Ex
Leikmynd og búningar Nina Wetzel
Lýsing Björn Bergsteinn Guðmundsson
Tónlist Gísli Galdur Þorgeirsson
Hljóðhönnun Gísli Galdur Þorgeirsson, Aron Þór Arnarsson
Fjórar stjörnur
Þjóðleikhúsið: Ex
Höfundur: Marius von Mayenburg
Þýðing: Bjarni Jónsson
Leikstjórn: Benedict Andrews
Leikmynd og búningar: Nina Wetzel
Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson
Tónlist: Gísli Galdur Þorgeirsson
Hljóðhönnun: Gísli Galdur Þorgeirsson, Aron Þór Arnarsson
Leikarar: Nína Dögg Filippusdóttir, Gísli Örn Garðarsson, Kristín Þóra Haraldsdóttir, Sesselja Katrín Árnadóttir
Ex er annar hluti þríleiksins sem nefnist einfaldlega Mayenburgþríleikurinn eftir höfundinum, Mariusi von Meyenburg, sem talinn er ein skærasta stjarnan á leikhúshimni Evrópu um þessar mundir. Nokkur verka hans hafa ratað á íslensk leiksvið og notið þónokkurra vinsælda.
Líkt og Ellen B., sem er fyrsta verkið í þríleiknum, er um að ræða kammerverk með þremur leikurum og notast er við sömu leikmynd, upphækkun á meginsvæði stóra leiksviðs Þjóðleikhússins með ljósferningi yfir hvítum tungusófa. Leikmunir einskorðast við vínflöskur, glös og tuskudúkku, rétt eins og í Ellen B., en ósagt skal hvort hugsun liggi þar að baki – nema tuskudúkkur geta verið býsna sterk tákn um barnið sem leitar sér huggunar og það er að finna hér í hinni sjarmerandi Betu, sem leikin er af Sesselju Katrínu Árnadóttur. Hún birtist af og til á sviðinnu líkt og áminning um það sem verður útundan og vanrækt þegar foreldrarnir – hér Sylvia, leikin af Nínu Dögg Filippusdóttur og Daniel, leikinn af Gísla Erni Garðarssyni – geta ekki sæst við fortíð sína.
Fortíðin birtist í mynd Fransisku. Hún er leikin af Kristínu Þóru Haraldsdóttur, hún og Daniel voru par endur fyrir löngu og þegar hún birtist allsendis óvænt og telur sig ekki hafa í nein önnur hús að venda eftir að hún skildi við mann sinn er búið að henda púðri á eld sem kveiktur er í fyrsta atriði leiksins. Það er óborganlegt atriði þar sem þau Nína Dögg og Gísli Örn fara á kostum í passív-agressívu samtali þar sem ásakanir og afsakanir ganga á víxl og ekki annað að heyra en að áhorfendur könnuðust við samtalstóninn. Greinilegt að Marius von Meyenburg hittir hér á samræðutón sem einkennir sambönd nútímamanna og þau Nína Dögg og Gísli Örn fanga þann tón óaðfinnanlega og skila sálarástandi þessara vonsviknu hjóna af slíkri fimi að unun er á að horfa.
Og birtist þá ormurinn í paradísinni og biður um húsaskjól og það er fullljóst að hún er enginn aufúsugestur. Nú fer af stað uppgjör sem getur varla endað nema með skelfingu, en hér skal ekki sagt í hverju sú skelfing felst – það er einfaldlega óhætt að mæla með því að hver og einn sjái sjálfur það leikhúslega máttarverk sem boðið er upp á í Þjóðleikhúsinu.
„Þau bókstaflega dansa á barmi örvæntingar og leikur þeirra heldur áhorfanda föngnum frá upphafi til enda.“
Samtölin eru lipur og textinn lætur vel í munni; hér hefur leikstjóra tekist það sem tókst ekki fullkomlega í fyrsta þríleiknum, Ellen B., sem er að láta sýninguna hæfa sviðinu. Nú er flekinn nýttur á þann hátt sem þjónar sögunni, ljósaferningurinn sömuleiðis. Þá er tónlist Gísla Galdurs og hljóðmynd hans og Arons Þórs Arnarsonar afskaplega grípandi og styður við þá dramatísku spennu sem smám saman magnast. Svipað má segja um lýsingu Björns Bergsteins sem notar ljósaferninginn yfir sviðinu til að magna hughrif og þoka sögunni áleiðis.
En umfram allt eru það þau Nína Dögg, Gísli Örn og Kristín Þóra sem vinna leiksigur og fullt erindi að drífa sig í leikhús til að sjá framúrskarandi leik. Þau bókstaflega dansa á barmi örvæntingar og leikur þeirra heldur áhorfanda föngnum frá upphafi til enda. Þau þrjú, ásamt höfundi og leikstjóranum Benedict Andrews, skapa minnisstæða og framúrskarandi stund sem sýnir hvers leiklistin er megnug.
Athugasemdir