Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hefur tekið ákvörðun um að stöðva tímabundið veiðar á langreyðum fram til 31. ágúst, en frá þessu er greint í fréttatilkynningu frá matvælaráðuneytinu í dag.
Eftirlitsskýrsla Matvælastofnunar um velferð hvala við veiðar á langreyðum barst ráðuneytinu í maí 2023 en niðurstaða skýrslunnar er að aflífun dýranna hafi tekið of langan tíma út frá meginmarkmiðum laga um velferð dýra.
Matvælastofnun fól í kjölfarið fagráði um velferð dýra að meta hvort veiðarnar geti yfirhöfuð uppfyllt markmið laga um velferð dýra.
Álit fagráðsins barst matvælaráðuneytinu í gær og var niðurstaða þess að sú veiðiaðferð sem beitt er við veiðar á stórhvelum samræmist ekki lögum um velferð dýra.
Í tilkynningu frá matvælaráðuneytinu segir að í ljósi þeirrar niðurstöðu sé „nauðsynlegt að fresta upphafi hvalveiðivertíðarinnar þannig að ráðrúm gefist til þess að kanna hvort unnt sé að tryggja að veiðarnar fari fram í samræmi við ákvæði laga um velferð dýra.“
„Ég hef tekið ákvörðun um að stöðva hvalveiðar tímabundið í ljósi afdráttarlauss álits fagráðs um velferð dýra,” er haft eftir Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra í tilkynningu ráðuneytisins.
„Skilyrði laga um velferð dýra eru ófrávíkjanleg í mínum huga, geti stjórnvöld og leyfishafar ekki tryggt kröfur um velferð á þessi starfsemi sér ekki framtíð,“ er jafnframt haft eftir Svandísi.
Í tilkynningu ráðuneytis hennar segir að það muni „kanna mögulegar úrbætur og lagaleg skilyrði þess að setja frekari takmarkanir á veiðarnar á grundvelli laga um velferð dýra og laga um hvalveiðar á komandi mánuðum og leita álits sérfræðinga og leyfishafa í því skyni.“
Gervigreindar- og raflosthugmyndir þóttu ekki raunhæfar
Í kjölfar þess að eftirlitsskýrsla MAST kom fyrir augu almennings hefur átt sér stað töluverð umræða um hvalveiðar og hvort réttlætanlegt sé að halda þeim áfram.
Í svörum við eftirlitsskýrslunni hafði Hvalur hf., eina fyrirtækið sem stundað hefur stundað langreyðaveiðar við Íslandsstrendur undanfarin ár, gefið til kynna að verið væri að þróa nýja tækni við veiðarnar, sem fólst annars vegar í því að nota gervigreind til að reikna út fjarlægð hvalsins frá hvalveiðibátnum og hins vegar í því að nýta rafmagn í skotlínu til þess að aflífa hvalinn, ef sprengiskutullinn grandaði ekki dýrinu.
Það var niðurstaða fagráðs að þessar tillögur séu ekki raunhæfar, enda liggi ekki fyrir rannsóknir eða prófanir sem styðja að þær geti samræmst ákvæðum laga um velferð.
Ein helsta ástæða þess, að hvalveiðar hafa undanfarin ár verið stundaðar við Ísland, er sú að Hvalur ehf borgar feitt í kosningasjóði FLokksins :-)
Hafðu þökk SVANDIS SVAFARSDOTTIR Raðherra, Þu hefur skrað þig a Spjöld Islands sögunar og þott viða væri leitað.