Norska Stórþingið samþykkti að rúmlega tvöfalda skattlagninguna á sjókvíaeldið í landinu þann 31. maí. Eigandi Arnarlax á Bíldudal, norska laxeldisfyrirtækið Salmar, mótmælir þessari auknu skattlagningu harðlega í tilkynningu til norsku kauphallarinnar sem dagsett er sama dag. Með ákvörðuninni mun auðlindaskatturinn í norsku sjókvíaeldi hækka úr 22 prósent og upp í 47 og mun hann gilda afturvirkt frá 1. janúar 2023. Mikið hefur verið fjallað um skattlagninguna í norskum fjölmiðlum síðastliðna mánuði en nú hefur hún loksins verið ákveðin með knöppum meirihluta atkvæða á norska þinginu.
Í tilkynningunni segir Salmar að forsendur skattlagningarinnar byggi á röngum forsendum: „Salmar hefur alltaf gagnrýnt nýju skattlagninguna harðlega þar sem hún byggir á þeim röngu forsendum að matarframleiðsla sjókvíaeldisins sé staðbundin auðlindaatvinnugrein sem skilar óeðlilega mikilli arðsemi sem er ekki í neinu samræmi við áhættuna í rekstrinum.“
Athugasemdir (1)