Það hefur ekki alltaf verið vinsælt hlutskipti að sinna veðurfræði á Íslandi. Veðurfræðingar flytja oft dapurleg tíðindi og fólk er gjarnt á að skjóta sendiboðann. Að kenna veðurfræðingum um vont veður er eins konar samfélagslegur hlutverkaleikur. Auðvitað vitum við öll að vont veður er ekki veðurfræðingum að kenna en þessi „við gegn þeim“ hagsmunauppstilling er okkur bara svo töm. Sumarið 1983 voru til að mynda haldin fjöldamótmæli fyrir utan Veðurstofuna þar sem fólk lýsti yfir gremju sinni á vondu veðri. Þessi mótmæli voru að sjálfsögðu í gamansamari kantinum. Það var enginn í fullri alvöru að kenna veðurfræðingum um hið vonda veður en gjörningurinn sem slíkur slökkti kannski á gremju sumra. Fólk var allavega að mótmæla þessu vonda veðri í sameiningu og veðurfræðingar voru í gamni gerðir að óvininum.
„Veðurfræðingar eru ekki sömu andlit veðurs og áður.“
Það skal ósagt látið hvort það sé eftirsóknarverð hugmynd að hvetja til mótmæla fyrir utan Veðurstofuna. Hinu skal þó spáð að það verður að teljast ólíklegra að slík hugmynd myndi fá hljómgrunn í dag. Staða veðurfræðinga er ekki sú sama og á árum áður. Árið 1983 voru veðurfræðingar þekkt andlit af skjáum landsmanna. Nöfn þeirra voru á hvers manns vörum og andlit þeirra kunnuglegri en andlit nákominna ættingja. Vissulega flytja veðurfræðingar enn fréttir í fjölmiðlum og sumir þeirra eru þekktir en munurinn er sá að í dag eru þeir ekki endilega fyrstir með fréttirnar. Það eru miklar líkur til þess að fólk sé þegar búið að skoða veðurfréttir á sínum forsendum, á hinum ýmsu veðursíðum eða veðuröppum. Veðurfræðingar eru ekki sömu andlit veðurs og áður.
Traust andlit Trausta
En hvað þýðir það að skoða veður á „sínum forsendum“? Í stað þess að hlusta á veðurfræðing lýsa hinum ýmsu lægðum og hitaskilum og öðrum veðurfræðilegum forsendum, þá getur nú hver og einn stytt sér leið beint að útkomunni. Hver og einn fær nú upplýsingar um sitt veður. Síminn skynjar staðsetningu notandans og birtir honum veðrið nákvæmlega þar. Þessu fylgja engar útskýringar. Þetta eru bara hreinar niðurstöður. Veðurappið í símanum þínum segir kannski: Kópavogur. Sjö gráður og súld. Fúlt, en alveg sama niðurstaða og veðurfræðingurinn hefði gefið, nema hann hefði gert það í bland við ítarefni um veðrið annars staðar á landinu og heiminum.
Sjö gráður og súld. Þetta er mitt veður. Í dag, á morgun og hinn og hinn og hinn. Og það er ekkert andlit að segja það, enginn Trausti Jónsson, engin Birta Líf. Það er bara ískalt appið. Þetta er mitt veður sérstaklega matreitt fyrir mína tilveru, mínar forsendur, minn hentugleika. Bestaðar niðurstöður svo enginn tími fari til spillis. Sjö gráður og súld. Eitthvað sem ég þarf að sætta mig við. Og ef ég ætla að mótmæla, í gríni eða í alvöru, þá gæti það reynst vandasamt því veðurstofan sem flytur þessar fregnir er hvorki uppi í Öskjuhlíð né á neinum öðrum hlutlægum stað heldur fljótandi um í skýinu, óáþreifanleg, ópersónuleg og alltumlykjandi. Ég sit uppi með þetta veður og ég upplifi það einsamall. Sjö gráður og súld. Þetta er ekki kross sem við berum saman. Þetta er mitt veður og það eru mín prívat og persónulegu vonbrigði að veðrið skuli ekki vera betra.
Bestuð niðurstaða fyrir hvern og einn
En skiptir þetta í raun einhverju máli? Veðrið verður ekkert betra þó að fólk hætti að nota veðuröpp og treysti eingöngu á veðurfræðinga ríkismiðilsins eins og árið 1983. Veðrið var ekkert betra árið 1983. Veðrið skánaði heldur ekkert þó að fólk hafi staðið fyrir gamansömum fjöldamótmælum fyrir utan Veðurstofuna. Það er alveg rétt. Enda snýst þessi pistill í raun hvorki um veður né miðlun veðurfrétta heldur um miðlun upplýsinga almennt.
Í yfirfærðri merkingu má nefnilega segja að séu fréttir einfaldaðar nógu mikið og sniðnar að forsendum hvers og eins, þá sé í raun ósköp lítið að frétta. Það koma vondar fréttir og það koma góðar fréttir, en ef þetta heldur áfram að vera soðið niður fyrir okkur með hjálp sífellt fullkomnari algóriþma, væri í raun hægt að senda okkur skilaboð á einnar mínútu fresti að niðurstaðan af þessu öllu saman sé sjö gráður og súld; að lífið sé svona rétt bærilegt. Því hvað gerist ef við þurrkum út allar forsendur og hver og einn hugsar bara um útkomuna fyrir sjálfan sig? Það er stríð í Úkraínu en í raun varðar það okkur ekki nema að því leyti að núna tekur fimm vikum lengri tíma að bíða eftir varahlut í fjölskyldubílinn. Er ekki nóg að segja okkur það? Þurfum við eitthvað að vita um forsendur og flutning herafla, sagnfræðina og pólitíkina? Þurfum við einhverjar frekari fréttir en að þetta stríð hafi í för með sér áframhaldandi verðbólgu og óróleika á mörkuðum? Sem sagt: Sjö gráður og súld? Vísindafólk í Texas sendir frá sér rannsókn um orsök óeðlilegra frumubreytinga í slímhúð simpansa. Það þýðir að kannski, mögulega eftir tuttugu ár, verði kominn vísir að nýjum lyfjum sem hamlað geti útbreiðslu krabbameins við tilteknar aðstæður. Þarna brá ský frá sólu. En svo kemur næsta frétt. Það er viðtal við sérfræðing sem segir að gervigreind muni hægt og rólega taka yfir mannlega hugsun og stýra líkömum okkar og það muni gera lífið tilgangslaust. Frábært. Til hvers að lækna krabbamein ef lífið verður tilgangslaust? Til hvers að fara með huga manns í þessar stílæfingar? Niðurstaðan er bara sú sama og veðurspáin. Á morgun verða sjö gráður og súld. Og hinn og hinn og hinn.
Regnboginn í rigningunni
Að sníða hluti að forsendum einstaklingsins er ágætt upp að vissu marki. Ég þarf ekkert að vita hvernig staðan er í indversku krikketdeildinni. Ég hef ekki tíma né orku til að skynja eða skilja allt sem gerist í heiminum. Ég hef líka takmarkaðar forsendur til að skilja veðrakerfi, hæðir og lægðir. En ef maður er sviptur því að vita að á bak við klæðskerasniðnar upplýsingarnar sé heill heimur af skoðanaskiptum, greiningum og hugsun, þá er í raun verið að svipta mann ansi miklu. Tilveran er fábreytileg ef einu hagsmunirnir eru bara þeir sem varða mann sjálfan. Stundum leyfir maður sér að hugsa til þessarar menningar með hryllingi. Að loka sérhverja manneskju inni í boxi og gefa henni sérsniðnar upplýsingar sem varða bara hana sjálfa er einmanaleg niðurstaða. Sjö gráður og súld er þunglyndisleg tilvera ef þú þarft að axla hana upp á þitt einsdæmi. En í samfélagi, þar sem forsendur eru kynntar og ræddar og upplýsingar litast af þúsundum mannlegra álita og skoðana, þá byrja að myndast litbrigði í grámanum. Sjö gráður og súld hljómar kannski eins og steingrá lifrarpylsa, en þar er samt líka að finna kjöraðstæður fyrir brot ljóssins og alla tóna regnbogans.
Nútímatækni sem upphefur einstaklinginn er góðra gjalda verð. En nú þegar við höfum lifað með félagsmiðlum og persónumiðaðri miðlun upplýsinga í hálfan annan áratug, þá er að ýmsu að hyggja. Hver á að hugsa um heildarmyndina ef hver og einn fær bara brot af upplýsingunum? Hvernig mætum við áföllum eða búum til sameiginlegar sögur og hvernig deyfum við einmanaleikann? Að þessu sögðu skal það áréttað að auðvitað var ekki allt betra í fortíðinni. Fólkið sem mætti til mótmæla á Veðurstofutúninu sumarið 1983 fékk ósk sína ekki uppfyllta. Það eru til myndir frá mótmælunum. Fólkið stendur, nokkuð vel búið í frökkum og úlpum, undir steingráum himni. Það leynir sér þó ekki á myndunum að þetta er allt gert í góðu gríni. Kannski er það fortíðarbjarminn sem litar upplifunina en það er eins og það votti fyrir hlýju á myndinni. Hlýjunni stafar frá þeli og hjörtum viðstaddra. Því þetta leiðindaveður sumarið 1983 var ekki veður hvers og eins, heldur veður allra saman.
Athugasemdir