Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur til skoðunar hvort lögreglumaðurinn Gísli Jökull Gíslason hafi brotið lög og reglur þegar hann villti á sér heimildir í samskiptum. Það gerði Gísli Jökull þegar hann gerði tilraun til að komast að því hver það væri sem stæði að baki Samherjagjörningnum „We‘re Sorry“. Hann gerði það án þess að leita samþykkis yfirmanna og skráði samskiptin ekki í málakerfi lögreglunnar.
Listgjörningurinn er útskriftarverkefni listamannsins Odds Eysteins Friðrikssonar, Odee, og samanstendur af vefsíðu og fréttatilkynningu þar sem Odee bað, í nafni sjávarútvegsfyrirtækisins Samherja, namibísku þjóðina afsökunar á framgöngu fyrirtækisins í landinu. Þá er tíu metra vegglistaverk í Listasafni Reykjavíkur einnig hluti listgjörningsins en það var afhjúpað eftir að Odee hafði stigið fram og lýst því að hann væri maðurinn á bak við gjörninginn, í síðustu viku.
Sagðist vera sjálfstætt starfandi blaðamaður
Gísli Jökull sendi í tvígang tölvupósta á netföng sem gefin voru upp á vefsíðunni sem um ræðir, sama dag og hún var sett í loftið. Sagðist hann í þeim vera sjálfstætt starfandi blaðamaður en sendi þó umrædda pósta úr lögreglunetfangi sínu. Þau samskipti skráði Gísli Jökull ekki í kerfi lögreglunnar. Þá aflaði hann ekki heimildar hjá yfirmanni sínum, lögreglustjóra, áður en hann sendi umrædda tölvupósta. Það staðfesti Gísli Jökull hvoru tveggja í viðtali við Heimildina.
„Embættið staðfestir að til athugunar er hvort verklag við skoðun vefsvæðisins og samskipti hafi verið í samræmi við lög og reglur“
Í reglugerð um sérstakar aðferðir og aðgerðir lögreglu við rannsókn sakamála er meðal annars fjallað um tálbeitur. Þar segir að tálbeita sé lögreglumaður eða annar starfsmaður lögreglu sem fari með lögregluvald og hafi samskipti við sakborning sem grunaður er um að ætla að fremja refsivert brot „og samskiptin leiða til þess að brotið er fullframið og/eða að upplýsingar fást um deili á þeim sem fullframið hefur refsivert brot.“ Tilgreint er í reglugerðinni að ákvörðun um beitingu sérstakra aðferða og aðgerða lögreglu skuli tekin af lögreglustjóra eða öðrum yfirmanni samkvæmt ákvörðun lögreglustjóra. Það var ekki gert, sem fyrr segir, þegar Gísli Jökull villti á sér heimildir í samskiptum vegna listgjörningsins.
Skylt að skrá verkefni lögreglu í málaskrá
Heimildin gerði ítrekaðar tilraunir í síðustu viku til að fá viðbrögð frá Höllu Bergþóru Björnsdóttur, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, vegna máls Gísla Jökuls, en án árangurs. Bað hún um að spurningar yrðu sendar skriflega og sendi Heimildin eftirfarandi spurningar á Höllu Bergþóru.
- Var lögreglumanninum Gísla Jökli heimilt að villa á sér heimildir með þessum hætti?
- Hefði Gísla Jökli borið að leita samþykkis yfirmanna áður en hann sendi umræddan tölvupóst?
- Er eðlilegt að lögreglumaður sendi tölvupósta sem þessa en skrái þá ekki inn í málakerfi lögreglu?
- Ef svörin eru þau að Gísli Jökull hafi farið út fyrir það sem honum var heimilt í starfi, að honum hafi borið að leita samþykkis eða að óeðlegt sé að málið hafi ekki verið skráð inn í málakerfi lögreglu, hver eru þá viðurlög við þessari hegðun lögreglumannsins?
Heimildin fékk senda yfirlýsingu frá Gunnari Rúnari Sveinbjörnssyni, upplýsingafulltrúa lögreglunnar, sem staðfesti að embætti lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu væri með til skoðunar hvort hegðun Gísla Jökuls hafi verið í samræmi við lög og reglur.
„Lögreglan heldur málaskrá 5. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 en verkefni lögreglu skal skrá í nefnda málaskrá, oft skammstöfuð LÖKE (Lögreglukerfið).
Fyrir liggur að starfsmaður lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu (LRH) leitaði upplýsinga um vefsvæði sem merkt var Samherja hf. en upplýst hefur verið um að nefnt vefsvæði tengist fyrirtækinu ekki heldur var um að ræða listgjörning á vegum útskriftarnemanda við Listaháskóla Íslands.
Embættið staðfestir að til athugunar er hvort verklag við skoðun vefsvæðisins og samskipti hafi verið í samræmi við lög og reglur en að öðru leyti mun embættið ekki tjá sig um málefni einstakra starfsmanna,“ segir í svari Gunnars Rúnars.
Athugasemdir (1)