Þingmenn gagnrýndu hvalveiðar í dag í kjölfar nýrrar skýrslu Matvælastofnunar um veiðar síðasta sumars. Hlutverk MAST er að hafa eftirlit með veiðunum. Niðurstöður skýrslunnar sýndu að lög um markmið dýravelferðar voru ekki uppfyllt. Þar kom einnig fram að 24 prósent hvala voru skotnir oftar en einu sinni.
Orri Páll Jóhannsson þingmaður Vinstri grænna sagði atvinnugreinina ekki eiga heima í nútímasamfélagi. „Það að skjóta hvali af færi með skutli fylltum sprengiefni er eins og stunda veiðar með flugskeyti. Þvílíkt offors og til hvers? Til að selja hvalkjöt á örmarkaði úti í heimi? Það er alveg ljóst í mínum huga að hvalveiðar eigi ekki upp á pallborðið í nútímasamfélagi og með þessi gögn til grundvallar verðum við að hafa alvöru þrek til að ræða þessi mál til hlítar.“
Niðurstaða skýrslunnar sýnir að meðferð á hvölum stenst ekki markmið um velferð dýra og stóð matvælaráðherra Svandís Svavarsdóttur fyrir svörum á Alþingi í gær um hvort að hvalveiðar yrðu leyfðar í sumar.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir þingmaður Viðreisnar sagði ríkisstjórnina ekki taka neinar ákvarðanir. „Helsta vörumerki þessarar ríkisstjórnar er að hún tekur engar ákvarðanir. Ráðherrar birtast sem álitsgjafar í fjölmiðlum og lýsa yfir áhyggjum. Svo gerist ekkert. Þetta kalla þau síðan gjarnan stöðugleika.“
Þingmaður kallaði eftir að ákvörðun yrði tekin og sagði almannahagsmuni, dýravelferð og umhverfishagsmuni vera undir. „65% Íslendinga telja að hvalveiðar hafi neikvæð áhrif á orðspor landsins. Dýrin þjást lengi eftir sprengiskutlana og síðast en ekki síst er þetta umhverfismál. Hvalir búa yfir þeim magnaða hæfileika að binda kolefni sem nemur um 1.500 trjám á líftíma sínum.“
Í gær sagði Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra að tilefni væri til að spyrja um hvort að hvalveiðar tilheyrðu fortíð eða framtíð. Þorbjörg Sigríður lauk sinni ræðu í pontu í dag með annarri spurningu: „Stóra spurningin er auðvitað miklu frekar þessi, tilheyrir þessi ríkisstjórn fortíð frekar en framtíð?“
Athugasemdir