Samfylkingin mælst nú með 27,8 prósent fylgi samkvæmt nýjast Þjóðarpúlsi Gallup. Flokkurinn hefur ekki mælst með meira fylgi síðan í maí 2009, eða skömmu eftir bankahrunið og kosningarnar sem haldnar voru í kjölfar þess. Þá var Samfylkingin nýsest í ríkisstjórn undir forsæti Jóhönnu Sigurðardóttur.
Alls hefur fylgi flokksins aukist um 17,9 prósentustig frá síðustu kosningum og rúmlega tvöfaldast síðan að Kristrún Frostadóttir tilkynnti framboð sitt til formanns síðla sumars í fyrra. Hún tók svo við formennsku í flokknum í lok október.
Ríkisstjórnarflokkarnir þrír: Vinstri græn, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, hafa allir tapað mælanlegu fylgi frá síðustu kosningum. Sameiginlegt fylgi þeirra þriggja mælst nú 38,1 prósent en þeir fengu 54,3 prósent í kosningunum í september 2021. Flokkarnir þrír sem halda um stjórnartaumana hafa því tapað 16,2 prósentustigum frá því að kosið var síðast. Sameiginlegt fylgi þeirra hefur aldrei mælst minna síðan að þeir tóku fyrst við síðla árs 2017.
Sama er að segja um stuðning við ríkisstjórnina. Hann mælist nú 39 prósent, og er það í fyrsta sinn sem hann fer undir 40 prósent síðan að ríkisstjórnin tók við fyrir fimm og hálfu ári síðan. Í fyrstu mælingu ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, sem birt var í desember 2017, sögðust 74,1 prósent styðja ríkisstjórnina.
Vinstri græn hafa næstum helmingast
Vinstri græn, flokkur forsætisráðherra, hefur næstum helmingast það sem af er kjörtímabili. Þau fengu 12,6 prósent í síðustu kosningum en mælast nú með 6,6 prósent fylgi. Það er minnsta fylgi sem Vinstri græn hafa nokkru sinni mælst með í könnunum Gallup, sem ná aftur til ársins 2004. Flokkurinn mælist nú sjötti stærsti flokkurinn á þingi, en bæði Miðflokkurinn og Flokkur fólksins eru rétt á hæla hans með 6,2 og 6,0 prósent fylgi.
Sá flokkur sem hefur tapað mestu fylgi það sem af er kjörtímabili er þó Framsóknarflokkurinn. Hann mælist nú með 9,6 prósent og og í fyrsta sinn úr tveggja stafa tölu í mælingum Gallup frá því að kosið var síðast í marsmánuði. Fylgi Framsóknar hefur ekki mælst minna síðan í janúar 2021. Flokkurinn fékk 17,3 prósent í síðustu kosningum.
Sjálfstæðisflokkurinn er sá stjórnarflokkur sem tapar minnstu fylgi á stjórnarsetunni. Alls segjast 21,9 prósent styðja flokkinn, sem er 2,5 prósentustigum minna en hann fékk í síðustu kosningum. Sjálfstæðisflokkurinn hafði mælst stærsti flokkur landsins í öllum könnunum Gallup frá haustinu 2017 og fram að síðustu áramótum. Í byrjun yfirstandandi árs tók Samfylkingin fram úr honum og síðan þá hefur dregið verulega á milli flokkanna tveggja. Nú mælist forskot Samfylkingarinnar á næst stærsta flokkinn 5,9 prósentustig.
Átta flokkar mælast inni
Píratar mælast nú með tíu prósent fylgi, sem er aðeins meira en flokkurinn fékk í síðustu kosningum, þegar 8,6 prósent landsmanna kusu hann. Miðflokkurinn er sömuleiðis aðeins að hressast og mælist rétt yfir kjörfylgi með 6,2 prósent.
Viðreisn tapar fylgi milli mánaða og mælist með 7,4 prósent stuðning, sem er minna en flokkurinn fékk í síðustu kosningum. Flokkur fólksins mælist svo með sex prósent fylgi sem er 2,9 prósentustigum minna en hann fékk í september 2021.
Sósíalistaflokkur Íslands er sá eini þeirra níu flokka sem mælast með fylgi sem nær ekki yfir fimm prósent múrinn, en fylgi hans mælist nú 4,4 prósent. Það er við kjörfylgi hans frá síðustu kosningum.
Könnunin var gerð 3. apríl til 1. maí. Heildarúrtak var tæplega 9.916 manns og tóku 48,7 prósent þátt.
"Skila lyklunum" sagði Bjarni Ben við svipaðar aðstæður - þá í stjórnarandstöðu.