæti snert tugi starfsmanna Kviku, jafnvel hátt í hundrað manns, og að leiðréttingin á skattgreiðslum þeirra gæti hlaupið á hundruðum milljóna króna.
Heimildin beindi spurningum til Kristrúnar varðandi það hvort þessi skoðun Skattsins snerti hana með einhverjum hætti og niðurstaðan er sem áður segir, að hún hefur greitt 25 milljónir króna til viðbótar í skatta eftir tilmæli Skattsins þar að lútandi.
Svaraði fáu um kaupréttina í aðdraganda kosninga
Áskriftarréttindi Kristrúnar í Kviku banka voru talsvert til umræðu í aðdraganda þingkosninganna árið 2021, er Kristrún hafði tekið efsta sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi suður.
Kristrún svaraði fyrirspurnum fjölmiðla um fjárfestingu sína ekki efnislega fyrir kosningarnar, að öðru leyti en því að henni hefði eins og öðru starfsfólki bankans boðist sá kostur að fjárfesta í áskriftarréttindum í bankanum og að hún og eiginmaður hennar hafi nýtt sér sparnað sem þau áttu til þess.
Hún gagnrýndi hins vegar fjölmiðla, Morgunblaðið og Viðskiptablaðið, fyrir samantekin ráð gegn sér og sakaði miðlana meðal annars um það, í færslum á Twitter, að reyna að grafa undan sér með því að „snúa út úr og afbaka staðreyndir“ um hennar persónulega fjárhag.
„Nú þegar lítur út fyrir að ég nái kjöri á Alþingi mun ég að sjálfsögðu, eins og aðrir, fylgja öllum reglum varðandi hagsmunaskráningu þingmanna og gefa upp viðeigandi eignir. Þar er ekki miðað við að fólk opni sín persónulegu fjármál upp á gátt mörg ár aftur í tímann eins og ég hef verið krafin um af sumum fjölmiðlum. Þar af leiðandi hyggst ég ekki tjá mig um mín persónulegu fjármál eða viðskipti sem ég átti áður en ég hóf afskipti af stjórnmálum,“ sagði Kristrún í skriflegu svari sem hún veitti Stundinni og fleiri fjölmiðlum nokkrum dögum fyrir kosningarnar í september.
Ræddi málið í október og talaði um lottóvinning
Kristrún náði kjöri á þing og greindi síðar frá því, í viðtali við Egil Helgason í Silfrinu, að hún hefði keypt um 10 milljónir hluta í Kviku banka fyrir þrjár milljónir króna.
Í viðtalinu lýsti hún kaupum áskriftarréttindanna sem mikilli áhættufjárfestingu, sem reynst hefði fáránlega góð. „Þetta var lottóvinningur," sagði Kristrún í Silfrinu.
Gengisþróun hlutabréfa í Kviku hafði vissulega vegar verið afar hagfelld Kristrúnu og öðrum sem áttu áskriftarréttindi í bankanum, en á þeim tíma sem viðtalið var tekið, í október 2021, nam hagnaður hennar af fjárfestingunni, eftir skatta, um 30 milljónum króna að hennar sögn.
Þá átti Kristrún enn eftir um að leysa út þriðjung af þeim bréfum sem hún hafði keypt áskriftarréttindi að og sagði hún að væntur hagnaður af þeim, miðað við gengi bréfa í Kviku banka á þeim tíma, gæti orðið um 45 milljónir króna eftir skatta.
Í maí í fyrra uppfærði Kristrún hagsmunaskráningu sína á Alþingi og kom þar fram að hún ætti ekki lengur neina fjárhagslega hagsmuni sem reglur um hagsmunaskráningu þingmanna taka til, sem þýðir að þá var hún búin að losa um alla hlutabréfaeign sína í Kviku banka.
Á þeim tímapunkti hefur hreinn hagnaður Kristrúnar af áskriftarréttindunum numið um 79 milljónum króna eftir skatta, en í kjölfar leiðréttra skattgreiðslna hennar nú í vor hefur sú upphæð farið niður í um 54 milljónir króna.
Mér er stórlega til efs að jafnaðarmönnum í hópi kjósenda Samfylkingar finnist sjálfsagt að þeir sem sýsla með aura geti lagt til 3 millur og uppskorið 79 - eða skitnar 54 fyrst Skatturinn er með e-ð vesen.