Breski fjölmiðlamaðurinn Melvyn Bragg hefur allt frá árinu 1998 stýrt útvarpsþættinum In Our Time, sem varpað er út á BBC Radio 4. Þátturinn hefur verið einn vinsælasti þáttur stöðvarinnar allt frá þeim tíma, en í hverjum þætti kafar Bragg ofan í tiltekið sögulegt málefni ásamt þremur sérfróðum gestum, fræðimönnum á því sviði sem rætt er um.
Þættirnir, sem koma út vikulega, nálgast það brátt að verða þúsund talsins og eru allir aðgengilegir á vefsíðu BBC, auk þess sem finna má alla þætti sem hafa komið út frá árinu 2015 á hlaðvarpsveitum.
Efnistök Bragg og gesta eru margvísleg og óhætt að segja að flestir sem hafa áhuga á því að fræðast um heiminn og söguna ættu að geta haft gagn og gaman af þáttunum, sem eru um 45 mínútna langir.
Á undanförnum mánuðum hefur Bragg fengið til sín gesti til þess að ræða jafn ólíka hluti og írsku byltinguna árið 1798, jötunsteina sem menn komu fyrir hér og þar á Bretlandseyjum til forna, kvikmyndina Citizen Kane, kenningar John Rawls um réttlæti og „Fnykinn mikla“ sem stafaði af skólprennsli í Thames-ána og gerði lífið í bresku höfuðborginni nær óbærilegt sumarið 1858.
Þáttastjórnandinn Bragg er fæddur árið 1939, hóf störf á BBC árið 1961 og hefur starfað við fjölmiðla með hléum allar götur síðan. Hann hefur verið fulltrúi Verkamannaflokksins í lávarðadeild breska þingsins frá því að Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra, skipaði hann þangað inn fyrir lífstíð árið 2002.
Athugasemdir