Hin margverðlaunaða leikkona, Julia Louis Dreyfus, sem er kannski hvað best þekkt fyrir hlutverk sitt sem Elaine í Seinfeld, spyr í lýsingu hlaðvarpsins Vitrari en ég „af hverju í andskotanum“ við heyrum ekki meira frá eldri konum, konum sem eru eldri en hún, en leikkonan er sjálf 62 ára gömul. Það kom því ekki annað til greina í hennar huga en að setjast niður með þessum vitru konum og fara á trúnó með þeim, enda eru þær hoknar af reynslu og lífi. Hún býður konum á borð við Jane Fonda, Carol Burnett, Isabel Allende og fleiri vitringum í hlaðvarpið til þess að læra af þeim hvernig man lifir þýðingarmiklu og innihaldsríku lífi, eins og þær virðast svo sannarlega hafa gert.
Samkvæmt Juliu er kúltúrinn okkar þannig þræddur að þessar vitru konur verða ósýnilegar með aldrinum og það sést hvorki í þeim né heyrist, sem henni finnst mikil skömm af. „Við erum að missa af svo mikilli þekkingu og reynslu frá svo stórum hluta samfélagsins,“ lýsir hún. Þetta er fyrsta hlaðvarp sem leikkonan stjórnar og kemur út vikulega. Í einum þættinum sest hún niður með og fær að læra af Fran Lebowitz, 72 ára rithöfundi, og samkvæmt Juliu, „legendi“. Fran gefur henni góð ráð um það hvernig sé best að plotta um hefnd, vera léleg kærasta og forðast nútímatækni. 76 ára tísku ækonið Diane Von Furstenberg segir henni hvernig hún hefur alltaf hlakkað til að eldast og hvernig mamma hennar kenndi henni frá unga aldri að vera óttalaus.
Athugasemdir