Tveir stjórnarmenn í dómstólasýslunni, Hervör Þorvaldsdóttir forseti Landsréttar og Halldór Björnsson dómari við Héraðsdóm Vestfjarða, leggjast gegn frumvarpi dómsmálaráðherra um sameiningu allra héraðsdómstóla landsins í einn héraðsdómstól.
Þetta kemur fram í stuttri athugasemd sem þau Hervör og Halldór hafa sent inn til Alþingis, en þar segir að afstaða þeirra tveggja sé að þær breytingar sem gert sé ráð fyrir í frumvarpinu og lúta að sameiningu dómstólanna séu ekki til þess fallnar að styrkja dómstóla landsins eins og markmið frumvarpsins hljóti að vera.
„Þvert á móti teljum við að frumvarpið muni leiða til þess að draga úr sjálfstæði þeirra. Við leyfum okkur að vísa til athugasemda dómstjóra á landsbyggðinni og jafnframt að taka undir þau sjónarmið sem þar koma fram,“ segir í umsögn þeirra Halldórs og Hervarar.
Þrír á móti tveimur
Dómstólasýslan lætur þess getið í sinni umsögn um þingmálið að innan fimm manna stjórnar dómstólasýslunnar séu skiptar skoðanir um frumvarpið, en að meirihlutinn sé þó sammála efnislegri útfærslu frumvarpsins um sameiningu dómstólanna og styðji breytingarnar sem í því felast.
Auk þeirra Halldórs og Hervarar sitja þau Sigurður Tómas Magnússon hæstaréttardómari, Lilja Björk Sigurjónsson gæðastjóri og Lúðvík Örn Steinarsson lögmaður í stjórn dómstólasýslunnar.
Þau þrjú eru þannig sammála því að sameina dómstólanna með þeim hætti sem boðað er í frumvarpi dómsmálaráðherra, en Hervör og Halldór ekki.
Sameiningin feli í sér varanlega hækkun kostnaðar
Í umsögn dómstólasýslunnar um frumvarpið segir að öðru leyti að stofnunin sé ósammála því mati ráðuneytisins að kostnaður vegna frumvarpsins rúmist innan ramma gildandi fjárlaga.
Dómstólasýslan telur að fjárfestingar- og rekstrarkostnaður vegna sameiningarinnar muni nema um 220 milljónum króna á fjögurra ára tímabili og áætlar einnig að varanleg hækkun kostnaðar komi til með að nema um 21 milljón króna á ári.
„Dómstólasýslan hefur gert grein fyrir aukinni útgjaldaþörf á málefnasviði dómstóla við undirbúning fjármálaáætlunar fyrir tímabilið 2023-2027 og á ný fyrir tímabilið 2024-2028. Útgjaldaþörfin tengist m.a. þróun á innri kerfum dómstólanna vegna stafrænna umbóta hjá dómstólunum og þörf fyrir tækniþjónustu og tækniþekkingu hjá dómstólasýslunni og dómstólunum. Þessar umbætur eru nauðsynleg forsenda þess að ná fram áðurnefndum ávinningi af sameiningu héraðsdómstólanna. Með hliðsjón af framansögðu varar dómstólasýslan við því að ráðist verði í sameiningu héraðsdómstólanna á þeirri forsendu að sameiningin verði að fullu fjármögnuð innan ramma gildandi fjárlaga,“ segir í umsögn dómstólasýslunnar.
Stofnunin setur einnig fyrirvara við að lögin taki gildi 1. ágúst 2024 og segir afar hæpið að hægt verði að ljúka þeim mikla og vandaða undirbúningi sem þurfi að fara fram við sameiningu dómstólanna fyrir þann tíma. Dómstólasýslan leggur því til að tímasetningin verði færð aftur um eitt ár, og dómstólarnir átta verði sameinaðir í einn frá 1. ágúst 2025.
Athugasemdir