Gengi bréfa í Alvotech lækkaði um tæplega 22 prósent frá því að íslenska kauphöllin opnaði í morgun. Í lok dags í gær var markaðsvirði félagsins 528 milljarðar króna en var komið niður í 414 milljarða króna um klukkan tíu í morgun. Það hafði þá lækkað um 114 milljarða króna í fyrstu viðskiptum dagsins. Staðan hefur aðeins skánað síðan þá, en hlutabréfin í Alvotech hafa samt sem áður lækkað um 15,9 prósent það sem af er degi. Það þýðir að þau hafa misst vel yfir 80 milljarða króna af markaðsvirði sínu síðan í gær.
Ástæðan er einföld: skömmu eftir miðnætti í nótt greindi Alvotech frá því að matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna (FDA) hefði tilkynnt félaginu að eftirlitið geti ekki veitt félagið markaðsleyfi fyrir AVT02, sem líftæknilyfjahliðstæðu við Humira. Humira er söluhæsta lyf heims, en langstærsti hluti sölunnar fer fram á Bandaríkjamarkaði, eða um 85 prósent. Þar selst lyfið fyrir um 17 milljarða dala á ári, eða um 2.300 milljarða króna.
Í tilkynningu sem Alvotech sendi frá sér 22. desember í fyrra, þar sem greint var frá því að bandaríska lyfjaeftirlitið hefði staðfest að framlögð gögn hefði sýnt að kröfur um útskiptileika AVT02 væru uppfylltar var boðað að ákvörðun um veitingu markaðsleyfis myndi liggja fyrir 13. apríl 2023. Þann dag hækkuðu hlutabréf í Alvotech um 30 prósent.
Ætluðu að skila hagnaði á síðari hluta ársins
Alvotech, sem tapaði um 70 milljörðum króna á síðasta ári, hefur stefnt að því að skila hagnaði á seinni hluta þessa árs. Þau áform tóku mið af því að félagið gæti hafið markaðssetningu á AVT02 1. júlí næstkomandi. Eftir tíðindi næturinnar eru þau áform í uppnámi.
Í ársreikningi Alvotech vegna ársins 2022 segir að í lok síðasta árs hafi félagið átt 66,4 milljónir dala, um 9,5 milljarða króna miðað við árslokagengi Bandaríkjadals, í lausu fé. Án frekari fjármögnunar hefði Alvotech því ekki átt aðgengilega fjármuni til að starfa lengi á árinu 2023. Félagið hefur hins vegar verið duglegt að sækja sér slíka fjármuni á undanförnum mánuðum, á grundvelli áforma um að skila hagnaði á síðari hluta yfirstandandi árs.
Á meðal þeirra sem hafa fjárfest í félaginu eru hópur innlendra fjárfesta sem keypti hlutabréf í Alvotech fyrir 19,5 milljarða króna í janúar. Íslenskir lífeyrissjóðir keyptu um þriðjung þeirra bréfa sem seld voru. Það þýðir að þeir hafi keypt bréf fyrir yfir sex milljarða króna.
Bréf allra félaga sem skráð eru á Aðalmarkað Kauphallar Íslands sem búið er að eiga viðskipti með í dag hafa lækkað í virði, að Nova undanskildu sem hefur hækkað um 1,72 prósent. Kauphöllin opnaði því eldrauð í morgunsárið. Ástæða þess að virði bréfa í Nova hefur hækkað er sú að stærsti einstaki hluthafinn í félaginu, Nova Acquisition Holding ehf., sem átti 11,1 prósent hlut, seldi hann allan fyrir rúmlega tvo milljarða króna. Félagið er í eigu Pt. Capital frá Alaska, en framkvæmdastjóri þess, Hugh Short, var felldur úr stjórn Nova á síðasta aðalfundi félagsins. Hann hafði verið stjórnarformaður og sóttist eftir endurkjöri.
Athugasemdir