Sjónvarpsmaðurinn Tucker Carlson er hættur störfum hjá bandarísku sjónvarpsstöðinni Fox News. Frá þessu segir í yfirlýsingu sem birt var á vef útgáfufélagsins Fox News Media í dag, en þar segir að Fox og Carlson hafi komist að samkomulagi um að hann láti af störfum.
Þar kemur fram að hann hafi stjórnað sínum síðasta þætti á Fox News síðasta föstudag. Þátturinn hans, Tucker Carlson Tonight, hefur um árabil verið einn vinsælasti þátturinn í sjónvarpi vestanhafs og Carlson samhliða því orðið einn áhrifamesti fjölmiðlamaður Bandaríkjanna, en hann hafði starfað á Fox News allt frá árinu 2009.
Hann hefur jafnvel verið orðaður við forsetaframboð á næsta ári, en hefur neitað því að hafa í hyggju að reyna að nýta vinsældir sínar af skjánum til þess að verða frambjóðandi Repúblikanaflokksins í kosningunum.
Engin ástæða er gefin fyrir brotthvarfi Carlson í tilkynningunni frá Fox. Fyrr í mánuðinum ákvað Fox að greiða fyrirtækinu Dominion, sem framleiðir kosningavélar sem m.a. eru notaðar í Bandaríkjunum, 787,5 milljónir bandaríkjadala sáttagreiðslu til að ljúka málsókn Dominion á hendur fjölmiðlafyrirtækinu.
Dominion höfðaði mál gegn Fox sökum þess að þáttastjórnendur og gestir á Fox, Carlson þeirra á meðal, endurtóku ítrekað að kosningavélarnar frá Dominion hefðu verið misnotaðar í þágu Joe Biden gegn Donald Trump í forsetakjörinu sem fram fór árið 2020.
Dómskjöl sem fjallað var um í tengslum við málið sýndu að þáttastjórnendur sjálfir, Carlson þeirra á meðal, höfðu litla trú á kenningum í þá veru, þrátt fyrir að varpa þeim áfram til milljóna áhorfenda heima í stofu.
Athugasemdir (2)