Rétt rúmur þriðjungur landsmanna er ánægður með störf Jóns Gunnarssonar sem dómsmálaráðherra. Um fimmtungur landsmanna gerir miklar væntingar til Guðrúnar Hafsteinsdóttur, sem tók nýverið við sem dómsmálaráðherra. 44 prósent landsmanna er hins vegar sama hvort þeirra er dómsmálaráðherra.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri könnun Maskínu sem framkvæmd var dagana 19. til 22. júní. Í könnuninni er meðal annars spurt hvort fólk vilji frekar hafa Jón eða Guðrúnu sem dómsmálaráðherra út þetta kjörtímabil. Guðrún tók við lyklavöldum í dómsmálaráðuneytinu 19. júní af Jóni sem gegnt hafði embætti dómsmálaráðherra í 18 mánuði.

43,8 prósent er alveg sama hvort er dómsmálaráðherra
27,6 prósent aðspurðra vilja frekar hafa Jón áfram sem dómsmálaráðherra en 28,7 prósent vilja hafa Guðrúnu sem dómsmálaráðherra út kjörtímabilið. 43,8 prósent aðspurðra er hins vegar alveg sama hvort þeirra er dómsmálaráðherra.
Ef svör eru skoðuð eftir því hvaða stjórnmálaflokk fólk myndi kjósa nú má sjá að 48,8 prósent þeirra sem myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn vilja frekar hafa Jón en 19,4 prósent virðast ánægð með ráðherraskiptin og vilja hafa Guðrúnu út kjörtímabilið. Þau sem myndu kjósa Miðflokkinn vilja helst hafa Jón sem dómsmálaráðherra, eða 78,9 prósent. Guðrún er vinsælust hjá kjósendum Pírata en 55,5 prósent þeirra sem myndu kjósa Pírata nú vilja hafa Guðrúnu sem dómsmálaráðherra út kjörtímabilið.
Kjósendur Miðflokksins ánægðastir með Jón
Kjósendur Miðflokksins eru ánægðastir með störf Jóns á meðan hann var dómsmálaráðherra, eða 58,9 pósent. Þar á eftir koma kjósendur Sjálfstæðisflokksins en 47,3 prósent kjósenda hans eru ánægð með störf hans sem dómsmálaráðherra. Kjósendur Sósíalistaflokksins eru óánægðastir með störf Jóns, eða 68,8 prósent, en þar á eftir koma kjósendur Pírata, en 44,7 prósent kjósenda þeirra eru óánægðir.

Um fimmtungur hefur miklar væntingar til Guðrúnar
8,4 prósent svarenda gera mjög miklar kröfur til Guðrúnar sem dómsmálaráðherra. 13,1 prósent gerir fremur miklar kröfur en 42,2 prósent svarenda gera fremur litlar eða mjög litlar kröfur til hennar. Kjósendur Sjálfstæðisflokks gera mestar væntingar til hennar, 51,5 prósent þeirra gera mjög miklar eða fremur miklar væntingar til Guðrúnar sem dómsmálaráðherra en kjósendur Sósíalistaflokksins minnstar, eða 48,8 prósent.
Athugasemdir