Það kom mér í mikið uppnám, þegar fréttir bárust í vikunni af týndum kafbát í miklum vanda í grennd við flakið af Titanic á um 4 km dýpi á hafsbotni hins ískalda Norður Atlantshafs. Ég hef sjálfur lent í samskonar vanda í kafbát á botni Karíbahafsins árið 1988. Nú er vitað um afdrif kafbátsins Titan á Titanic svæðinu og ljóst að báturinn hefur fallið saman og síðan splundrast vegna mikilla þrýstingsbreytinga. Dreif af braki hefur fundist á hafsbotni, rétt fyrir norðaustan Titanic. Ég var aftur á móti mjög heppinn að losna frá botninum á 700 metra dýpi og komast aftur lifandi upp á yfirborð Karíbahafsins í kafbátnum Sea Link II árið 1988.
Í Titan kafbátnum voru fimm menn, sem voru að forvitnast um ástand og útlit flaksins af farþegaskipinu Titanic, en það sökk í Norður Atlantshafi árið 1912. Leiðangur minn í Karíbahafi árið 1988 var hins vegar tengdur rannsóknum mínum á neðansjávareldfjalli, sem nefnist Kick 'em Jenny, í grennd við eynna Grenada. Gígurinn er á um 150 metra dýpi en hlíðar fjallsins ná niður á meir en eins kílómeters dýpi. Síðasta stórgos hér varð árið 1939. Ég hóf rannsókn á Kick 'em Jenny árið 1972 og hafði þá not af sjómælingaskipi breska hersins, sem nefnist HMS Hecla. Mér fannst það vel við eigandi að leiðangur minn á Kick 'em Jenny væri á skipi sem ber nafn hins fræga íslenska eldfjalls, en sjö bresk herskip hafa borið nafnið Hekla, það fyrsta árið 1797.
Það var því velkomið tækifæri þegar mér barst boð um not af ameríska kafbátnum Sea Link II árið 1988 í Karíbahafi. Þetta er einstakt tæki til rannsókna og getur kafað niður á 1 km dýpi. Aðal vandinn við litla rannsóknakafbáta er að gluggar eru mjög litlir og erfitt að fylgjast með umhverfinu. Svo er ekki í Sea Link II, því hann er ein risastór gegnsæ kúla, gerð úr plastefni og útsýni því í allar áttir. Kúlan er um 12 sm á þykkt og um 1,5 metrar í þvermál. Kafbáturinn var hannaður af ameríska verkfræðingnum Edwin A. Link, sem er frægastur fyrir að hafa smíðað tæki sem nefnist Link Trainer, en það er eins og stjórnklefi í stórri þotu, sem gerir flugnemum fært að æfa sig í flugi við allar aðstæður án þess að fara á loft. Ed Link varð ríkur af sinni uppfinningu og snéri sér næst að gerð rannsóknakafbáts. Allt gekk vel hjá Ed með nýja kafbátinn, þangað til sonur hans kafaði niður á sokkið herskip og festi kafbátinn í víradrasli og komst ekki upp aftur. En mér var ekki sögð sú saga fyrr en eftir mína hrakferð, sem hér fylgir.
Hafrannsóknaskipið sigldi með okkur inn á svæðið í grennd við Kick 'em Jenny, en ég valdi stað fyrir ofan hlíðar eldfjallsins, þar sem dýpi var um 700 metrar. Hugmyndin var að byrja strax köfunina djúpt og færa sig upp eftir hlíðum fjallsins, upp í gíginn og ljúka ferðinni þar. Ég sat frammi, við hlið stýrimannsins Ted Askew, sem hafði verið í þessu starfi alla tíð, frá því að báturinn var smíðaður. Við vorum fljótlega í svarta myrkri, en Tim kveikti ljósin og við gátum fylgst með fjölbreyttu lífríki hafsins á leiðinni niður. Loks fór að glitta í botn, dökkgrátt grjót, hvassbrýnd stuðlabrot af andesít hrauni, þakin þunnu lagi af grárri eldfjallaösku frá síðasta gosi. Ég bað Tim að setjast á botninn, en hann var tregur til. Loks tókst það og þá gátum við notað vélstýrða arma kafbátsins til að krækja í nokkur stuðlabrot, sem við settum í körfu fyrir framan bátinn. Tim var eitthvað órólegur og ég áttaði mig á, að hann vildi helst ekki sitja á botninum heldur vera laus við hann. Seinna kom í ljós að hann hafði rétt fyrir sér með það.
Ég hafði lokið sýnatöku og athugunum og vildi nú færa bátinn upp hlíð fjallsins til að skoða efri jarðmyndanir þess. Rétt um það bil þegar við sleppum botninum, þá slökkna öll útiljós og einnig verður mælaborðið svart. Ég spyr Tim hvað er að gerast, en hann svarar ekki. Hann dregur fram vasaljós og fer að grúska í vírum og tækjum. Mér datt ekki annað í hug en að þetta væri aðeins smá bilun og að hann hlyti að kippa því í lag strax. En tíminn líður og Tim byrjar að bölva. Hann reynir við alla takka og ekkert gerist. Við erum án allrar orku og þar á meðal er slökkt á tækinu sem hreinsar koltvíoxíð úr lofti inni í bátnum og heldur við súrefni. Við eigum á hættu að kafna vegna vaxandi koltvíoxíðs og súrefnisskorts.
Fyrir aftan stóru plastkúluna sem við Tim sitjum í er stærri kúla gerð úr álblöndu. Þar sitja tveir aðstoðarmenn, sem geta haft talsamband við okkur en ekkert op er á milli. Þeir kvarta mikið yfir kulda. Á þessu dýpi er sjávarhiti kominn langt niður og farinn að nálgast eina eða tvær gráður. Álhylkið þeirra leiðir kuldann beint inn, en plastkúlan okkar veitir góða einangrun. Þeir eru farnir að kvarta yfir loftleysi og við Tim finnum líka að andardráttur er orðinn erfiðari. Koltvíoxíðið vex hægt og hægt. Allir reyna að vera rólegir en Tim heldur áfram að bölva.
Loks tókst Tim að skrúfa frá krana, sem hleypir háþrýstu lofti úr kút og inn í belg fyrir ofan kafbátinn, sem byrjar að þenjast út. Við sitjum enn á botninum, hreyfingarlausir, og Tim vill losa okkur við allt grjótið sem ég hafði safnað. Við rífumst um það, en það skiftir ekki máli, því við getum aðeins losað okkur um þessa ballest ef rafknúnu armarnir eru í gangi. Við erum rafmagnslausir og ljóslausir. En nú heyrist brak og urg og grindin undir kafbátnum er að byrja að nuddast við grjótið í botninum og það er merki þess að loftbelgurinn sé farinn að virka og að við séum ef til vill á uppleið. Um leið og urgið hættir, þá teljum við að við séum lausir við botninn og fögnum því ákaft. En dýptarmælirinn virkar ekki og við höfum ekki hugmynd um hvar við erum í sjónum.
Loks vottar fyrir birtu í hafinu fyrir ofan okkur. Við erum að nálgast yfirborð sjávar. Það eru mikil fagnaðarlæti þegar við heyrum öldur skolast yfir bátinn og njótum sólargeisla í plastkúlunni. En það eru ýmis vandamál framundan. Við getum ekki opnað lokuna ofan á kafbátnum af ýmsum ástæðum. Fyrst og fremst myndi kafbáturinn fyllast af vatni þar sem hann marar rétt í kafi. Í öðru lagi höfum við ekkert rafmagn til að kalla á hafrannsóknaskipið sem á að sækja okkur og hífa okkur um borð. Við erum illa haldnir, loftlausir, og þeir í aftara hylkinu eru farnir að kasta upp. En eftir skamman tíma heyrum við högg utan á kafbátnum. Skipið er komið á staðinn og tilbúið til að pikka okkur upp á þilfar. Þá loks getum við opnað hlerann og andað að okkur þessu dásamlega andrúmslofti sem gefur öllu líf í jarðríki.
Tim fór strax að rífa bátinn í sundur og leita að orsök þess að við misstum allt rafmagn á botninum. Þá kom strax í ljós að sjór hafði lekið inn í hólfið þar sem rafhlöðurnar eru geymdar og þar með myndað skammhlaup og tekið af allan straum. Ástæðan mun vera sú, að þegar við settumst niður á stórgrýttan botninn í hlíðum eldfjallsins mun kassinn hafa beyglast og leki komið inn. Það var strax gert við og næsta morgun vorum við komnir aftur í kaf á Kick 'em Jenny, en í þetta sinn köfuðum við niður í toppgíg eldfjallsins. Framundan voru margar farsælar kaffæringar, sem gáfu okkur miklar upplýsingar um þetta virka eldfjall, en það gaus síðast kraftmiklu gosi árið 2001.
Eftir ferðir mínar í dýpið við Kick 'em Jenny hef ég nær eingöngu beitt fjarstýrðum og mannlausum kafbátum, svokölluðum remotely operated vehicles eða ROV. Einkum beitti ég þeim í Eyjahafi, umhverfis gríska eldfjallið Santorini, umhverfis Surtsey og í Vestur Indíum. En ég snéri aftur á dýpið í mönnuðum kafbát árið 2012, þegar ég réðst í þjónustu hjá auðmanninum Paul Allen, en hann var einn af stofnendum tölvurisans Microsofts, ásamt Bill Gates. Paul átti eitt stærsta og glæsilegasta skemmtiskip sem ferðast hefur um höf jarðar, en það nefnist Octopus og er um 126 metrar á lengd. Um borð í Octopus voru ýmis tæki og tól til að kanna hafið, og er þetta skip hið best búna af öllum hafrannsóknaskipum, sem ég hef unnið í. Þar á meðal var fjarstýrður og ómannaður kafbátur, sem gat kafað niður á 3,5 km dýpi. Við Paul beittum honum til að kafa niður á breska herskipið HMS Hood, í sundinu milli Íslands og Grænlands, og í ferðinni tókst mannlausa kafbátnum að finna skipsbjöllu HMS Hood og færa hana upp á þilfar á Octopusi, en bjallan er nú komin á safn í Englandi.
Meðal dótsins um borð í Octopusi var margt að finna. Ég kíki alltaf fyrst niður í vélarúm, þegar ég kem um borð í Octopus, en hann gat náð 40 hnúta hraða, enda knúinn áfram af átta 2.400 hestafla Mercedes Benz diesel vélum. Mest áberandi í dótakassanum var 19 metra langur skipsbátur sem nefndist Man of War. En það sem vakti mest athygli mína var mannaður kafbátur, sem nefnist Pogo. Kafbáturinn var gulur, enda var Paul Allen mikill rokk aðdáandi og hver þekkir ekki lagið The yellow submarine? Svo voru hér tvær þyrlur, og margt fleira.
Einn eftirminnilegur leiðangur með Paul Allen var til Salómonseyja í suður hluta Kyrrahafsins, þar sem kafbáturinn Pogo reyndist vel. Við stefndum til eyjarinnar Guadalcanal, en norðanvert við eynna er flói sem nefndur er Iron Bottom Sound. Hann ber þetta nafn vegna þess að hér fór fram mesta sjóorusta Japana og Bandaríkjamanna árið 1943. Hafsbotninn hér er bókstaflega þakinn herskipum sem sukku í orustunni miklu. Við Paul köfuðum í Pogo og fórum víða, en allsstaðar var botninn þakinn járnadóti og herbúnaði, sem bar vitni um þau ótrúlegu átök sem hér urðu í Seinni heimsstyrjöldinni. Talið er að hér liggi 111 herskip á botninum og um 1.450 herflugvélar. Enginn veit hve mörg mannslíf týndust hér í hafið. Ferðin með Paul Allen í djúpið í Iron Bottom Sound var vægast sagt hrollvekjandi og reyndist síðasta ferð okkar saman. Ég mun einnig láta það verða mína síðustu ferð í djúpið.
Athugasemdir (1)