Laun æðstu embættismanna Íslands munu hækka um 6-6,3 prósent 1. júlí næstkomandi. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra greindi frá þessu í fréttum RÚV í gærkvöldi. Um er að ræða laun þingmanna, ráðherra, ráðuneytisstjóra, dómara, saksóknara, lögreglustjóra, ríkissáttasemjara seðlabankastjóra og forseta Íslands. Um er að ræða meiri hækkun en hópurinn fékk í fyrra, þegar laun hans hækkuðu um 4,7 prósent.
Hækkunin byggir á aðferðarfræði sem fest var í lög 2019 og notuð er til að reikna út hvernig laun þessa efsta lags íslenska embættismannakerfisins eiga að hækka. Lögin voru sett í kjölfar þess að Kjararáð var lagt niður. Það ráð ákvað í október 2016 að hækka laun forseta Íslands, þingfararkaup alþingismanna og laun ráðherra gríðarlega. Laun þingmanna hækkuðu hlutfallslega mest við ákvörðun Kjararáðs, eða um 44,3 prósent. Sú ákvörðun var afar umdeild og var harðlega gagnrýnd.
Ef miðað er við efri mörk þess bils sem Katrín nefndi í fréttum RÚV, og byggir á upplýsingum frá Hagstofu Íslands, munu laun þingmanna hækka um 85 þúsund krónur eftir rúman mánuð. Í byrjun sumars 2016, áður en hækkun Kjararáðs tók gildi, voru grunnlaun þingmanna á Íslandi 712 þúsund krónur á mánuði. Nú stendur til að hækka þau upp í allt að 1.431 þúsund krónur. Launin hafa því rúmlega tvöfaldast á sjö árum og hækkað um 719 þúsund krónur.
Til viðbótar við ofangreint geta þingmenn fengið ýmiskonar viðbótargreiðslur vegna kostnaðar sem fellur til vegna starfsins, eða aukastarfa á borð við nefndarformennsku.
Laun forsætisráðherra verða yfir 2,6 milljónum
Grunnlaun ráðherra hafa hækkað enn meira í krónum talið. Þeir voru með 1.257 þúsund krónur í laun snemmsumars 2016 en eru nú á leiðinni í 2.372 þúsund krónur. Það er hækkun upp á 89 prósent eða 1.115 þúsund krónur á sjö árum.
Forsætisráðherra var með 1.391 þúsund krónur í laun á mánuði árið 2016 og er nú með 2.470 þúsund krónur. Hún mun hækka í 2.626 þúsund eftir rúman mánuð og hefur þá hækkað um 1.235 þúsund krónur á sjö árum, eða 89 prósent.
Miðgildi reglulegra heildarlauna fólks á Íslands, samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands, var 492 þúsund krónur í árslok 2015. Í lok síðasta árs voru þau 775 þúsund krónur og höfðu því hækkað um 283 þúsund krónur, eða 58 prósent á tímabilinu. Það þýðir að helmingur launamanna var með laun undir þeirri tölu.
Ef skoðað er meðaltal heildarlauna þá hefur það farið úr 612 í 871 þúsund krónur á mánuði og hækkað um 42,3 prósent, eða 259 þúsund krónur, á sama tímabili.
Langt umfram flestar launahækkanir
Sú gríðarlega hækkun sem varð á launum æðstu embættismanna með ákvörðun Kjararáðs árið 2016 var harðlega gagnrýnd víða og varð til þess að ákveðið var að breyta því hvernig laun þjóðkjörinna fulltrúa og æðstu embættismanna yrðu reiknuð. Það var, líkt og áður sagði, gert með lögum árið 2019 og frá þeim tíma hækka þau í takti við þróun launavísitölu. Í síðustu langtímakjarasamningum, svokölluðum lífskjarasamningum, var hins vegar samið um krónutöluhækkanir fyrir flestar stéttir. Í skammtímasamningunum sem gerðir voru undir lok síðasta árs og í byrjun þessa varð þó breyting á og samið um hlutfallslegar hækkanir.
Í ljósi þess að laun þessa embættismannahóps eru mun hærri en meðallaun í þjóðfélaginu þá hækka þau um mun fleiri krónur en hjá þorra þeirra sem mynda launavísitöluna. Miðgildi heildarlauna í fyrra var, líkt og áður sagði, 775 þúsund krónur. Ef sá hópur myndi fá sömu hlutfallslegu launahækkun og forsætisráðherra á von á 1. júlí myndu laun hans hækka um 49 þúsund krónur, eða um 107 þúsund krónum minna en laun hennar munu hækka eftir rúman mánuð.
Athugasemdir