Jarðnesk hagkerfi eiga það sammerkt með sólkerfum himnanna að afar auðvelt er að ruglast í rími þeirra, svo sem sagan rækilega sannar. Fyrri tíðar mönnum er þó vorkunn, svo augljóst sem það hlaut að vera að jörðin væri óhagganleg og kyrr, andstætt við hvelin hverfandist um hana á fleygiferð – ella hlyti allt að hafa þeyst af henni, ekki satt? Svo óhagganleg sem óðul lénsherra okkar hafa líka ávallt reynst vera – á sérhverjum tíma – svo lengi sem jarðnesk hagspeki hefur ekki þeim himneskari um vélt, ruglandi fyrir mönnum allt ævagamla rímið. Jafnvel svo að karlar snerust ekki bara um konur eða frúr um herra sína, heldur skyldu svo kvár og allrahanda hinsegin og kynsegin fá afvegaleitt sjálft heilagt pílagrímið!
Eða á sinn hátt, með orðum franska heimspekingsins Nikulásar Oresme – er á sinni tíð, á 14. öld, var einhver virtasti lærimeistarinn við háskólann í París (Sorbonne) – hann leggjandi svo út af réttsýni þeirra Aristótelesar og Ptólemaíosar, þeirri klassísku heimsmynd er miðaldakirkjan hafði með sínum hætti soðið saman í hina einu sönnu og óhagganlegu mynd, hvað ella myndi við blasa ef fallist yrði á þá gagnstæðu mynd, að jörðin snerist en himnarnir ekki:
-
Við erum þá neydd til að ætla þeim (himinhvelunum) gífurlegan hraða. Þetta verður ljóst hverjum sem gaumgæfir hæð og víðáttu himnanna, mikilleik þeirra og hringbrautarinnar: Því það er ógerningur, ef þvílíkur snúningur á að gerast á einum degi, að gera sér í hugarlund hvernig hraði himnanna gæti verið svo furðulega og gífurlega mikill. – En engu að síður eru allir á þeirri skoðun (um hraða himnanna) og ég trúi að þeir hreyfist en jörðin ekki, enda hefir Drottinn fest jörðina, svo að hún haggast eigi (Sálmarnir 93,1), hvað sem líður öllum rökum fyrir hinu gagnstæða, því að þau eru aðeins fortölur sem leiða ekki til augljósrar niðurstöðu. (þýð. hér lítillega endursögð: Þorsteinn Vilhjálmsson, Heimsmynd á hverfanda hveli I, bls. 215, M&M 1986)
Svo efins sem Nikulás Oresme kann þó að hafa verið um hið augljósa, þá var hann Drottni vissulega trúr og kirkju sinni, svo augljóslega sem hann hefði ella átt yfir höfði sér bannfæringu fyrir þvílíka annars tregðu til skilnings á lögmálinu. Fyrir þvílíka annars snúninga hlyti ella allt augljóslega að þeytast út í geim. Í París nemur snúningshraði jarðar hvorki meira né minna en 18.290 km á einum degi (einum sólarhring), sem svarar til 762 km/klst, sem liggur nærri þotuhraða, og við miðbaug er hraðinn 1.667 km/klst, sem er langt yfir hraða hljóðsins (1.238 km/klst) – hvað þá hvílíkar hamfarir hlytu ekki að hafa blasað við að viðbættum hraða jarðar á braut sinni um sól, sem liggur nærri því að vera um 940 milljón km á einu ári, eða sem næst 107 þúsund km á hverri klukkustund! Að ekki væri þá minnst á snúningana innan Vetrarbrautarinnar okkar – ef allt það hrikalega ferli hefði líka komið til álita – þar sem sólkerfið, sem sagt okkar, þeytist áfram á um 790 þúsund km hraða á klukkustund, ljúkandi að vísu hverjum hring í kringum miðju brautarinnar á einungis um 225 til 250 milljónum ára.
Þó að miðaldamenn ætluðu ummál jarðar öllu minna en raun ber nú vitni, sem og ekki síður fjarlægðina til sólar og hinna ýmsu annarra hnatta (hvað þá að órað hefði þá fyrir hinum ýmsu vetrarbrautum, Galaxies), þá breytti það ósköp litlu, hraðinn hlyti engu að síður að vera svo furðulega og gífurlega mikill, að tómt mál væri að ræða það – að það væri sem sagt jörðin sem kynni að snúast en ekki himnarnir. Fortölur fyrir svo augljósri fjarstæðu hlutu að vera ósamboðnar öllum hugsandi mönnum, hvað þá að slík fásinna væri borin á borð innan veggja svo virðulegra menntastofnana sem Sorbonne … a.m.k. svo lengi sem öllu algildara tregðulögmál var ekki komið á dagskrá en raun bar vitni.
Um afl- og þyngdarmiðjur hagkerfa
Líkt og stjörnukerfi snúast jarðnesk hagkerfi um skipan sveigjanlegra kerfisheilda, um innbyrðis tengsl og hreyfingar eininganna sem mynda heildina, um kraftana sem ljá skipaninni form sitt og eðli; sem og jafnframt um stöðu, tengsl og krafta hverrar og einnar heildar gagnvart öðrum heildum eða grenndarhópum. Það fer svo allt eftir afstöðu athuganda til viðfangsefnis síns, raunar allt eftir hagsýni hans, í orðsins fyllstu merkingu, hvaða mynd honum birtist af heildarferlinu – hvað mætti jafnvel kallast réttritun raunveruleikans …
Þegar allt kemur til alls snúast hagkerfi okkar fyrst og fremst um hag samfélaga, búskap þjóða, afkomu ríkja, um þjóðarbúskap, þjóðfélagsrekstur – en ekki um einn eða annan atvinnurekstur, þennan útveginn eða hinn, ekki sem slíkan. Af því leiðir að hagfræði, er lýtur í megindráttum að rekstrareðli hagkerfa, er gjarnan nefnd þjóðhagfræði – enda raunar um þjóðfélagsfræði að ræða – til nánari aðgreiningar frá almennri viðskipta- og rekstrarfræði, er fjallar á hinn bóginn fyrst og fremst um öllu þrengri eða afmarkaðri ferli einstakra félags- og viðskiptakerfa, um hag hinna ýmsu einstöku óðala og léna jarðarbúa, út af fyrir sig, sem sagt um hin ýmsu rekstrarsvið ein og sér, þá strangt til tekið óháð hag allrar heildarinnar, þjóða eða ríkja eða hinna ýmsu efnahags- eða ríkjabandalaga.
Frá hinu víðtækara sjónarmiði séð væri ekki fráleitt að líta á þá hreinni snúningana sem afar einfaldaða táknmynd af hagkerfi ríkis eða þjóðar eða alls heimsbúskaparins – sbr. hreyfimyndina hér til hliðar. Guli depillinn í miðju gæti þá táknað stöðu þjóðfélagsþegnanna, eða allt eins jarðarbúa, sem einnar heildar – þá eiginlegu afl- eða þungamiðju sem hin ýmsu þjóðfélags- og rekstrarsvið snúast um – en heildarmyndin allan þjóðarbúskapinn eða búskap allra þjóða, sem sagt í allri heild sinni.
Af samspilinu mætti þá ráða að það séu einstaklingarnir sem ein heild – en ekki hin einstöku óðul, lén eða rekstrarsvið sem slík – sem mynda kjarna og tilveru allrahanda hagkerfa samfélaga, sem sagt kjarna og tilveru þjóða og ríkja og raunar alls heimsbúskaparins.
Svo nokkuð einfaldir sem snúningarnir virðast vera frá því fyrra sjónarmiði séð, þá vandast vissulega málið þegar heildarmyndin er rýnd af öllu þrengri sjónarhóli einhvers einstaks þjóðfélags- eða rekstrarsviðs, einhvers einstaks óðals eða léns, sbr. hér til hliðar þar sem blái depillinn hefur verið valinn sem föst miðja, skákandi sem sagt í því hróksvaldi gula deplinum – meginþungamiðjunni.
Frá þessu síðara sjónarmiði séð mætti beinlínis ætla að allt samspilið snerist um þetta einstaka óðal eða rekstrarsvið (bláa depilinn), þá líkast því sem megin afl- og þungamiðjan (guli depillinn), hinn eiginlegi drifkraftur heims- eða þjóðarbúskaparins, hringsólaði í villtum darraðadansi við öll hin önnur peð þráteflisins – sem sagt kringum þennan ímyndaða hrók alls fagnaðar eða nafla heims – þvert ofan í þá jafnvel himnesku reglufestu hins öllu altækara sjónarmiðs hinnar birtingarmyndarinnar. Þá engu líkara en allt væri á svo hverfanda hveli að réttan virtist vera á röngunni eða jafnvel svo stökkbreytt að rangt lægi líkast til sem næst réttu lagi, eða þannig allskyns hinsegin.
Þrátt fyrir að allar hreyfingar séu reyndar nákvæmlega hinar sömu í báðum afstöðumyndunum – báðum heimsmyndunum – þá veltur viðhorfið augljóslega á sjónarhorni athugandans. Þau eru reyndar jafn sönn, sem slík, viðhorfin, sama hvernig á ferlið er litið, úr fílabeinsturni hagfræðings eða stjarneðlisfræðings, fangandi heimsbúskapinn – eða jafnvel úr turni kynjafræðings – hver um sig rýnandi viðfangsefni sitt á sinn víðsýna eða víðtæka hátt, hver með sínum hætti – eða á hinn bóginn af öllu þrengri sjónarhóli viðskiptafræðings, rýnandi rekstrarreikning óðals síns, eða t.d. sæfara, siglandi bara sinn sjó eftir stjörnunum.
En færðist hinum síðarnefndu bókstaflega allt í fang, þá sem sagt rýnandi allan heiminn, myndu þeir vissulega seint komast til botns í reikningi sínum – svo afar yfirgripsmikill sem hann þá væri, ruglandi fyrir þeim allt það innra rím viðfangs þeirra sem skiptir þá höfuðmáli – vart frekar en þeir í fílabeinsturninum myndu heldur botna í viðfangsefni sínu, ef fórnuðu á hinn bóginn víðsýninni úr turninum, sem sagt yfir búskapinn allan í heild, fyrir sakir slíkrar þröngsýni að fangað hefðu huga sinn við eintóma naflaskoðun.
Endalok hagkerfa í hinum ýmsu myndum
Það liggur víst fyrir öllum hagkerfum heims, að þau brenna út að lokum. Er eins dauði þó einatt annars brauð, svo sem stjörnufræðingar urðu nýlega vitni að, þá er stjarna nokkur að nafni ZTF SLRN-2020 (sem er reyndar ekki svo ólík okkar sól að megingerð en er nú í langvarandi dauðateygjum) gleypti bókstaflega í sig plánetu á stærð við Júpíter eins og ekkert væri …
Hér verður því ekki lýst frekar hvernig ZTF SLRN-2020 sölsaði undir sig þennan örpart af heiminum – verandi reyndar enn að (frá okkur séð í 12 til 13 þúsund ljósára fjarlægð), gleypandi jafnvel í sig þá enn fleiri, ungana sína, pláneturnar sínar. Vart frekar en að tímabært sé orðið að horfast í augu við örlög sólkerfis okkar eftir um það bil 5 milljarða ára, líkt og hér má þó sjá í smá broti úr hreyfimynd sem gerð var á vegum Massachusetts Institute of Technology, MIT, í tilefni af þessum einum allra nýjasta, samsvarandi atburði í stjarnheimum (sjá HÉR í fullri mynd):
Nú má vissulega vel vera að greind manna, að ekki sé minnst á allan þeirra gjörvileika – og hvort þá ekki á sívaxandi gervigreindina – muni mögulega breyta svo hagkerfum manna og himna í tímans rás að engir afkomenda okkar muni þurfa að hafa áhyggjur. Nú þegar mun ríkasti maður heims hafa innrás á Mars á prjónunum, enda greiðir hann vart neitt til samfélagsins svo lengi sem hann ver ágóða sínum til mannbætandi málefna – að sínum sérdeilis eigin skilningi – vart frekar en þeir samherjar hans sem sölsa undir sig jörðina um allan heim, hver á sinn hátt, hver á sína vísu, gleypandi okkur bókstaflega í sig, líkt og ættu í okkur hvert bein.
Eða hver er annars munurinn – svona fljótt á litið? Þó ekki nema litið væri til aflsmunarins! Hvers mega sín annars smástirnin gagnvart súperstjörnum – hvað þá í slíkum hagfræðilegum skilningi sem hér er um rætt? Hvað þá þegar um ræðir stjörnur gínandi yfir svo forgengilegum fílabeinsturni að vart verður á milli greint hvort hlaðinn hafi hann verið upp í Babel eða í Lególandi, í Chicago, Washington eða Moskvu. Hvers mega sín annars þeir hagspekingar sem þar í efstu hlöðum tróna, rýnandi nafla sinn?
Hvers megnugur er ekki annars maðurinn? Hve auðveldlega kann hann ekki að umturna heimi sínum svo að enginn megi verða hans ofjarl! Með leirstein í annarri hendi og legókubb í hinni grýtir hann þungamiðju sína sem engin væri og skapar einfaldlega nýjan heim – heim ofurmennisins, hina fullkomnu miðju hins gervigreinda manns, sem veit svo miklu betur en fiskar hvernig þeir synda, svo miklum mun betur en fuglar hvernig þeir fljúga, sem veit því svo margfalt betur en maðurinn hvernig hver og einn skyldi hugsa, og hvort þá ekki sinn gang.
Í síðari grein – Að rugla rímið – verður fjallað aðeins nánar um hin ýmsu sjónarhorn og viðhorf, sjónarmið víðtæk og þröng.
Höfundur er áhugamaður um hugmyndafræði mannlífs og náttúru
-
Heimsmynd á hverfanda hveli: Bindi I og II, Mál og menning 1986-1987
-
Stjörnufræðivefurinn: Sólkerfið okkar
-
Stjörnufræðivefurinn: Stjörnufræðingar verða vitni að stjörnu gleypa eigin reikistjörnu
Athugasemdir