Norskur eigandi íslenska laxeldisfyrirtækisins Arnarlax á Bíldudal óttast að tími opinna sjókvía á Íslandi sé hugsanlega senn á enda. Þetta kemur fram í ársreikningi norska félagsins Salmar AS fyrir árið 2022 sem birtur var opinberlega í dag. Ástæðan fyrir því að norska fyrirtækið hefur áhyggjur af þessu er sú að umræðan um opnar sjókvíar er orðin gagnrýnin, meðal annars í Kanada.
„Fyrirtækið telur að það sé meðbyr með því að gefa sjálfbæru laxeldi á Íslandi tækifæri til að vaxa.“
Um þetta segir í ársreikningi Salmar: „Opnum sjókvíum Salmar gæti staðið ógn af því ríkisvaldið í Noregi og á Íslandi myndi ákveða að breyta fiskeldisstrategíu sinni þannig að að hún byggi bara á lokuðum kvíum. Þessi hætta er raunveruleg í ljósi þeirrar umræðu sem verið hefur um þetta í Kanada.“
Salmar er leiðandi í heiminum í þróun á aflandseldi
Í ársreikningum er rakið hvernig Salmar AS ver umtalsverðum fjármunum í það að þróa lausnir í aflandseldi á laxi samhliða því að laxeldi í sjókvíum, eins og fyrirtækið stundar á Íslandi á undir högg að sækja. Aflandseldi á laxi gengur út á það að þróa lausnir í fiskeldi þar sem ræktun hans fer fram úti á hafsjó, fjarri ströndum landa, laxveiðiám og grunnu hafsdýpi, sem myndi koma í fyrir þau slæmu umhverfisáhrif sem yfirleitt eru gagnrýnd við sjókvíaeldið. Fyrirtækið segist í ársreikningnum vera leiðandi í því í heiminum að þróa slíkt aflandseldi.
Um þetta segir í ársreikningnum: „Þróunin á laxeldi úti á hafsjó er mikilvægur hluti af þeirri strategíu Salmar að vöxtur í laxeldi og framleiðsla sé sjálfbær. [...] Úti á rúmsjó væri hægt að auka framleiðsluna og verðmætasköpunina, á sama tíma og ýtt verður undir tæknilega framþróun og hægt verður að opna fyrir fjölmargar nýjar leiðir í framleiðslu á laxi í náttúrulegu umhverfi hans.“
Eitt af því sem vekur athygli í þessum orðum Salmar er að fyrirtækið undirstrikar mikilvægi þess að vöxtur í laxeldi í heiminum verði „sjálfbær“. Fyrirtækið undistrikar að þessi auknu vöxtur verði örugglega frekar sjálfbær á hafi úti frekar en í sjókvíum.
Þessi orð eru í samræmi við það sem fyrrverandi stjórnarformaður Salmar AS, Atle Eide, hefur sagt opinberlega. Hann hefur spáð því að sjókvíaeldi eins og það er þekkt í dag verði ekki stundað lengur árið 2030.
Stefna á vöxt á Íslandi og gera kaupréttarsamninga
Á sama tíma og Salmar AS setur aukið púður og peninga í þróunina á aflandseldi þá stefnir fyrirtækið líka á aukinn vöxt í sjókvíaeldi á Íslandi í gegnum Arnarlax. Í ársreikningnum kemur fram að Arnarlax eigi leyfi fyrir framleiðslu á 23.700 tonnum af eldislax á Íslandi á ári og hafi sótt um frekari leyfi í Ísafjarðardjúpi og í Arnarfirði.
Svo segir um stöðu sjókvíaeldis á Íslandi: „Aðstæður fyrir laxeldi á Íslandi hafa batnað eftir að hafa verið frekar óútreiknanlegar í mörg ár. Arnarlax heldur áfram að eiga í virku og uppbyggilegu samtali við stjórnvöld á Íslandi varðandi þessi mál. Fyrirtækið telur að það sé meðbyr með því að gefa sjálfbæru laxeldi á Íslandi tækifæri til að vaxa.“
Þannig að staðan er sú, miðað við þetta, að Salmar og Arnarlax vonast til að geta notað af hagnaðinn af sjókvíaeldinu sem það stundar á Íslandi - framleiðsluaðferð sem fyrirtækið veit að er á útleið sem slík - til að þróa nýjar og sjálfbærari aðferðir til að framleiða eldislax.
Í ársreikningnum kemur enn fremur fram að Salmar hafi gert kaupréttarsamninga við stjórnendur Arnarlax í lok árs 2021. Samningarnir voru virði 5,3 milljóna norskra króna í lok árs í fyrra, eða tæplega 70 milljóna króna.
Áður hefur komið fram að Salmar hafi lánað stjórnarformanni Arnarlax, Kjartani Ólafssyni, háar fjárhæðir til að kaupa hlutabréf í fyrirtækinu í gegnum eignarhaldsfélag sitt, Gyðu ehf.
Slíkir kaupréttarsamningar og lánveitingar byggja á því að Arnarlax muni stækka og virði félagsins muni aukast með útgáfu aukinna leyfa til framleiðslu á eldislaxi í sjókvíum.
Athugasemdir