Fólk á þvælingi um miðbæ Reykjavíkur notar föt til að tjá tilfinningar sínar, staðfesta stöðu sína gagnvart öðru fólki og í sumum tilfellum til að lifa umhverfisvænni lífsstíl. „Ég fer í fötin sem mér finnst lýsa því best hvernig mér líður, hvernig ég er upplögð þann dag,“ segir ung kona í Austurstræti einn gráan morgun í maí.
Fræðafólk hefur lengi rannsakað hvers vegna fólk klæðir sig á einn hátt en ekki annan og hvaða þýðingu það hefur. Kenning Erving Goffmans um leiksviðið má skilja þannig að föt séu leikmunir sem við notum til að setja okkur í hlutverkið sem okkur er ætlað að leika í félagslegum aðstæðum. Við notum föt til þess að reyna að stjórna hvaða áhrif við höfum á aðra. Útlit er það fyrsta sem fólk sér þegar það hittir fólk, og fyrir vikið það fyrsta sem fólk er dæmt út frá.
„Stundum vakna ég og það er bleikur dagur“
Emma-Line er listakona. Hún segir tísku vera listform og notar föt meðvitað til þess að tjá tilfinningar sínar.
„Föt eru leið fyrir mig til að tjá það sem gerist innra með mér, nema þegar ég er þreytt, hlutirnir eru í rugli og ég hef ekki tíma fyrir það. Venjulega elska ég að geta gefið mér tíma til að tjá hvernig mér líður. Við getum skreytt okkur á persónulegan hátt með fötum. Þú getur tjáð alls konar tilfinningar og umbreytt þér, hugsað; núna ætla ég að vera ósýnileg eða vera mjög áberandi. Ef þú ert meðvituð um fötin þín geta þau haft áhrif á hvernig aðrir koma fram við þig.“
Fataval Emmu-Line fer að stórum hluta eftir líðan hennar. „Stundum vakna ég og það er bleikur dagur.“
Stéttaskipting undirstaða tísku
Aðspurð segir Emma-Line að föt gefi gjarnan vísbendingu um hvaða stétt fólk tilheyrir í samfélaginu, en ekki sé hægt að ganga út frá því sem vísu. Að hennar mati endurspegla föt frekar gildi og persónulegt líf þess sem klæðist þeim.
„Þú getur verið með lág laun en lagt mikið upp úr vönduðum dýrum flíkum og átt nokkrar slíkar. Auðvitað getur maður alltaf séð það að einhverju leyti. Ég þekki af eigin reynslu að fara í gegnum tímabil þar sem ég lifi mjög stöðugu lífi og það sést á því hvernig ég klæði mig.“
Félagsfræðingurinn Georg Simmel setti fram kenningu um hvernig fólk notar föt til að aðgreina sig frá öðrum. Það gera meðlimir efri stétta samfélaga í þeim tilgangi að aðgreina sig frá efnaminna fólki með lægri stöðu. Að mati Simmel er stéttaskipting og tilurð samfélagshópa undirstaða tísku. Lægri stéttir herma eftir tísku hinna ríku. Efri stéttin gerir nýjar vörur vinsælar í þeim tilgangi að takmarka aðgengi að því sem þykir flottast og viðhalda þannig stöðu sinni.
„Fólk í efri stéttum reynir oft að klæða það af sér“
Félagsfræðingurinn Arnar Eggert Thoroddsen segir það hafa merkingu hvernig þú klæðir þig: „Föt eru yfirlýsing, sjálfsmyndarpæling, skilaboð. Þau eru hluti af bæði einstaklingsbundnum stíl en eru aðallega tilraun til að tilheyra. Við erum hópdýr, félagsdýr og viljum vera partur af einhverju. Við erum dauðhrædd um að vera skilin útundan.“
Á meðan sumir reyna að tilheyra hópi með fatavali sínu, elta aðrir tískubylgjur og enn einn hópurinn hefur algjörlega sjálfstæðan stíl. Aðspurður hver munurinn sé á þessu segir Arnar Eggert: „Það er munur á að fylgja tísku og að hafa stíl. Þú getur verið mjög kúl með þinn eigin stíl og það er vanalega fólkið sem hrindir af stað tískubylgjum.“
Algengt er að efnaminna fólk hermi eftir fatastíl efri stétta, til dæmis með því að kaupa sér eftirlíkingar af merkjavörum. Arnar Eggert bendir þó á að efnameira fólk geti einnig notað tísku til að samsama sig lægri stéttum. „Fólk í efri stéttum reynir oft að klæða það af sér og vill blandast inn með okkur.“
Í umfjöllun BBC um málið var vitnað í orð búningahönnuðar fyrir sjónvarpsþættina Industry sem sagði í viðtali við Vogue að því ríkari sem einstaklingur væri, því erfiðara væri að sjá það. „Síðasta manneskjan sem þú hefðir haldið að væri milljarðamæringur, er milljarðamæringurinn.“ Nýlega vakti stíll Gwyneth Paltrow í réttarsal athygli. Hún var dregin fyrir dóm vegna átaka um ábyrgð hennar á skíðaslysi, þar sem tekist var á í átta daga um sekt hennar þar til hún var að lokum fundin saklaus. Á hverjum degi var hún óaðfinnanlega til fara, í fatnaði sem einkenndist af gæðum en var lágstemmdur, í jarðlitum og góðum efnum. Merkin voru hvergi sýnileg og á samfélagsmiðlum upphófst samkvæmisleikur við að finna hvaðan fatnaðurinn væri.
Í fræðunum er talað um að nýríkt fólk sé líklegra til að sýna auð, meðal annars með því að klæða sig upp, til að auka hróður sinn og styrkja stöðu sína í samfélaginu. Aftur á móti sé fólk sem sé vant því að eiga peninga ekki eins ginnkeypt fyrir því, vegna þess að það þarf ekki að sýna þá.
Arnar Eggert segir suma hópa klæða sig út frá pólitískum sjónarmiðum, en undanfarin ár hafa fleiri búðir með notuðum fötum skotið rótum í miðbæ Reykjavíkur. „Hlutir koma hraðar inn í tísku og detta hraðar úr tísku. Þá erum við komin út í kapítalismann. Þessi stóru tískuhús nýta sér samfélagsmiðla til að koma hlutunum út og svo kemur þetta mótsvar.“
Klæðir sig til að líta vel út
Gauti er þrítugur flugþjónn. Hann klæðir sig til þess að líta vel út, bæði fyrir aðra og sjálfan sig. Þegar Gauti vaknar á morgnana og ákveður hverju hann klæðist er það veðrið sem ræður för. „Ég hugsa ekki neitt, ég vel bara fötin. Ég hef aldrei pælt í því. Bara, þetta er kúl í dag. Það er náttúrlega aðallega veður sem spilar inn í það.“
„Bill Gates, hann klæðir sig bara eins og einhver plebbi“
Gauti telur ríkt fólk ekki klæða sig öðruvísi en annað fólk. „Nei, mér finnst það ekki. Adam Sandler er bara í stuttum stuttbuxum og víðum bol. Bill Gates, hann klæðir sig bara eins og einhver plebbi.“ Aðspurður hverjir séu að kaupa merkjavörur segir Gauti að það sé ekkert endilega ríka fólkið. „Mamma á Gucci og hún er ekkert eitthvað sérstaklega rík.“ Hann bætir við: „Þú getur líka bara keypt feik ef þú vilt lúkka eins og eitthvert Gucci-módel.“
Einkennisbúningurinn
Heimspekingurinn og sálfræðingurinn George Herbert Mead taldi fólk mynda sjálfsmynd sína í gegnum samskipti við annað fólk. Með auknum þroska áttar fólk sig á því hvert hlutverk þeirra er í hverjum aðstæðum og hvers er vænst af því.
Flestir gegna fleiri en einu hlutverki í lífinu og eru til dæmis foreldrar, makar, vinir og yfirmenn. Aðrir eru unglingar, systkini og bekkjarfélagar. Þessum hlutverkum fylgja ólíkar væntingar og þar af leiðandi mismunandi einkennisbúningar. Yfirmaðurinn í bankanum klæðist líklega ekki sömu fötum með vinkonum sínum og þegar hún situr í fundarstólnum í vinnunni. Staða hennar í þessum tveimur ólíku aðstæðum kalla á hvor sinn einkennisbúninginn.
„Mamma á Gucci og hún er ekkert eitthvað sérstaklega rík.“
Í vinnunni klæðist Gauti einkennisbúning og fer þá í annað hlutverk. „Þá er ég Gauti flugþjónn. Ég er ekki lengur Gauti afslappaði.“ Hann bætir við: „Það er meira svona … í vinnunni þá ferðu svona í spes gír.“
„Eins og að heimsækja dýr í dýragarði“
Elinor er 27 ára listakona frá borginni Cork á Írlandi. Það skiptir hana máli hverju hún klæðist. „Ég er listakona þannig að þegar ég er í stúdíóinu klæðist ég stórum vinnugalla til þess að vernda fötin mín. Áður fyrr vann ég á skrifstofum þar sem ég klæddi mig öðruvísi því að þar voru ákveðin viðmið um föt.“
Um einkennisbúning sinn, vinnugallann, segir Elinor: „Það lætur mér líða eins og listakonu. Stundum þegar listafólk opnar stúdíóin sín fyrir almenningi er það eins og að heimsækja dýr í dýragarði. Það kemur fyrir að ég fari í vinnugallann ef ég held að einhver eigi leið hjá stúdíóinu, því að ég vil að viðkomandi sjái að ég er listakona,“ segir hún.
„Ætli þetta sé ekki bara partur af minni tjáningu sem einstaklingur. Föt hafa meira en bara notagildi. Þau eru eins og allt annað sem þú notar til að tjá þig, tónlistin sem þú hlustar á eða kvikmyndirnar sem þú horfir á. Þetta snýst alltaf um að finna út úr því hver þú ert og að koma því áleiðis til annars fólks.“
Aðlaðandi foreldrar í Reykjavík
Í heimsókn sinni á Íslandi hefur Elinor tekið eftir því hve glæsilegir ungir foreldrar eru til fara. „Ég hef tekið eftir nokkrum mjög vel klæddum og aðlaðandi foreldrum úti að ganga með barnavagna. Þau eru óaðfinnanleg, sem er frekar fyndið því að ef ég eignast sjálf börn þá mun ég ekki líta svona út.“
„Þau eru óaðfinnanleg sem er frekar fyndið því að ef ég eignast sjálf börn þá mun ég ekki líta svona út.“
Annars segist hún sjá sömu áherslur hér og annars staðar: „Reykjavík er eins og hver önnur evrópsk höfuðborg. Þú sérð það sem er í tísku annars staðar í Evrópu. Fólk er mjög hreinlegt til fara og kannski er skandinavíska tískan svolítið hér. Cork er sömu stærðar og Reykjavík, en fólk klæðir sig meira eins og á Englandi, þar sem fólk er aðeins skrítnara.“
„Ekkert rosalega mikið taumhald“
Vitund fólks um tísku er mismikil. Sumir leggja mikið upp úr því að senda öðrum skilaboð með fatavali sínu á meðan aðrir gefa því lítinn gaum.
Einar er að verða 17 ára gamall og pælir ekki í því hvaða skilaboð föt hans senda til annars fólks. Honum finnst flestir leita í sömu föt þessa dagana. „Ég held að normið í dag sé meira þannig að fólk sé að leita eftir sama stílnum.“
Þegar Heimildin náði tali af Einari var hann staðsettur fyrir utan tískubúð í Reykjavík sem selur notuð föt. „Ég held að fólk sé líka mikið að hugsa um hvað sé umhverfisvænt og hvað sé ekki umhverfisvænt. Það eru einmitt að koma svona búðir þar sem þú ert að nota efni aftur.“
Hann reynir sjálfur að versla umhverfisvænar vörur. Aðspurður hvers vegna, segir Einar: „Af því að það tekur svo mikla orku og mikið vatn að búa til nýtt tau eða efni.“
„Mér finnst eins og það sé ekkert rosalega mikið taumhald ef maður brýtur reglur.“
Samkvæmt Einari eru reglur um hvernig megi klæða sig í samfélaginu en litlar afleiðingar sé þeim ekki fylgt. „Mér finnst eins og það sé ekkert rosalega mikið taumhald ef maður brýtur reglur. Ég held að fólki sé meira og minna sama eftir að þú ert búinn að brjóta þær.“ Sjálfur var hann ekki brjóta neinar samfélagslegar reglur með þeim fötum sem hann klæddist á myndinni, segir hann.
„Hafa efnin eins og það sé búið að nota þau“
Sigríður Ágústa Finnbogadóttir fatahönnuður segir að aukin umhverfisvitund sé byrjuð að hafa áhrif á tískuheiminn. „Hönnuðir keppast við að finna leiðir til að gera hlutina betur. Það vilja allir gera það en í sumum tilfellum kostar það mjög mikið.“ Sigríður bendir á að metraverðið á endurunnu pólýester kosti töluvert meira en nýtt pólýester.
„Það er engin ein lausn á vandanum. Það hafa verið ótrúlega miklar framfarir síðustu fimm ár, bæði nýjungar í efnum og vinnslu. Maður sér að það er eitthvað að gerast en það er svo mikið eftir.“
Sigríður segir tónlistarhátíðir eins og Coachella setja tóninn fyrir sumarið. Í ár mátti sjá áhrif endurvinnslu og endurnýtingar í tískunni. Mikið var um heklaðar og handgerðar flíkur en líka notuð gallaefni. „Hönnuðir eru alveg að passa upp á að hafa áferðina og efnisgerðina þannig að fötin líti út fyrir að vera notuð,“ segir Sigríður.
Sigríður hefur hannað föt fyrir söngkonuna Bríeti. Fatahönnuðurinn segir val á sviðsfötum skipta tónlistarfólk miklu máli. „Á tónlistarhátíð hefur þú kannski bara 40 mínútur til að heilla og það fyrsta sem áhorfendur sjá er hvernig þú lítur út. Við sjáum tónlistarmanninn og hljómsveitina áður en við heyrum þau spila.“
Þá segir hún í tísku að hafa eigin fatastíl. „Það er eins og fólk sé að leggja aukna áherslu á að vera með sinn eigin stíl og fylgja honum.“
„Stór hluti af því að kynnast nýju fólki“
Þar sem viðhorf okkar í garð annars fólks mótast töluvert af okkar fyrstu kynnum við manneskjuna gegna föt lykilhlutverki. Fataval getur því skipt sköpum þegar kemur að atvinnuviðtölum, stefnumótum og öðrum tilfinningaþrungnum viðburðum. Margir muna eflaust eftir þáttaröðinni Ugly Betty en þar er einmitt tekist á um hve stórt hlutverk tískuvit á að spila í velgengni ungrar konu á vinnumarkaði.
Andrea er 17 ára og á leið í Tækniskólann í haust að læra fatatækni. Hún segir það skipta sig mjög miklu máli hvaða fötum hún klæðist, því að þannig sjái annað fólk hver hún er. „Mér finnst það vera stór hluti af því að kynnast nýju fólki og svoleiðis. Að fólk sjái að maður er í góðum fötum,“ útskýrir hún. „Ég bara fer í fötin sem mér finnst lýsa því best hvernig mér líður, hvernig ég er þann dag.“
Andrea segir reglur vera til um hvernig við megum klæða okkur. „Já, alveg hundrað prósent. Ef fólk myndi klæðast sumum hlutum þá væru alltaf allir að hugsa hvernig manneskjan lítur út.“
„Gæti ekki sagt hvort þú værir góð eða slæm manneskja“
Blaðakona spurði vegfarendur hvort föt hennar gæfu vísbendingar um persónuleika hennar.
Emma-Line sagði: „Ég myndi halda að það skipti þig miklu máli hvernig þú lítur út í fötunum þínum og hvaða mynstri og efni þú klæðist. Mín ágiskun er að þú eigir ekki mjög erfitt fjárhagslega. Þú ert líklega örugg innan þinnar fjölskyldu og samfélagsins þó ég geti ekki verið fullviss um það. Og hefur nægilega mikið fjárhagslegt frelsi til að velja hverju þú klæðist.“
Hvorki Gauti né Einar segjast geta giskað á persónueinkenni út frá fötunum. Gauti segir þó að það sjáist á fatavalinu að kalt sé úti. Elinor segir: „Mjög tískulegt, mér líkar vel við feldinn. Þú hugsaðir þig augljóslega um í morgun hverju þú ætlaðir að klæðast. En ég er ekki viss. Ég gæti ekki sagt hvort þú værir góð eða slæm manneskja.“
Með klæðnaði mínum þennan dag vildi ég senda öðru fólki skilaboð um að ég væri einhver sem taka ætti alvarlega, að ég væri í raun og veru blaðakona. Fötin voru verndarskjöldur minn fyrir greinandi augnaráði annars fólks og mínu eigin óöryggi. Þau staðfestu fyrir sjálfri mér að ég væri hæf til að sinna mínu hlutverki.
Athugasemdir