Íslenska ríkið var í dag dæmt til að greiða Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum og dótturfélagi hennar, Huginn ehf, alls um 844 milljónir króna, auk vaxta og dráttarvaxta, vegna fjártjóns sem útgerðirnar urðu fyrir sökum þess að þeim var úthlutað minni makrílkvóta en skylt var. Þá var ríkinu gert að greiða málskostnað útgerðanna beggja, alls 25 milljónir króna.
Útgerðarfyrirtækin stefndu ríkinu sumarið 2019 og kröfðust þá bóta upp á rúma 1,8 milljarða samanlagt, auk hæstu mögulegu dráttarvaxta. Síðan þá höfðu fyrirtækin hins vegar lækkað bótakröfur sínar umtalsvert, eða um þriðjung og fóru þær fram á að ríkissjóður greiddi þeim rúmlega 1,2 milljarð króna í bætur, auk dráttarvaxta. Þetta var gert eftir að niðurstöður dómkvaddra matsmanna á meintu mögulegu tjóni þeirra lágu fyrir, en þær sýndu hið ætlaða tjón minna en Vinnslustöðin og Huginn höfðu áður áætlað.
Langur aðdragandi
844
Forsaga málsins er sú að árið 2018 komst Hæstiréttur, í máli sem stórútgerðir höfðuðu á hendur ríkinu, að þeirri niðurstöðu að úthlutun kvóta á öðrum grundvelli en veiðireynslu hefði verið ólögmæt. Sú úthlutun, sem var rót dómsmálsins, var byggð á reglugerð sem Jón Bjarnason, þáverandi sjávarútvegsráðherra, setti árið 2010 og átti að miða að því að smærri útgerðir gætu í meira mæli veitt makríl.
„Reikningurinn vegna þess verður þá að koma frá greininni. Það er bara svo einfalt“
Eftir að dómur Hæstaréttar lá fyrir samþykkti Alþingi, í byrjun árs 2019, lagafrumvarp Kristjáns Þórs Júlíussonar, sem þá var sjávarútvegsráðherra, um að makríll yrði kvótasettur á grundvelli veiðireynslu. Fengu útgerðir kvótann því gefins, kvóta að verðmæti tugi milljarða króna. Sjö stórútgerðir kröfðust hins vegar frekari bóta. Meðal þeirra voru Vinnslustöðin og Huginn. Hin fyrirtækin féllu hins vegar frá málssókninni, eftir hörð viðbrögð þegar í ljós kom að kröfur fyrirtækjanna sjö námu rúmum 10 milljörðum króna. Þær fréttir voru fluttar í miðjum efnahagsþrengingum vegna kórónaveirufaraldursins, og fóru ekki vel ofan í fólk. Meðal annars sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra á Alþingi að í hans huga myndi reikningurinn, ef málið tapaðist, ekki verða sendur á skattgreiðendur. „Reikningurinn vegna þess verður þá að koma frá greininni. Það er bara svo einfalt.“
Tvær útgerðir bökkuðu ekki
Vinnslustöðin og Huginn héldu hins vegar kröfum sínum til streitu, og vísuðu til þess að þó tímarnir væru erfiðir giltu í landinu lög. Fyrirtækin sem fengið höfðu makrílkvóta að virði tug milljarða að gjöf töldu sig enn eiga inni hjá ríkissjóði.
Málið var dómtekið í mars síðastliðnum og dómar féllu í dag. Samkvæmt dómnum var Hugin dæmdar tæpar 329 milljónir króna í bætur, auk vaxta og dráttarvaxta, og ríkinu gert að greiða fyrirtækinu 10 milljónir króna í málskostnað. Vinnslustöðinni voru dæmdar 515 milljónir króna í bætur, auk vaxta og dráttarvaxta, og þá var íslenska ríkinu gert að greiða fyrirtækinu 15 milljónir króna í málskostnað.
Athugasemdir (2)