Þann 26. júní 2015 felldi Hæstiréttur Bandaríkjanna sögulegan dóm. Jim Obergefell, lögfræðingur um fimmtugt, hafði farið í mál við James Hodges, forstjóra Heilbrigðisstofnunar Ohio-ríkis. Málið reis — ef ég skil þetta rétt — vegna þess að stofnunin neitaði að staðfesta dánarvottorð eiginmanns Obergefells, John Arthurs. Ástæðan fyrir neituninni var sú að þar var Obergefell skilgreindur eiginmaður Arthurs en hjónabönd samkynhneigðra voru þá bönnuð í Ohio-ríki, líkt og í fleiri ríkjum Bandaríkjanna.
Svo fór að Obergefell vann málið fyrir Hæstarétti og í úrskurði réttarins fólst í raun að eftirleiðis voru hjónabönd samkynhneigðra leyfileg í öllum 50 ríkjum Bandaríkjanna. Það munaði að vísu litlu, rétturinn klofnaði 5-4, en hin frjálslyndari öfl báru nauman sigur úr býtum í þetta sinn.
Áfall fyrir íhaldsöflin
Úrskurðurinn var mikið áfall fyrir íhaldsöflin í Bandaríkjunum, þau sem gjarnan kenna sig við kristindóm en virðast þó eiga undarlega erfitt með að muna 12. versið í sjöunda kapítula Matteusarguðspjalls — „Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.“ Nú, eða 31. vers tólfta kapítula Markúsar: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Því „kristindómur“ þessara íhaldsafla á meira skylt við herskáa refsigleði og smásmugulegan syndasparðatíning fokreiða guðsins í Gamla testamentinu.
Þessi íhaldssami kristindómur er eitt af virkjunum sem feðraveldið hefur reist hér á Vesturlöndum til að sporna gegn jafnréttisþrá kvenna. Hann er löngu orðinn pólitískt stórveldi og hefur síðustu áratugina þróast í leiðinni út í að verða big business, sem mokar inn peningum á ótta hinna íhaldssömu við nýjan heim.
Enginn eldur, enginn brennisteinn?
Baráttan gegn hjónaböndum samkynhneigðra hafði einmitt verið eitt helsta útvirki íhaldsaflanna vestra og samtök þeirra grætt lifandis býsn á framlögum frá þeim sem búið var að fylla af ótta við þá tilhugsun að hommar og lesbíur mættu gifta sig formlega.
Nú voru þessar giftingar ekki bara leyfðar án þess að Jave léti eldi og brennisteini rigna yfir borgirnar til að refsa fólki eins og Obergefell og Arthur, heldur var fyrsti gifti homminn aðeins örfáum árum síðar kominn í forsetaframboð og eiginlega enginn minntist þá á þann part af lífi hans, altso Pete Buttigiegs.
Í grein sem birtist í New York Times á dögunum viðurkennir talsmaður íhaldsaflanna að úrskurður Hæstaréttar 2015 hafi verið mikið högg, meðal annars peningalega. Úrskurðurinn svipti íhaldsmenn því helsta málefni sem þeir höfðu notað til að þjappa saman stuðningsmönnum — og safna pening! Þeir hófu því dauðaleit að nýju baráttumáli sem gæti stappað stálinu í jafnt stuðningsmönnum og hinum mikilvægu „donors“ eins og það er kallað í Ameríku.
Gagnsóknin hefst
„Við vissum að við yrðum að finna málefni sem frambjóðendur væru til í að taka upp á sína arma,“ sagði Terry Schilling, forseti American Principles Project, sem eru baráttusamtök íhaldsmanna. „Og við prófuðum hvað sem var.“
Það sem reyndist einfaldast fyrir íhaldsmenn að sameinast um var barátta gegn trans fólki. Í nokkra áratugi hafði trans fólk smátt og smátt verið að feta sig fram í dagsljósið. Það virtist stefna í að full og óskoruð réttindi til handa trans fólki gæti orðið næsta skrefið í mannréttindabaráttunni, alla vega á Vesturlöndum.
En 2015 hófst gagnsóknin úr virkjum afturhaldsaflanna í Bandaríkjunum. Nú skyldi hefna þess í héraði sem hallaðist á Alþingi. Á næstu misserum var farið að teikna trans fólk upp sem stórhættulegt og í besta falli stórringlað fólk sem „venjulegt“ fólk þyrfti að gæta sín á. Og eins og alltaf þegar íhaldið skipuleggur herferðir sínar, þá beitti það börnum fyrir sig.
Verndum börnin! Verndum börnin!
Það þurfti nefnilega að vernda börnin okkar fyrir skuggalegu trans fólki með skurðhnífana og hormónasprautur á lofti, sem sat um að telja blessuðum börnunum trú um að þau væru af vitlausu kyni. Rétt eins og áður þurfti nauðsynlega að vernda börnin fyrir hommum og lesbíum, þar áður kommúnistum, guðleysingjum, Gyðingum ... og svo framvegis.
Þetta tókst prýðilega hjá íhaldsöflunum. Með því að ýta undir gamalkunnan ótta flestra við hið ókunna og framandlega, þá hefur tekist að telja grúa ekki bara Bandaríkjamanna, heldur fólks miklu víðar — þar á meðal á Íslandi — að það hafi rétt á að hafa „skoðun“ á því til hvaða kyns annað fólk á og má telja sig.
Að það, sitjandi við sínar Facebook-vélar, hafi meira vit og dýpri skilning á því hvort og hvenær ungt fólk má eða má ekki hefja líffræðilegar umbreytingar á líkama sínum til samræmis við kynið í sálinni.
Peningar streyma í kassann
Vestur í Bandaríkjunum streyma peningar í kassann frá fólki sem vill liðsinna íhaldsöflunum í baráttu þeirra við hið „stórhættulega“ trans fólk. Fasísk afturhaldsöfl hafa hvarvetna gripið þessa gæs (Orban, Erdogan, Pútín) og hamast nú eins og hinn varnarlitli og fámenni hópur trans fólks — nýfarinn að rétta úr bakinu — sé það hættulegasta sem þjóðirnar standa frammi fyrir.
Og furðu margir sem ættu að vita betur, líka hér á Íslandi, hafa látið sig hafa það að gerast „nytsamir sakleysingjar“ og taglhnýtingar íhaldsins í þessari auðsöfnun hægri prédikaranna og vörn hinna pólitísku afturhaldsafla.
Og meðal þeirra sem farnir eru að höggva eru því miður ýmsir þeir sem hlífa skyldi.
Auðvitað hefur vandamála orðið vart í mannréttindabaráttu trans fólks. Það hefur reynst hægt að tala um klósett ótrúlega lengi. Þátttaka trans kvenna í íþróttakeppnum getur haft í för með sér flækjur af því líkamsburðir þeirra eru helstil karlmannlegir. Og trans fólk hefur gerst sekt um glæpi því það er vitaskuld jafn misjafnt í sínu prívat siðferði og allt annað fólk. Enginn er engill þótt trans sé.
Fuglinn fljúgandi
Málið er hins vegar að hvert einasta vandamál er blásið upp úr öllu valdi svo það fer að líkjast háa fjallinu sem reis af hárinu úr hala Búkollu og enginn komst yfir nema fuglinn fljúgandi. Í stað þess að finna bara leiðir til að leysa vandamálin láta íhaldsöflin eins og þau séu öll til marks um heimtufrekju, mannvonsku og gott ef ekki ónáttúru trans fólks, og réttast sé að berja það allt saman niður.
Svo passið ykkur ef þið finnið hjá ykkur þörf til að kinka kolli þegar afturhaldið byrjar að fjargviðrast yfir hinu hættulega trans fólki, eða þegar þið standið ykkur að því að hafa „skoðun“ á því hvernig annað fólk kyngreinir sig. Það gæti verið Terry Schilling að leiða ykkur grandalaus inn í varnarvirki afturhaldsins.
Og þar viljum við ekki vera.
Athugasemdir (1)