Hið óumflýjanlega henti mig fyrir stuttu. Stökkið frá ungdómnum í ellina, úr hjartanu í heilann, frjálslyndinu í íhaldið. Ég rankaði við mér í miðri eldræðu um skaðsemi samfélagsmiðla þegar ég sá að litla systir mín var búin að ranghvolfa augunum svo langt aftur að hún var komin í aðra nútímalegri vídd, fjarri þessu leiðindarausi. Ég var orðin kerlingarvargur, svo gömul og vitlaus að það tók því ekki að hlusta á mig. Vandræðalegt.
Og alger misskilningur!
Ég er ekkert íhaldssamt gamalmenni sem þolir ekki breytingar. Ó nei, í þá gildru fell ég sko ekki.
Það skynsamlegasta í stöðunni var auðvitað að breyta algerlega um skoðun. Hvað er svo sem svona slæmt við samfélagsmiðla? Hvað er sagt um þá sem ekki var predikað um bókalestur fyrir eins og einni öld? Þá var óttast að heil kynslóð yrði eyðilögð af yndislestri og unga fólkið varað við því að sökkva sér ofan í skáldskap til að flýja raunveruleikann. Það þótti hreint og beint stórhættulegt, sérstaklega þegar ekki var hægt að ritstýra því sem ungmennin lásu.
„Það þýðir líklega að ég er orðin þessi kerlingarskrugga sem ég óttaðist.“
Ekki ætla ég að ganga um strætin og hrópa „niður með samfélagsmiðla“ eins og þetta fólk sem bað guð að forða ungdómnum frá oflestri og skáldsögum, til að láta svo hlæja að mér þegar menningarmálaráðuneytið og stofnmeðlimir Meiri skjátíma fyrir börnin skrifa undir snjallsímaátak til að fá krakkana til að eyða meiri tíma á Tiktok, eins og varð með lesturinn.
Og þó, það er viðkunnanlegri tilhugsun að halda í þessi gömlu góðu gildi, bölva samfélagsmiðlanotkun og lofa tímana þegar börn glugguðu í bækur sér til gamans. Það þýðir líklega að ég er orðin þessi kerlingarskrugga sem ég óttaðist. Hvað um það, það tekur því víst ekki að skipta um skoðun úr þessu. Ef sagan endurtekur sig og ég verð að athlægi fyrir afturhaldssemina get ég allavega huggað mig við að fá að hanga í símanum í friði.
Athugasemdir