Jón Gunnarsson verður að eiga það við sig ef hann getur ekki gengið í takt við ríkisstjórnina, að sögn varaformanns þingflokks Framsóknarflokksins.
„Ríkisstjórnin er breiðfylking, við höfum komið okkur saman um ákveðin efni og það er engin breyting hvað varðar útlendingamálin í því samstarfi,“ segir Halla Signý Kristjánsdóttir, varaþingflokksformaður Framsóknarflokksins, í samtali við Heimildina.
Jón Gunnarsson, sem vék úr stóli dómsmálaráðherra í gær og er nú óbreyttur þingmaður Sjálfstæðisflokksins, fór mikinn í viðtali í Dagmálum Morgunblaðsins í dag og lýsti því þar að ríkisstjórnarsamstarfið væri ekki á vetur setjandi. Sagði hann að ágreiningur innan ríkisstjórnarinnar hefði orðið til þess að ekki hefði náðst að klára stór mál og nefndi sérstaklega að andstaða Vinstri grænna við frumvarp um forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu, sem Jón hafði talað stíft fyrir, hefði valdið því að ekki yrði lengra komist með þingstörf í vor. „Þinglokin voru sem sagt vegna ágreinings í ríkisstjórnarflokkunum en ekki við stjórnarandstöðuna,“ sagði Jón.
Vinstri græn komi í veg fyrir að hægt sé að „keyra þetta í gegn“
Jóni varð þá tíðrætt um málefni hælisleitenda, sem hann talaði þó iðulega um sem útlendingamál, og að þau væru að sliga samfélagið. „Þolinmæði fólks er að bresta, útgjöldin eru að verða alltof mikil,“ sagði Jón og bætti við að það væri vegna andstöðu Vinstri grænna og baklands flokksins að ekki næðist að „keyra þetta í gegn eins og þarf að gera.“ Hvað það er sem þarf að keyra í gegn að mati Jóns var ekki alveg skýrt, en þó var ljóst á orðum hans að hann vill koma í veg fyrir að fólk sæki um vernd hér á landi í eins miklum mæli og nú er.
„Það er samhljómur milli okkar og Framsóknar í þessu, það hefur á engan hátt hallað þar“
Í þessu samhengi sagði Jón að ríkisstjórnarsamstarfið gæti ekki haldið áfram með sama hætti og var nú í vor. Það væri farið að verða þjóðinni „dýrkeypt“. Sjálfstæðisflokkurinn þyrfti að setja niður hælana í útlendingamálunum en í því bryti á Vinstri grænum. „Það er samhljómur milli okkar og Framsóknar í þessu, það hefur á engan hátt hallað þar. Ég hef fengið hvatningu frá ráðherrum og þingmönnum Framsóknarflokksins til að standa í lappirnar og reyna að keyra þetta áfram.“
Gefur lítið fyrir málflutning Jóns
Heimildin gerði tilraun til að ná í þingmenn Framsóknarflokksins til að fá þeirra afstöðu til orða Jóns, um það að ríksstjórnarsamstarfið stæði á brauðfótum. Halla Signý Kristjánsdóttir, varaformaður þingflokks Framsóknar, var eini þingmaðurinn sem náðist í og hún gefur lítið fyrir yfirlýsingar ráðherrans fyrrverandi.
„Hann verður að eiga sínar skoðanir fyrir sig“
„Ég segi bara að Jón verður að taka þetta til sín og endurskoða sína stöðu. Ríkisstjórnin er breiðfylking, við höfum komið okkur saman um ákveðin efni og það er engin breyting hvað varðar útlendingamálin í því samstarfi. Við náðum fram útlendingafrumvarpinu í sátt, ég var samþykk því. Við þurfum að búa til kerfi sem er skilvirkt, þeirra vegna sem eru að sækja hér um vernd, og það er okkar verkefni að gera það. Ef Jón Gunnarsson er ekki fús í það samstarf, ef hann er ekki tilbúinn til að ganga í takt við okkur, þarf hann að eiga það við sig. Hann verður að eiga sínar skoðanir fyrir sig, Jón þarf ekki að yfirfæra sínar skoðanir yfir á Framsóknarmenn. Við erum áfram um að vinna í góðu samkomulagi, eins og við höfum gert fram til þessa.“
Athugasemdir