Á þessum hátíðardegi er tilvalið að árétta kröfu um að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um áframhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið, en fyrr í dag birtist ný könnun þar sem fram kemur að ríkur meirihluti landsmanna vill fá slíka þjóðaratkvæðagreiðslu og er það mikil aukning frá síðustu könnun sem framkvæmd var fyrir hálfu ári.
Almenningur finnur kröftuglega fyrir áhrifum þess að vera hér með sjálfstæða peningastefnu og örgjaldmiðil sem veldur óðaverðbólgu og stýrivöxtum sem þekkjast hvergi í nágrannaríkjum. Vegna EES-samstarfsins sem við tökum þátt í sem fullvalda ríki er á Alþingi verið að samþykkja ýmiskonar regluverk sem samþykkt hefur verið í sameiginlegu EES-nefndinni, regluverk sem hefur fengið ítarlega vinnu í Evrópusambandinu sjálfu, þar sem aðildarríkin koma með sínar ábendingar vegna sérstakra aðstæðna sinna og annarra álitaefna.
Þar erum við hins vegar ekki við borðið. Við erum með nokkur skonar aukaaðild en það skiptir engu að síður miklu máli að við tökum fullan þátt í EES-samstarfinu með hagsmuni okkar að leiðarljósi. Á undanförnum árum hefur verið bætt í hagsmunagæslu okkar en að mínu áliti færi betur á fullri aðild, til hagsbóta fyrir almenning á Íslandi, fólk og fyrirtæki. Við megum ekki gleyma að EES-samstarfið inniber regluverk í þágu almennings. Regluverk sem tryggir lágmarksréttindi fyrir okkur, en aðildarríkjunum er svo í sjálfsvald sett að auka við rétt sinna borgara. Ríkjum er hins vegar ekki heimilt að skerða þennan rétt og hefur það verið ágreiningsefnið fyrir EFTA-dómstólnum sem og hjá eftirlitsnefnd ESA þar sem borgarar hafa talið ríkið fara á svig við réttindi borgaranna.
En í tilefni dagsins vil ég fagna meirihlutavilja þjóðarinnar og tek undir þann vilja því við eigum að stíga skrefið og spyrja eftirfarandi spurningar:
„Vilt þú að Ísland taki upp þráðinn í viðræðum við Evrópusambandið með það að markmiði að gera aðildarsamning sem borinn yrði undir þjóðina til samþykktar eða synjunar?“
„Við verðum að spyrja þjóðina um áframhaldandi viðræður við Evrópusambandið og það skulum við gera sem fyrst.“
Ég hef fullan skilning á vantrú á að stjórnvöld virði niðurstöður slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu, enda höfum við reynslu af hvernig farið var með niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar um nýju stjórnarskrána árið 2012. Engu að síður tel ég okkur verða að fara þá leið og með henni þurfum við að tryggja að minnihlutinn geti ekki í krafti valds virt slíkan þjóðarvilja að vettugi. Við verðum að spyrja þjóðina um áframhaldandi viðræður við Evrópusambandið og það skulum við gera sem fyrst.
Það er virkilega ánægjulegt að finna síaukinn stuðning almennings við þjóðaratkvæðagreiðslu en ekki síður að sjá að stuðningur landsmanna við aðild Íslands að Evrópusambandinu hefur aldrei mælst meiri eða nærri 60% þeirra sem tóku afstöðu í áðurnefndri könnun Maskínu. Þá þróun er einnig að finna í öðrum EES ríkjum þessi misserin og yfir því gleðst ég.
Tökum skrefið – spyrjum þjóðina.
Til hamingju með Evrópudaginn.
Höfundur er þingmaður Samfylkingar og stjórnarmaður í Evrópuhreyfingunni.
Athugasemdir