Héraðssaksóknari hefur fellt niður rannsókn máls á hendur Vítalíu Lazarevu varðandi meinta fjárkúgun hennar á hendur þremur mönnum; þeim Ara Edwald, Hreggviði Jónssyni og Þórði Má Jóhannessyni. Niðurstaða embættis héraðssaksóknara var að rannsóknargögn málsins bæru ekki með sér að málið væri líklegt til sakfellingar.
Arnar Grant var einnig til rannsóknar í sama máli en Heimildin hefur ekki fengið staðfest að mál á hendur honum hafi verið fellt niður líka.
Þremenningarnir kærðu Vítalíu og Arnar til héraðssaksóknara í júní í fyrra fyrir tilraun til fjárkúgunar, fyrir hótanir og fyrir brot gegn friðhelgi einkalífsins. Málið allt á sér langa forsögu en hófst með því að í október 2021 birti Vítalía frásögn á Instagram af því að hún hefði orðið fyrir kynferðisofbeldi af hendi þriggja manna í heitum potti og í sumarbústað á Vesturlandi árið 2020. Nafngreindi Vítalía mennina þrjá í frásögninni. Þá greindi Vítalía einnig frá því að Arnar hefði fengið hana til að koma í umræddan sumarbústað, en þau áttu þá í ástarsambandi.
Sagði að gengið hefði verið yfir öll mörk
Vítalía steig síðar fram í hlaðvarpsþættinum Eigin konur, í janúar 2022, og lýsti þar upplifun sinni frekar. Hún nafngreindi hins vegar mennina ekki í því viðtali. Í viðtalinu lýsti hún hvernig þeir hafi allir farið yfir hennar mörk. „Fólk er held ég ekki að átta sig á því hversu stórt þetta var. Margir til dæmis halda að þetta hafi „bara“ verið eitthvert þukl. Þetta fór alveg yfir öll mörk,“ sagði hún.
Vítalía kærði mennina þrjá fyrir kynferðisbrot gegn sér á síðasta ári. Embætti héraðssaksóknara hætti hins vegar rannsókn þess máls í apríl síðastliðnum. Kolbrún Garðarsdóttir, lögmaður Vítalíu, staðfesti við Heimildina að ákvörðun héraðssaksóknara þar um hefði verið kærð til ríkissaksóknara.
Stundin greindi frá því í apríl á síðasta ári að viðræður hefðu staðið milli lögmanns Vítalíu og lögmanns á vegum þremenninganna um að ljúka málinu milli þeirra með svokölluðum þöggunarsamningi. Var það til umræðu áður en Vítalía opnaði sig opinberlega um málið. Samkvæmt heimildum Stundarinnar var rætt um að Vítalía fengi mánaðarlegar greiðslur frá mönnunum og samkvæmt sömu heimildum var ein talan sem nefnd var 25 milljónir króna yfir fimm ára tímabil.
Í umfjöllun Stundarinnar kom ekki fram hver hefði haft frumkvæði að viðræðum um slíkan samning. Þau Vítalía og Ari vildu ekki tjá sig um málið við Stundina og ekki náðist í Þórð Má eða Hreggvið.
Ekki nóg fram komið til að ákæra
Það sem næst gerðist í málinu var hins vegar að þeir Ari, Hreggviður og Þórður Már kærðu Vítalíu og Arnar fyrir tilraun til fjárkúgunar, hótanir og brot gegn friðhelgi einkalífsins, sem fyrr segir. Um er að ræða kæru í málinu sem nú hefur verið fellt niður. Í kærunni voru tilgreind atriði í 35 töluliðum sem þeir þremenningar töldu að væru refsiverð.
Við rannsókn málsins voru meðal annars teknar skýrslur þeim Ara, Hreggviði, Þórði Má, Vítalíu sjálfri og vitnum. Í niðurfellingarbréfi héraðssaksóknara segir að með hliðsjón af rannsóknargögnum málsins „verður ekki talið að það sem fram er komið sé nægilegt eða líklegt til sakfellis og er málið hér með fellt niður“.
Í yfirlýsingu sem lögmaður Vítalíu sendi Heimildinni segir hún að réttlætið hafi sigrað í þessu tilviki. „Ég tel að réttlætið hafi raunverulega sigrað hvað varðar þetta mál,“ hefur lögfræðingurinn þar eftir Vítalíu.
Athugasemdir