Öldum saman hafa íbúar Norður-Fríslands staðhæft að í góðu veðri megi heyra klukknahljóm sem þeir segja koma frá miðaldakirkjunni í Rungholt. Ekki hafa allir aðrir verið trúaðir á þessa staðhæfingu, kallað þetta þjóðtrú. Lengi hefur verið vitað að bærinn Rungholt í Norður-Fríslandi (sem þá var hluti Suður-Jótlands) hafi horfið í hafið í miklum flóðum árið 1362. Nú, tæpum 700 árum síðar hafa fornleifafræðingar fundið kirkjuna í Rungholt.
Ruth Blankenfeldt fornleifafræðingur og starfsmaður fornleifamiðstöðvarinnar í Slésvík sagði frá þessum merka fundi í viðtali við dagblaðið Berlingske fyrr í þessum mánuði. Í viðtalinu greindi Ruth Blankenfeldt frá því að kirkjan í Rungholt hafi verið um það bil 40 metra löng og 15 metra breið.
En kirkjan er ekki það eina sem fornleifafræðingarnir fundu. „Við uppgötuðum greinileg merki bæjarfélags sem var um það bil tveggja kílómetra langt, og álíka breitt, umhverfis kirkjuna. Þetta sýnir að Rungholt hefur verið stór bær, á þess tíma mælikvarða.“
Afrakstur margra ára vinnu
Fundur kirkjunnar og svæðisins í nágrenni hennar er afrakstur margra ára vinnu. Vísindamenn hafa rannsakað leirinn á svæði milli eyjunnar Pelvorm og Nordstrandskagans skammt frá bænum Husum, um það bil 40 kílómetrum sunnan við vestasta hluta núverandi landamæra Danmerkur og Þýskalands. Vísindamennirnir hafa notast við nútíma mæli- og leitartækni við þessa vinnu. Kirkjan var ekki það eina sem fannst, leifar margra bygginga, þar á meðal voru tvær minni kirkjur, brunnar, húsgrunnar, frárennslislagnir svo fátt eitt sé nefnt.
Atlantis norðursins
Öldum saman hafa frásagnir af Rungholt haft á sér einskonar þjóðsagnablæ og stundum líkt við Atlantis sem Platon (um 427 f. Kr-347 f.Kr) greindi frá í einu rita sinna að hefði sokkið í sæ.
Í byrjun síðustu aldar vaknaði áhugi sagnfræðinga á frásögnum um að til hefði verið eitthvað sem hét Rungholt og að það hefði verið ríkt samfélag. Mikil vinna var lögð í að leita í gömlum annálum og þá kom margt í ljós, sem ekki var vitað um áður. Meðal annars fannst viðskiptasamningur sem gerður var í maí 1361 milli kaupmanna í Rungholt og Hamborg. Einnig fannst landakort frá árinu 1636, gert af Johannes Meyer, endurgerð korts frá 1240.
Þúsundir fórust
Aðfaranótt 16. janúar 1362, einungis átta mánuðum eftir undirritun viðskiptasamningsins áðurnefnda, gerði ofsaveður af vestri. Svæði sem nefndist Strand rofnaði frá meginlandinu og varð að eyju. Bærinn Rungholt og nokkur þorp í nágrenninu hurfu að mestu af yfirborði jarðar. Þetta eru einhverjar mestu náttúruhamfarir sem um getur í Norðurhluta Evrópu. Þessir atburðir ganga hjá Dönum undir nafninu „Den store manddrukning“. Ekki er með vissu vitað hve margt fólk fórst þessa óveðursnótt en talið að það hafi verið á bilinu 10 – 30 þúsund.
Rétt er að nefna að 11. október árið 1634 varð annað stórflóð á þessu sama svæði og við það fór hluti Strand svæðisins undir vatn og til urðu nokkrar minni eyjar, Pelvorm (einnig ritað Pellvorm) er stærst þeirra. „Den anden store manddrukning“ nefna Danir þennan atburð, en talið er að allt að 15 þúsund manns hafi farist. Það litla sem eftir stóð af Rungholt hvarf í þessu flóði.
Miklar breytingar á veðurfari hluti skýringarinnar
Rannsóknir á dropasteinum og kalkútfellingum í austurrísku ölpunum hafa leitt í ljós að á 14. öld urðu miklar breytingar á veðurfari. Úrhelli og stormur vikum saman ollu miklum skemmdum á ökrum og öðrum ræktunarlöndum. Hungursneyð herjaði á íbúa margra Evrópulanda og Svarti dauði varð allt að helmingi íbúa álfunnar að aldurtila. Íbúar Rungholt höfðu lengi óttast flóð og höfðu reist varnargarða, tveggja metra háa að talið er. Þegar flóðið brast á braut það niður varnargarðana og æddi yfir svæðið, íbúarnir áttu enga undankomuleið.
Friðlýst verndarsvæði
Þjóðfræðingurinn Hans-Peter Duerr, sem er prófessor við háskólann í Bremen, vann árum saman að rannsóknum á Rungholt svæðinu, ásamt nemendum sínum. Þeir fundu alls kyns leirmuni, mynt, skartgripi, blástein frá Afganistan, og ennfremur hluta skips sem talið er að hafi verið frá Krít. Hans-Peter Duerr telur að Rungholt hafi verið verslunarstaður öldum saman, jafnvel frá því fyrir daga Krists. Hans-Peter Duerr og nemendur hans gátu hins vegar ekki stundað uppgröft á svæðinu sökum þess að það er á menningarminjaskrá Sameinuðu þjóðanna og þess vegna friðlýst.
Fundu kirkjuna í Rungholt með hjálp tækninnar
Á allra síðustu árum hefur komið til sögunnar alls kyns tækni sem gerir fornleifa- og jarðfræðingum mögulegt að finna og staðsetja mannabústaði og margt annað sem leynist grafið í jörðu. Ruth Blankenfeldt fornleifafræðingur segir fund kirkjunnar og mannvistarleifarnar á Rungholt svæðinu stórfrétt. En rannsóknirnar á þessu svæði séu rétt að byrja.
Þess má geta að vitað er að allstórt svæði skammt frá Esbjerg fór undir vatn í stórflóðinu árið 1634. Rannsóknir á því svæði eru ekki hafnar en áðurnefnd Ruth Blankenfeldt sagði í viðtali við dagblaðið Berlingske að þar biði áhugavert viðfangsefni.
Þess má í lokin geta að auk flóðanna og mannskaðanna árin 1362 og 1634, sem komið hafa við sögu í þessum pistli, hafa að minnsta kosti tvisvar til viðbótar orðið mannskæð flóð í Danmörku. Árið 1717 varð flóð sem kostaði mörg þúsund manns lífið, þar á meðal um tvö þúsund á Eidjersted skaganum. Árið 1872 gekk mikill sjór á land á Lálandi, Falstri og Suðaustur-Sjálandi í óveðri sem Danir nefna Østenstormen, Austanveðrið. Að minnsta kosti 300 manns létust í því óveðri.
Athugasemdir (1)