Umræða um nauðsyn þess að tryggja börnum leikskólavist við eins árs aldur þegar fæðingarorlofi foreldra lýkur hefur verið áberandi að undanförnu og hefur mikið verið talað um nauðsyn þess að fjölga leikskólaplássum og byggja nýja leikskóla. Leikskólakennarar og fleiri hafa bent á að til þess að halda uppi faglegu uppeldis- og menntunarstarfi á́ þessu mikilvæga fyrsta skólastigi þurfi menntað starfsfólk. Mikill skortur er á leikskólakennurum vegna fjölgunar leikskólabarna og lengri dvalartíma þeirra en einnig vegna fækkunar brautskráðra leikskólakennara eftir lengingu námsins úr þremur í fimm ár. Að auki er stétt leikskólakennara að eldast, þannig voru tæp 20% leikskólakennara 60 ára og eldri árið 2021 en ekki nema um 7% tíu árum fyrr árið 2011 (heimild Hagstofa Íslands).
Tölur frá Hagstofu sýna að dvalartími íslenskra barna í leikskóla er óvenju langur og hefur barna- og menntamálaráðherra nýverið talað um að langur vinnutími leikskólabarna sé áhyggjuefni. Séu tölur frá því rétt fyrir aldamót bornar saman við nýlegar tölur sést vel hvað dvalartíminn hefur lengst. Þannig voru 43% leikskólabarna 4-5 klst. í skólanum árið 1998 en 40% barna dvöldu í átta klst. eða lengur en árið 2021 voru það einungis 1,2% barna sem vörðu 4-5 klst. í leikskólanum á meðan tæp 90% voru átta klst. eða lengur. Á þessum tæpa aldarfjórðungi fjölgaði leikskólabörnum einnig um rúmlega fjögur þúsund og langmest fjölgaði börnum 2ja ára og yngri eða um 3548 börn en aðeins fjölgaði um 163 börn í hópi 4-5 ára barna.
Hvernig menntun hefur starfsfólk í leikskólum?
Á Íslandi er leikskólinn formlega skilgreindur sem fyrsta skólastigið og er það lagaleg skylda sveitarfélaga að reka leikskóla en eftirlit og fagleg ábyrgð á starfinu er á höndum ríkisvaldsins. Flest sveitarfélög bjóða börnum leikskólapláss frá 2ja ára aldri og í auknum mæli er stefnan að bjóða leikskólapláss þegar fæðingarorlofi lýkur en á hinum Norðurlöndunum er sá réttur tryggður með lögum. Á Íslandi eiga samkvæmt lögum tveir þriðju þeirra sem starfa við kennslu, umönnun og uppeldi barna í hverjum leikskóla að vera leikskólakennarar. Til samanburðar þarf einn af hverjum þremur starfsmönnum leikskóla í Finnlandi að vera leikskólakennari (þriggja ára háskólanám) en aðrir starfsmenn þurfa að hafa framhaldsskólamenntun af uppeldissviði. Á Íslandi hafa leikskólakennarar aldrei verið nálægt því að vera tveir þriðju starfsfólks í uppeldisstörfum. Í töflu 1 sést fjöldi þeirra sem störfuðu við uppeldi og menntun í leikskólum á tímabilinu 2001 til 2021 og eru sýndar tölur fyrir fimmta hvert ár. Á þessu tímabili fjölgaði starfsfólki um nærri þrjú þúsund og voru leikskólakennarar flestir 1822 árið 2011 eða 36% starfsfólks en hefur á tíu árum fækkað um 250 og eru 24% af þeim sem sinna uppeldisstörfum í leikskólum árið 2021 (heimild Hagstofa Íslands).
Í töflu 1 sést að starfsfólki með aðra uppeldismenntun hefur fjölgað og eru háskólamenntaðir starfsmenn með uppeldismenntun 15% árið 2021 en voru 4% 20 árum fyrr. Þarna gæti verið um að ræða fólk sem hefur B.Ed. próf í leikskólakennarafræðum sem fyrir 2011 dugði til að fá starfsréttindi sem leikskólakennari en einnig fólk með annars konar menntun í uppeldis- og menntunarfræði, sálfræði eða skyldum greinum. Hagstofan telur kennara með kennsluréttindi á öðrum skólastigum með í þessum hópi en réttindi þeirra gilda líka í leikskólum eftir að lögum var breytt árið 2019. Árið 2021 voru 172 kennarar með kennsluréttindi á öðrum skólastigum við störf í leikskólum (sjá mynd 1). Það er vissulega jákvætt að fá kennara af öðrum skólastigum til starfa þó þeir hafi ekki sömu sérþekkingu og leikskólakennarar. Því miður hafa breytingar á lögunum einnig orðið til þess að leikskólakennarar flytja sig yfir í grunnskólakennslu og á tveggja ára tímabili fluttu 213 leikskólakennarar sig yfir í grunnskólakennslu en aðeins 46 færðu sig úr grunnskóla yfir í leikskóla (heimild Styrking leikskólastigsins 2021). Lögin um að eitt leyfisbréf gildi þvert á skólastig hafa því orðið til þess að fækka enn frekar leikskólakennurum við störf í leikskólum.
Ef við rýnum nánar í tölur um starfsfólk leikskóla árið 2021 á mynd 1 kemur í ljós að ef starfsfólki með aðra uppeldismenntun á háskólastigi er bætt við leikskólakennara og aðra kennara eru tæp 40% starfsfólks leikskóla með háskólapróf á sviði uppeldis og menntunar. Auk þess er síðan starfsfólk sem lokið hefur háskólaprófi í ýmsum öðrum greinum. Þessi hópur hefur gjarnan fengið hvatningu og styrki til að sækja tveggja ára meistaranám til að öðlast leikskólakennararéttindi m.a. í formi sveigjanleika í starfi sínu frá rekstraraðilum leikskóla og styrkja bæði frá Félagi leikskólakennara og ríki og sveitarfélögum.
Hvernig þarf að bæta menntun starfsmannahópsins í leikskólum?
Ísland og Portúgal eru einu Evrópulöndin sem gera kröfu um lokapróf af meistarastigi í háskóla til að öðlast almenn leikskólakennararéttindi en í alþjóðlegum samanburði sker Ísland sig úr að því leyti að hér er hlutfallslega margt starfsfólk, eða tæpur helmingur, sem teljast ófaglærðir og hafa ekki frekari menntun en grunnskóla eða framhaldsskóla en meðaltalið var 22% í OECD löndunum árið 2019. Tæpur helmingur starfsfólks leikskóla á Íslandi er með próf úr háskóla sem er nálægt meðaltali í OECD-löndunum en hér eru fáir (4%) með uppeldismenntun af framhaldsskólastigi eða úr sérskólum miðað við OECD-löndin þar sem meðaltalið sem er 25%.
Á Íslandi þyrfti í raun bæði að fjölga leikskólakennurum en einnig að auka menntun þess starfsfólks sem starfar við hlið þeirra í leikskólunum. Skipulag leikskólaliðanáms sem nám með vinnu fyrir starfsfólk leikskóla ætti að greiða leið þess að sérhæfðri menntun. Vilji virðist vera til að styrkja enn frekar nám fyrir þetta fólk með aðkomu háskólanna en haustið 2022 var undirritað samkomulag ríkis, sveitarfélaga og Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri um að komið verði á fót fagháskólanámi í hagnýtri leikskólafræði í öllum landshlutum. Námið er eins árs diplómanám sem verður unnt að taka með vinnu og er ætlað fólki sem ekki hefur lokið stúdentsprófi en er með mikla starfsreynslu úr leikskóla. Hægt verður að fá námið metið sem fyrsta árið í B.Ed. námi og standa vonir til að með þessu verði ófaglærðu starfsfólki leikskóla auðvelduð leið til að öðlast fagmenntun leikskólakennara. Þeirra biði þá fjögurra ára háskólanám til að öðlast leikskólakennararéttindi að loknu diplómanámi.
Þegar hugað er að því að bæta menntun starfsfólks leikskóla er þó ekki hægt að líta fram hjá því að margt af því fólki sem telst til ófaglærðra lítur ekki á leikskólann sem framtíðar starfsvettvang og staldrar stutt við í störfum eins og sést greinilega á mynd 2. Nærri þriðjungur ófaglærðra er nýr á hverju ári en talan er örlítið lægri árið 2021 líklega vegna COVID-19. Starfsmannavelta er mun minni hjá leikskólakennurum eða á bilinu 10–13% og 18–30% hjá öðrum uppeldismenntuðum.
Hvers vegna fækkar starfandi leikskólakennurum?
Leikskólakennaranám var þriggja ára háskólanám til B.Ed.-gráðu frá árinu 1998 en lög frá 2008 kváðu á um að frá árinu 2012 þyrftu leikskólakennarar að hafa meistarapróf. Inntökuskilyrði í́ meistaranámið er B.Ed.-próf í leikskólakennarafræðum eða bakkalárpróf í grein sem tengist námssviðum leikskólans. Nám leikskólakennara er því annað hvort 5 ára nám í leikskólakennarafræðum á bæði bakkalár og meistarastigi eða tveggja ára nám á meistarastigi fyrir þá sem hafa bakkalárpróf í annarri grein.
Mynd 3 sýnir fjölda brautskráðra leikskólakennara frá Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri á 18 ára tímabili frá 2005 til 2022 en á tímabilinu öllu brautskrást 1064 leikskólakennarar. Meðan krafist var B.Ed. gráðu fyrir leikskólakennara luku að meðaltali 112 leikskólakennaraprófi á ári en ekki nema 28 eftir að námið var lengt. Eftir að farið var að krefjast meistaragráðu dró því mjög úr fjölda brautskráðra leikskólakennara og hæg endurnýjun stéttarinnar varð mikið áhyggjuefni.
Árið 2019 var lögum um kennaramenntun breytt þannig að kennurum gafst kostur á að velja námsleið til kennsluréttinda á meistarastigi MT (Mastser of Teaching) sem unnt var að ljúka með námskeiðum í stað 30 eininga meistaraverkefnis. Við þessa breytingu fjölgaði brautskráðum umtalsvert og meirihlutinn hefur valið þessa nýju námsleið eða 66% árið 2021 og 84% árið 2022.
Jafnframt lagabreytingunni 2019 var sett af stað fimm ára átaksverkefni stjórnvalda með það markmið að fjölga kennurum á öllum skólastigum, fjölga þeim sem velja kennaranám og hvetja kennaranema til að útskrifast á tilsettum tíma en hæg framvinda kennaranema í náminu hefur verið áhyggjuefni. Ákveðið var að 50% launað starfsnám við leik- eða grunnskóla skyldi metið sem helmingur af lokaári námsins, að ríkið myndi greiða hvatningarstyrk allt að 800.000 kr. fyrir þá sem ljúka kennaranámi og að ríki, sveitarfélög og Félag leikskólakennara haldi áfram að styrkja starfsfólk leikskóla til náms í leikskólakennarafræðum.
Hefur leikskólakennaranemum fjölgað og hvernig skila þeir sér í brautskráðum leikskólakennurum?
Til að meta áhrif þessara aðgerða skoðuðum við fjölda innritaðra í leikskólakennaranám þar sem eitt markmið átaksins sem lýst var að framan var að fjölga nemum. Þá litum við á brautskráningar úr náminu til að sjá hvernig fjöldi skráðra nema hefur skilað sér í fjölgun leikskólakennara. Þessar upplýsingar höfum við eingöngu fyrir Háskóla Íslands sem ætti þó að gefa innsýn í heildarmyndina þar sem Háskóli Íslands menntar meirihluta leikskólakennara eins og fram hefur komið.
Mynd 4 sýnir að leikskólakennaranemum í bakkalárnámi (B.Ed.) við Háskóla Íslands fjölgaði á árunum 2018 til 2021 og voru yfir 170 á árunum 2020 og 2021 en fækkar svo aftur og eru 152 árið 2022. Þetta mynstur er svipað ef við skoðum fjölda nýnema, þeir eru flestir COVID árið 2020. Útskrifuðum hefur fjölgað jafnt og þétt en eru þó enn innan við 50 árið 2022.
Ekki liggja fyrir upplýsingar um fjölda þeirra sem hefja nám á meistarastigi en hægt er að nálgast upplýsingar um heildarfjölda stúdenta eftir námsleiðum hjá Háskóla Íslands. Árið 2020 var í fyrsta sinn hægt að skrá sig í hina nýju MT gráðu og við það fjölgar leikskólakennaranemum umtalsvert.
Mynd 5 sýnir að stúdentum á meistarastigi sem er námsleiðin fyrir þá sem hafa lokið B.Ed. gráðu hefur fjölgað en það hefur verið áhyggjuefni hversu fáir af þeim sem ljúka bakkalárprófi hafa kosið að halda áfram í meistaranámið. Á myndinni sést að undanfarin fimm ár hafa fleiri stúdentar verið skráðir í menntunarfræði leikskóla sem er nám ætlað þeim sem hafa BA eða BS gráðu í annarri háskólagrein. Mikil fjölgun er COVID árin 2020 og 2021 í fjölda stúdenta í menntunarfræði leikskóla en þeim fækkar svo verulega árið 2022 og þá hafa hlutföllin jafnast þannig að svipaður fjöldi er á báðum námsleiðum. Heldur fleiri með B.Ed. nám í leikskólakennarafræði velja MT leiðina en mikill meirihluti allra meistaranema velur þá leið.
Á mynd 6 sést fjöldi brautskráninga í leikskólakennarafræði og menntunarfræði leikskóla. Á þessum árum 2018 til 2022 ljúka samtals 71 meistaranámi (M.Ed. eða MT) í leikskólakennarafræði en 107 menntunarfræði leikskóla. Brautskráningar frá Háskóla Íslands taka verulegt stökk uppávið eftir að MT gráðan varð valkostur en sá fjöldi sem hefur lokið námi samtals á þessum fimm árum nær þó ekki þeim fjölda leikskólakennara sem færði sig á tveimur árum úr leikskóla yfir í grunnskólakennslu eftir að lögum um starfsréttindi var breytt 2019.
Hvernig þarf að fjölga fólki með uppeldismenntun í leikskólum?
Fjöldi skráðra nema sýnir þann fjölda sem hefur áhuga á að mennta sig í leikskólakennarafræðum. Í tveggja ára námi ætti u.þ.b. helmingur innritaðra að ljúka námi á ári ef þeir væru í fullu námi. Ef bornar eru saman myndir 5 og 6 sést að tímabilinu 2018 til 2020 voru fáir að útskrifast á ári en eftir tilkomu MT námsins ljúka hlutfallslega fleiri námi. Nokkur hluti nema virðist þó taka lengri tíma en tvö ár til að ljúka námi og til að fjölga leikskólakennurum væri væntanlega skilvirkasta leiðin að leita leiða ti að hraða námsframvindu þeirra sem eru nú þegar í námi.
Kannanir höfunda meðal stúdenta á Menntavísindasviði Háskóla Íslands sýna að langflestir leikskólakennaranemar erú fjarnámi og vinna í leikskóla með námi og um helmingur er í fullu starfi eða því sem næst. Leikskólakennaranemar eru almennt eldri en stúdentar á öðrum námsleiðum á Menntavísindasviði og yfir þriðjungur er með tvö eða fleiri börn á framfæri. Aðstæður leikskólakennaranema eru því þannig að ólíklegt er að þeir hafi nægan tíma til að sinna fullu námi. Bæði kennaramenntunarstofnanir og þeir sem bera ábyrgð á rekstri leikskóla þurfa því að leita leiða til að stuðla að því að leikskólakennaranemar geti sinnt námi sínu þannig að sem flestir ljúki á tilsettum tíma. Eins og fram hefur komið hafa rekstraraðilar leikskóla veitt nemum stuðning í formi sveigjanlegs vinnutíma og ríki og fagfélag leikskólakennara veitt fjárstyrki sem hafa hjálpað til. Sú aðgerð háskólanna að bjóða MT nám hefur greinilega opnað leið til að fjölga brautskráðum leikskólakennurum sem bendir til að meistararitgerðin hafi verið hindrun fyrir marga og að valkosturinn að taka námskeið í staðinn hafi gert mörgum auðveldara að ljúka námi.
Þannig hefur ýmislegt verið gert og fjölgun síðustu tvö ár er líklega árangur af þeim aðgerðum en einnig fjölgaði í háskólanámi meðan COVID faraldurinn gekk yfir. Fækkun skráðra leikskólakennaranema bæði í bakkalár og meistaranámi árið 2022 veikir þó vonina um að þessi jákvæða þróun haldi áfram. Það blasir því við að það verkefni að mennta starfsfólk leikskóla svo að unnt sé að halda þar uppi faglegu uppeldis- og menntunarstarfi er svo viðamikið að betur má ef duga skal. Þó leikskólakennurum hafi nýlega fjölgað meira en áður vantar ennþá miklu fleiri leikskólakennara og jafnframt þarf að huga að menntun aðstoðarfólks á leikskólum og stefna að því að fækka starfsfólki sem hefur litla sem enga menntun sem undirbýr það undir uppeldi og menntun barna.
Greinar um skylt efni eftir höfunda:
Amalía Björnsdóttir og Þuríður Jóna Jóhannsdóttir. (2020). Nýliðun leikskólakennara, fjöldi brautskráðra og bakgrunnur leikskólakennaranema. Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun.
Þuríður Jóna Jóhannsdóttir og Amalía Björnsdóttir. (2022). Háskólanemar í grunnnámi við Menntavísindasvið HÍ. Fjarnám, lykill að háskólanámi fyrir stúdenta með fjölbreyttan bakgrunn. Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun.
Athugasemdir