Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Með atvinnulífið í DNA og elskar majones – Nærmynd af Guðrúnu Hafsteinsdóttur

Guð­rún Haf­steins­dótt­ir er talskona at­vinnu­lífs­ins og hef­ur þar kom­ið víða við í stjórn­um og nefnd­um. Að­eins 23 ára tók hún við sem fram­kvæmda­stjóri fjöl­skyldu­fyr­ir­tæk­is­ins Kjöríss þeg­ar fað­ir henn­ar lést. Guð­rún styð­ur einka­rekst­ur í heil­brigðis­kerf­inu og finnst 20 millj­ón­ir í skatt­frjáls­an arf frá for­eldr­um vera lág upp­hæð. Hún er mik­il mat­kona, er vit­an­lega hrif­in af ís en elsk­ar ekki síð­ur maj­o­nes og síld. Í dag tók hún við lykl­un­um að dóms­mála­ráðu­neyt­inu.

Með atvinnulífið í DNA og elskar majones – Nærmynd af Guðrúnu Hafsteinsdóttur
Nýr dómsmálaráðherra Guðrún Hafsteinsdóttir tók við langþráðu embætti dómsmálaráðherra í dag. Mynd: Heiða Helgadóttir

„Maður fær aldrei leið á ís,“ sagði Guðrún Hafsteinsdóttir, þáverandi framkvæmdastjóri Kjöríss, í samtali við Morgunblaðið árið 1994. Þar kom fram að hún væri „aðeins 24 ára“ gömul. Ári áður hafði faðir hennar, Hafsteinn Kristinsson, mjólkurfræðingur og forstjóri Kjöríss, látist skyndilega úr heilablóðfalli. 

„Þetta bar svo ótrúlega brátt að. Hann hafði aldrei misst dag úr vinnu vegna veikinda og svo var hann dáinn. Þetta var mikið áfall. Það var ekki aðeins að ég missti pabba minn og nánasta samstarfsmann. Ég missti líka besta vin minn,“ sagði Guðrún við Morgunblaðið. 

Hún var búin að skrá sig til háskólanáms þegar pabbi hennar lagði hart að henni að koma og starfa hjá Kjörís árið 1992. Hún sló til og hann setti upp skrifborð fyrir hana gegnt sínu skrifborði. Við óvænt andlát hans tók hún við stöðu framkvæmdastjóra fyrirtækisins 23 ára gömul. Guðrún hefur nær allan starfsferil sinn unnið hjá fjölskyldufyrirtækinu Kjörís í Hveragerði. 

Teygjanlegir 18 mánuðir

Guðrún Hafsteinsdóttir tók í dag við lyklum að dómsmálaráðuneytinu. Loksins, segja sumir. 

Það vakti tölu­verða athygli þegar til­kynnt var að Jón Gunn­ars­son yrði dóms­mála­ráð­herra í öðru ráðu­neyti Katrínar Jak­obs­dóttur eftir að saman náð­ist um að halda stjórn­ar­sam­starfi Vinstri grænna, Sjálf­stæð­is­flokks og Fram­sókn­ar­flokks áfram eftir síð­ustu kosn­ing­ar. Fyrir það fyrsta er Jón ekki odd­viti síns kjör­dæmis heldur sat hann í öðru sæti á lista Sjálf­stæð­is­flokks í Krag­an­um, kjör­dæmi flokks­for­manns­ins Bjarna Bene­dikts­son­ar. Hann er eini ráð­herr­ann í rík­is­stjórn sem er ekki odd­viti. Með því að velja Jón gekk Bjarni fram­hjá tveimur odd­vitum í lands­byggð­ar­kjör­dæm­um, Guð­rúnu í Suð­ur­kjör­dæmi og Njáli Trausta Frið­berts­syni í Norð­aust­ur­kjör­dæmi.

Jón átti þó ekki að sitja sem ráð­herra út kjör­tíma­bil­ið, heldur ein­ungis í 18 mán­uði. Svo átti Guð­rún að taka við. Hún var ekki sátt með þá ákvörð­un. Síðan urðu þessir 18 mánuðir eitthvað óljósir, hvort miða ætti við tímann frá því kosið var eða þegar ríkisstjórnin var mynduð. Síðan mótmælti Jón því að hann ætti yfir höfuð að hætta sem ráðherra. En á endanum fór það þannig að Guðrún tók við embættinu á kvenréttindadaginn.

„Já, það er þrýstingur á að það verði fylgt sömu stefnu og Jón hefur gert í útlendingamálum“
Bjarni Benediktsson

Guðrún segist sem dómsmálaráðherra ætla að leggja mesta áherslu á útlendingamál, löggæslu og Landhelgisgæsluna, en einnig vill hún bæta réttarstöðu þolenda kynferðisofbeldis og gera endurbætur í fangelsismálum. Útlendingamálin vegi hins vegar þyngst næstu árin. 

MættGuðrún mætti kát á ríkisráðsfundinn í morgun á Bessastöðum klukkan 10.

Eftir ríkisráðsfundinn á Bessastöðum í dag sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, við blaðamenn að hann reiknaði með því að Guðrún myndi fylgja stefnu Jóns í útlendingamálum: „Já, það er þrýstingur á að það verði fylgt sömu stefnu og Jón hefur gert í útlendingamálum.“ Þegar Guðrún var spurð hvort hún ætlaði að fylgja stefnu Jóns í sagði hún: „Jón hefur verið að fylgja stefnu flokksins og ég mun fylgja stefnu flokksins.“

Atkvæðamikil í íslensku atvinnulífi

Guðrún er fædd 9. febrúar 1970 og er því 53 ára gömul. Hún er í sambúð með Hans Kristjáni Einarssyni Hagerup gullsmið og eiga þau samtals sex börn. Hún er með stúdentspróf frá Fjölbrautaskóla Suðurlands, BA-gráðu í mannfræði frá Háskóla Íslands 2008 og þá hefur hún lokið diplómanámi í jafnréttisfræðum frá HÍ. 

Eftir Guðrúnu er tekið hvert sem hún fer. Hún er þykir skemmtilegur félagsskapur en getur einnig verið hörð í horn að taka. Og hún gefur lítinn afslátt af hægri stefnunni.

Hún hefur verið atkvæðamikil í íslensku atvinnulífi, fyrst og ekki síst í  fjölskyldufyrirtækinu Kjörís þar sem hún hefur verið fjármálastjóri, framkvæmdastjóri og markaðsstjóri, á mismunandi tímum. Hún hefur þá komið víða við í stjórnum og nefndum á vegum atvinnulífsins. Hún var þannig formaður Samtaka iðnaðarins, varaformaður Samtaka atvinnulífsins, formaður stjórnar Lífeyrissjóðs verslunarmanna og átti sæti í stjórn Háskóla Reykjavíkur og Bláa lónsins. Hún tók sæti á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn við kosningarnar 2021.

Fyrsti ríkisráðsfundurinnGuðrún tók við embætti dómsmálaráðherra á sínum fyrsta ríkisráðsfundi.

Þegar hún tilkynnti um framboð sitt til Alþingis sagði hún: „Suðurkjördæmi býr yfir miklum tækifærum sem brýnt er að efla. Ég er tilbúin að taka þátt í þeirri vinnu og tel að reynsla mín og þekking muni nýtast vel. Í Suðurkjördæmi er iðandi og gott mannlíf og hér höfum við allt sem þarf til að vera leiðandi á öllum sviðum atvinnulífsins. Ég trúi því að saman getum við eflt atvinnugreinar okkar og bætt lífskjör okkar sem hér búum og störfum.“ 

Gegn tollfrjálsum innflutningi á úkraínskum vörum

Suðurlandið, kjördæmi Guðrúnar, er eitt helsta landbúnaðarhérað landsins. Alþingi samþykkti á síðasta ári að heimila tollfrjálsan innflutning á landbúnaðarvörum frá Úkraínu til að sýna Úkraínumönnum stuðning í stríðinu við Rússa. Undanþágan var tímabundin og rann út um síðustu mánaðamót.

Hart var tekist á um málið á Alþingi og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, sakaði Guðrúnu, sem er formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, sem og þingmenn Framsóknarflokks, fyrir að koma í veg fyrir framgang málsins. Guðrún svaraði þessu með orðunum: „Lág­kúr­an verður nú varla meiri.“ Hún benti ennfremur á að ekki hafi verið meirihluti fyrir framlengingu undanþágunnar í nefndinni og að málið hafi betur átt heima á borði ríkisstjórnar, frekar en í nefndinni þar sem Bjarni Benediktsson lagði inn uppkast að frumvarpi nokkrum vikum áður. 

Guðrún sagði hins vegar að hagsmunir bænda hafi ráðið miklu um að endurnýja ekki tollfrelsi á úrkaínskum landbúnaðarafurðum. Hags­muna­öfl í land­bún­aði lögð­ust þungt á þing­menn í því skyni að koma í veg fyr­ir áfram­hald­andi tolla­leysi á kjúk­lingi, sem hin sömu öfl hafa með­al ann­ars flutt inn sjálf. Ýmsir vildu því meina að hluti framsóknarþingmanna ásamt hluta sjálfstæðisflokks hafi lagst á sveif með þessum hagsmunaöflum.

Í umræðum um málið á þingi sagði Guðrún: „Ég bendi á það að ríkisstjórn Íslendinga hefur veitt margvíslegan og góðan stuðning við Úkraínumenn og fólk í neyð. Ég ætla að endurtaka þau orð mín sem ég sagði hér í ræðupúlti á Alþingi Íslendinga í síðustu viku: Það getur ekki hafa verið vilji Alþingis Íslendinga þegar þetta var samþykkt á síðasta ári að þetta hefði afdrifaríkar afleiðingar á rekstrarafkomu bænda á Íslandi.“ Þeirra sömu og höfðu sjálfir meðal annarra staðið að innflutningnum með tilheyrandi hagnaði.

20 milljónir lág upphæð

Guðrún hefur verið gagnrýnin á þenslu í rekstri hins opinbera.  Í síðasta mánuði greindi Vísir frá því að sjö hundruð manns starfi í íslensku ráðuneytunum. Guðrún gagnrýndi þennan fjölda harðlega og sagði hið opinbera keppa um starfsfólk við markaðinn og bjóði jafnvel betri  kjör. „Mér finnst þetta náttúrulega alveg rosalega mikið,“ sagði hún um fjölda starfsfólks í ráðuneytunum og að atvinnulífið líði fyrir fjölda opinberra starfsmanna: „Á bakvið opinbera starfsmenn verður atvinnulífið að vinna af miklum þrótti til þess að geta borgað þetta, því þessi launakostnaður er greiddur með skattgreiðslum,“ sagði hún. 

Guðrún var fyrsti flutningsmaður frumvarps þriggja þingmanna Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi sem í apríl lögðu fram frumvarp um breytingu á erfðalögum og lögum um erfðafjárskatt, þar sem þau leggja til að foreldrar geti arfleitt börn sín að allt að tíu milljónum skattfrjálst.

Í sam­tali við Morg­un­blaðið sagði hún að með frum­varp­inu ætti hvert barn von á því að fá sam­tals 20 millj­ón­ir skatt­frjálst frá báðum for­eldr­um. „Þetta er lítil breyting og kveikjan að þessu er sú að við vitum að í því ástandi sem hefur verið á húsnæðismarkaði hafa foreldrar verið að aðstoða börn sín við að komast inn á markaðinn,“ sagði Guðrún. Hún bætti við að hún gerði sér grein fyrir að úrræðið myndi ekki nýtast tekjulágum hópum, en að hennar mati væri þó um lágar upphæðir að ræða.  Ekki eru allir sammála því að 20 milljónir séu lág upphæð.

Landsmenn eyði of miklu

Í febrúar, þegar verðbólgan mældist 10%, sagði Guðrún rétt að hafa í huga að tekjustofnar ríkisins hafi rýrnað á meðan verið sé að kalla eftir auknu fé í ýmis verkefni. Á sama tíma séu landsmenn að eyða of miklu og þar af leiðandi ekki að leggja sitt af mörkum til að ná niður verðbólgunni. „Við erum sömuleiðis – eins sárt og það er að segja það – þá er fólk sömuleiðis að eyða of miklu. Það sjáum við á því að viðskiptajöfnuður okkar er neikvæður. Þannig að við erum að flytja meira inn heldur en út og þegar svoleiðis er þá tappast það af í gengi krónunnar eða í verðbólgu. Þannig að þetta er sameiginlegt verkefni okkar allra,“ sagði hún í samtali við Vísir.

LyklarnirGuðrún tók við lyklunum að dómsmálaráðuneytinu frá Jóni Gunnarssyni í dag.

Á síðasta ári lögðu sex þingmenn Sjálfstæðisflokksins, þeirra á meðal Guðrún, fram frumvarp til breytingar á lögum um tekjuskatt þannig að heimilishjálp verði frádráttarbær frá skatti. Hver skattgreiðandi geti dregið frá tekjuskattsstofni allt að 1,8 milljónir króna á ári. Málið sofnaði í nefnd eftir fyrstu umræðu í vor enda kannski fáir sem verja slíkum upphæðum í heimilishjálp eða telja þetta vera forgangsmál.

Guðrún var síðan fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögu um einkarekna heilsugæslu á Suðurnesjum sem lögð var fram í fyrra en ellefu þingmenn Sjálfstæðisflokksins stóðu að henni. Í tillögunni var gert ráð fyrir að Alþingi álykti að heilbrigðisráðherra feli Sjúkratryggingum Íslands að bjóða út rekstur heilsugæslu á Suðurnesjum. Tillagan náði aldrei til fyrri umræðu en hún var lögð fram mánuði fyrir þinglok sem bendir til að hún hafi vera meira til heimabrúks. 

Aldís systir fyrirmyndin

Stóra systir Guðrúnar er Aldís Þorsteinsdóttir sem í fyrra tók við sem sveitarstjóri Hrunamannahrepps. Aldís hafði þá verið sveitarstjóri Hveragerðis í sextán ár en hún er einnig fyrrverandi formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. 

Þær systur hafa verið bæði aðsópsmiklar og vinsælar á Suðurlandinu, og er ekki hægt annað en að komast að þeirri niðurstöðu að Aldís og Guðrún hafi verið Ármanni Jakobssyni innblástur þegar hann skrifaði glæpasöguna Útlagamorðin sem kom út 2018, en persónurnar sem virðast innblásnar af þeim eru aukapersónur og skáldskapurinn í aðalhlutverki.

Í lýsingu á bókinni á vef Forlagsins segir: „Ungur maður, óþekktur, finnst látinn í húsagarði í litlum bæ úti á landi. Nýstofnuð morðrannsóknardeild lögreglunnar fer þegar á staðinn en er vandi á höndum. Bærinn er sneisafullur af erlendum ferðamönnum og skemmtigarður nýopnaður, kattamorðingi gengur laus, tvær systur virðast ráða öllu sem máli skiptir – og ein úr lögregluliðinu á miður góðar minningar úr þessum smábæ.“

Í umfjöllun Heimildarinnar um hvernig þingmennska reynist nátengd ætterni segir Guðrún um tengsl þeirra systra:  „Hún er stóra systir mín og hefur alltaf verið fyrirmynd mín í lífinu. Hún sagði mér að hlusta á ABBA og ég hlustaði á ABBA. Ég átti aldrei von á því að ég yrði þingmaður, ég átti alltaf von á því að Aldís systir yrði það. Ég tók ekki ákvörðun um að stíga þetta skref nema eftir að hafa rætt það við hana því ég hefði aldrei farið fram ef hún hefði sjálf viljað gera það.“

Í umfjöllun Heimildarinnar um ættartengsl þingmanna segist hún aldrei hafa gengið með þann draum að verða stjórnmálamaður og það spor að taka þátt í stjórnmálum muni ekki skilgreina hana. Spurð hvort hún hefði getað séð fyrir sér að taka þátt í pólitík fyrir annan flokk en Sjálfstæðisflokkinn ef gildi þess flokks  hefðu samrýmst hennar, segir Guðrún:

„Faðir minn var virkur í stjórnmálum en móðir mín var það aldrei. Hún var hins vegar virk í félagsmálum. Ég er alin upp í pólitískri virkni. Pabbi var oddviti í Hveragerði í mörg ár. Hann hefði alveg getað orðið þingmaður eða ráðherra hefði hann valið þá leið, en hann valdi leið atvinnulífsins. Við systkinin erum alin upp í ákveðnum frelsishugsjónum sem hann barðist fyrir og sá farvegur hefur legið með Sjálfstæðisflokknum. Ef það væri ekki þá væri ég í öðrum flokki.“

„Ég hef sagt það í ræðupúlti Alþingis að ég muni standa vörð um íslenskt atvinnulíf, ég hef alltaf gert það, það er inni í mínu DNA“
Guðrún Hafsteinsdóttir

Í umfjölluninni segir hún einnig frá því hvernig það hafi mótað sig að hafa alist upp með Kjörís, faðir hennar tók þátt í að stofna það 1969 og hún fæðist ári síðar.

„Ég hef sagt það í ræðupúlti Alþingis að ég muni standa vörð um íslenskt atvinnulíf, ég hef alltaf gert það, það er inni í mínu DNA. Ég ætla ekkert að fara að feika það, það vita allir hvaðan ég er að koma, ég yrði hjákátleg ef ég reyndi að forðast upprunann.“

Allt betra með majonesi

Þá var Guðrún einn viðmælenda Heimilarinnar nýverið þar sem leyndarhjúpnum var lyft af mötuneyti Alþingis. Hún sagði allan mat þar vera góðan en það allra besta sem hún hafi fengið sé fylltur karfi. Annars sé hún mikil matkona. „Ég elska majones, mér finnst allt betra með majonesi og gleðst þegar það er eitthvað í boði með majonesi. Ég hef gaman af því að borða,“ sagði hún og bætti við að það mætti gjarnan vera oftar ís. 

Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, er hins vegar ekki jafn mikil matkona og Guðrún og sagði í umfjölluninni: „Guðrún elskar síld. Hún vill helst borða síld í öll mál. Ég er svakalega matvönd en hún er það ekki.“

Í mötuneytinu er síðan iðulega skál með harðsoðnum eggjum sem Diljá er afar hrifin af. En samt bara eggjahvítunni: „Ég skelli gjarnan í mig eggjahvítu en leita síðan uppi Guðrúnu Hafsteins eða Sigmund Davíð [Gunnlaugsson] til að borða rauðuna á móti mér því þeim finnst hún svo góð.“

Kjósa
5
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

„Hann sagðist ekki geta meir“
1
Viðtal

„Hann sagð­ist ekki geta meir“

„Ég gat ekki bjarg­að barna­barn­inu mínu. En ef það verð­ur til þess að ég geti kannski bjarg­að ein­hverj­um, þó ekki nema einu barni, þá vil ég segja sögu okk­ar,“ seg­ir Þór­hild­ur Helga Þor­leifs­dótt­ir kennslu­ráð­gjafi. Son­ar­son­ur henn­ar, Pat­rek­ur Jó­hann Kjart­ans­son Eberl, fannst lát­inn mið­viku­dag­inn 12. maí 2021, að­eins fimmtán ára gam­all. Hann hafði svipt sig lífi.
Svanhildur Hólm með áberandi minnsta reynslu af utanríkismálum
6
Fréttir

Svan­hild­ur Hólm með áber­andi minnsta reynslu af ut­an­rík­is­mál­um

Ljóst er að Svan­hild­ur Hólm, sendi­herra í Banda­ríkj­un­um, sker sig úr hópi koll­ega sinna frá Norð­ur­lönd­un­um hvað varð­ar tak­mark­aða reynslu á vett­vangi ut­an­rík­is­mála. Stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd bíð­ur enn svara frá ut­an­rík­is­ráðu­neyt­inu um vinnu­brögð ráð­herra við skip­un á sendi­herr­um í Banda­ríkj­un­um og Ítal­íu.

Mest lesið í mánuðinum

Leyniupptaka lýsir vinargreiða og hrossakaupum Bjarna og Jóns
1
Afhjúpun

Leyniupp­taka lýs­ir vin­ar­greiða og hrossa­kaup­um Bjarna og Jóns

Son­ur og við­skipta­fé­lagi Jóns Gunn­ars­son­ar þing­manns full­yrð­ir í upp­tök­um sem tekn­ar voru af manni sem sagð­ist vera fjár­fest­ir að Jón hafi sam­þykkt beiðni Bjarna Bene­dikts­son­ar um að þiggja sæti á lista gegn því að Jón kom­ist í að­stöðu til veita veiði­leyfi til Hvals hf. Það verði arf­leifð Jóns að tryggja Kristjáni Lofts­syni nán­um vini sín­um leyf­ið. Það sé hins veg­ar eitt­hvað sem eigi að fara leynt.
„Hann sagðist ekki geta meir“
2
Viðtal

„Hann sagð­ist ekki geta meir“

„Ég gat ekki bjarg­að barna­barn­inu mínu. En ef það verð­ur til þess að ég geti kannski bjarg­að ein­hverj­um, þó ekki nema einu barni, þá vil ég segja sögu okk­ar,“ seg­ir Þór­hild­ur Helga Þor­leifs­dótt­ir kennslu­ráð­gjafi. Son­ar­son­ur henn­ar, Pat­rek­ur Jó­hann Kjart­ans­son Eberl, fannst lát­inn mið­viku­dag­inn 12. maí 2021, að­eins fimmtán ára gam­all. Hann hafði svipt sig lífi.
Grunaði að það ætti að reka hana
3
Viðtal

Grun­aði að það ætti að reka hana

Vig­dís Häsler var rek­in úr starfi fram­kvæmda­stjóra Bænda­sam­tak­anna eft­ir að nýr formað­ur tók þar við fyrr á ár­inu. Hún seg­ir kosn­inga­vél Fram­sókn­ar­flokks­ins hafa ver­ið gang­setta til að koma hon­um að. Vig­dís ræð­ir brottrekst­ur­inn og rasísk um­mæli sem formað­ur Fram­sókn­ar­flokks­ins hafði um hana. Orð­in hafi átt að smætta og brjóta hana nið­ur. Hún seg­ist aldrei munu líta Sig­urð Inga Jó­hanns­son sömu aug­um eft­ir það.
Myndir af neyðarmóttöku sendar áfram: „Ekki myndir sem ég vildi sjá af sjálfri mér“
6
FréttirKynferðisbrot

Mynd­ir af neyð­ar­mót­töku send­ar áfram: „Ekki mynd­ir sem ég vildi sjá af sjálfri mér“

Lög­reglu var heim­ilt að senda mynd­ir sem tekn­ar voru af Guðnýju S. Bjarna­dótt­ur á neyð­ar­mót­töku fyr­ir þo­lend­ur kyn­ferð­isof­beld­is á verj­anda manns sem hún kærði fyr­ir nauðg­un. Þetta er nið­ur­staða Per­sónu­vernd­ar. Guðný seg­ir ótækt að gerend­ur í kyn­ferð­isaf­brota­mál­um geti með þess­um hætti feng­ið að­gang að við­kvæm­um mynd­um af þo­lend­um. „Þetta er bara sta­f­rænt kyn­ferð­isof­beldi af hendi lög­regl­unn­ar.“

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár